“Þetta eru mjög alvarlegar fréttir, en því miður ekki óvæntar. Við í Hugaraflinu höfum orðið vör við mjög “frjálslega” ávísun á þunglyndislyf síðustu ár og á sama tíma er takmarkað
upplýsingaflæði til þeirra sem kjósa að taka þunglyndislyf.
Í löndunum í kringum okkur eins og Bretlandi til dæmis hefur verið sett aukin áhersla á að kynna fólki bæði aukaverkanir lyfja og fráhvörf áður en valið er að taka lyfin.
Það ætti aldrei að nota geðlyf nema tímabundið til að ná mögulegri sjálfstjórn og fyrstu skrefum í bata en hér á landi er einstaklingumgert að taka lyf árum og áratugum saman,
jafnvel fjölda tegunda í einu. Með tímanum verður það æ óskýrara hvað þeim er í raun ætlað að lækna og hvort þau geri það. Að sama skapi getur
einstaklingur setið uppi með neikvæð áhrif eins og tilfinningadoða, skort á frumkvæði og skort á kyngetu, svo dæmi séu tekin.
Því miður er lítið talað um þá staðreynd að við mannfólkið höfum ótrúlega mikla möguleika á því að komast í gegnum geðræna erfiðleika án lyfja. Við þurfum tíma, vernd,
stuðning, samtal og hvatningu og ef það stendur einstaklingi til boða, getur viðkomandi frekar náð að virkja sál og líkama sér til hjálpar, án þess að taka lyf. Líkaminn hefur
“tæki og tól” til að hjálpa í gegnum ferlið og versta tímann. Í raun ætti það alltaf að vera fyrsta viðbragð þegar leitað er hjálpar, að hvetja til þess að farið sé í gegnum ferlið
án lyfja með tilheyrandi ráðstöfunum, ég tala af reynslu hér og margra annarra. Við höfum bæði rannsóknir og reynslu notenda sem sannar að þetta er hægt, er skaðaminni leið og
bataferlið getur hafist fyrr en ella, ef þessi leið er farin.
Í greininni kemur fram að mesta aukningu á notkun þunglyndislyfja sé að finna hjá stúlkum á grunnskólaaldri en að aukningin sé yfir 90% á árunum 2009-2019. Þetta eru vondar
fréttir og ég tel að hluta skýringarinnar sé að finna í þeim málflutningi að það sé bara ekkert mál að taka lyf ef um depurð sé að ræða og ungt fólk jafnvel hvatt til að taka
lyf. Þessa orðræðu tel ég hafa aukist á undanförnum árum, t.d. í fjölmiðlum og þáttagerð og á samfélagsmiðlum. Þessu verður að breyta!
Ég fagna því að hér sé rætt um mikilvægi lyfjaniðurtröppunar. Alþjóðlegu samtökin @International Institute for Psychiatric Drug Withdrawal (IIPDW, https://iipdw.org/) eru
samtök sem voru stofnuð árið 2017 með þeim tilgangi að efla þekkingu á þeim leiðum sem hægt er að fara í geðlyfjaniðurtröppun og hvaða kostir standa til boða í þeim löndum
sem þarna eiga í hlut. Fjöldi fagfólks og notenda með reynslu koma þarna saman og deila þekkingu, reynslu og áhyggjum sínum af þessari þróun í aukningu geðlyfjanotkunar. Eins
og einnig kemur fram í greininni, höfum við á Íslandi ekki mikla möguleika enn sem komið er til lyfjaniðurtröppunar, en verðum að taka málið föstum tökum, breyta aðferðum og
hugmyndafræði í kringum geðlyfjanotkun.”