Skip to main content
Fréttir

Neyðarkall frá Hugarafli samtökum notenda með geðræna erfiðleika!

By júní 1, 2018No Comments

Hæstvirtir flokksformenn, Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Sigurðsson.

Hugarafl eru samtök notenda sem hafa starfað með teymi fagfólks, svokölluðu GET teymi- þar sem sálfræðingar, iðjuþjálfi, félagsráðgjafi ofl. í alls 4 stöðugildum- hafa veitt einstaklingum með geðrænan vanda og fjölskyldum þeirra mikilvæga þjónustu, meðferð og eftirfyld. Starfið hefur byggst á valdeflandi nálgun, hverjum notenda er mætt á eigin forsendum. Úrræðið hefur vakið athygli fyrir árangursríkt starf innanlands og utan fyrir hversu farsælt samstarf fagfólks og notenda hefur reynst. Virðisauki þessa úrræðis felst í samstarfi fagfólks og notenda. Jafningafræðsla og stuðningur frá fólki sem hefur reynslu af geðrænum vanda bætist þannig við þá þjónustu sem fagfólkið getur veitt. Batasögur notenda og rannsóknir á úrræðinu staðfesta vel árangur þess. Á undanförnum árum hefur starf GET/Hugarafls með ungu fólk eflst sérstaklega og það vinnur innan samtakanna undir nafninu UNG-HUGAR að fræðslu t.d. innan skóla um geðrænan vanda. Alþjóðleg stefnumótun á sviði heilbrigðismála byggir í vaxandi mæli á áherslu á hlutverk notenda varðandi mótun og veitingu heilbrigðisþjónustu og brautryðjendastarf GET Hugarafls er í samræmi við þessar áherslur.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ákvað sl. haust að leggja niður GET-teymið án rökstuðnings. Við höfum leitað til núv. heilbrigðisráðherra sem hefur ákveðið að efla sérhæfða þjónustu í heilsugæslu við fólk með geðrænan vanda og því bundnar miklar vonir við að hann myndi vilja byggja á reynslu og árangri GET- teymisins og tryggja því starfsskilyrði. Ítrekað hefur verið fundað með ráðherrum heilbrigðis- og félagsmála, velferðarnefnd Alþingis, sérfræðingar og heilbrigðisstarfsfólk hefur skrifað stjórnvöldum/í fjölmiðla og rökstutt þörfina fyrir úrræðið, og notendur og fjölskyldur þeirra hafa skrifað, skipulagt aðgerðir og í raun grátbeðið stjórnvöld um að hlífa úrræðinu, allt enn án árangurs.

Því fylgir mikil ábyrgð að leggja niður úrræði sem hefur verið árangursríkt og óskiljanlegt að það sé gert án þess að fyrirliggji rannsóknir eða rökstuðningur þar sem sýnt sé fram á að úrræðið skili ekki þeim árangri sem því er ætlað. Þá er það einnig mikil ábyrgð að leggja niður úrræði sem fjöldi fólks og með geðræna erfiðleika treystir á. Fyrir utan þann stóra hóp sem sækir daglega þjónustu og endurhæfingu til GET/Hugarafls þá eru margir sem hafa náð bata sem leita til úrræðisins vegna bakslaga eða vanlíðunar og halda svo áfram sínu lífi eftir að hafa fengið þjónustu í stuttan tíma. GET/Hugarafl er eina úrræðið sem hefur boðið aðstandendum uppá markvissa þjónustu en hjá Hugaraafli eru starfandi sérstakir hópar fyrir aðstandendur. Úrræðið er öllum opið og þangað leitar fólk og aðstandendur einnig þegar geðræn vandkvæði eru að hefjast og greining liggur ekki fyrir. Fyrirhuguð fjölgun geðteyma á heilsugæslustöðvum er mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem fyrir er en þjónsta hinna nýju teyma verður veitt af fagfólki og því eðlisólík þeirri þjónustu sem GET hefur getað veitt vegna samstarfsins við notendur í Hugarafli.

Starfsmönnum GET hefur verið sagt upp og ef ekki verður brugðist við lokar úrræðið 1. september og þá missir Hugarafl, húsnæði, fagfólk og allt sem gerir starfið mögulegt. Við biðjum ykkur um að staldra við og ræða hvort það sé örugglega vilji ykkar að úrræði sem hefur náð jafn miklum árangri og raun ber vitni og er lífæð svo margra veikra einstaklinga verði lagt niður? Og ef svarið er játandi biðjum við ykkur um að okkur sem höfum starfað óslitið frá árinu 2003 við sjáflboðið starf til að þjóna jafningum með geðræna erfiðleika um rökstuðning fyrir því hvers vegna starf okkar er nú skyndilega metið sem eitthvað sem megi leggja niður. Við biðjum ykkur einnig um að íhuga fjárhagslegar afleiðingar þess að leggja niður ódýrt úrræði og bjóða þess í stað eingöngu uppá sérhæfða þjónustu fagfólks. Síðast en ekki síst biðjum við ykkur um að setja ykkur í spor einstaklings með geðræna erfiðleika og aðstandenda sem nú missa úrræði sem hefur verið þeim akkeri og leið til bata.

Við veitum gjarnan allar frekari upplýsingar.

Virðingarfyllst;
Málfríður Hrund Einarssdóttir formaður Hugarafls
Gsm. 8971653