Skip to main content
Greinar

Mesta fjörið er á boðefnabarnum

By July 27, 2016No Comments

Við eigum máske ekki peningatré en það má sannarlega segja að innra með okkur vaxi hamingjutré. Dópamín, serótónín, oxytocin og endorfín skipa þann dásamlega kvartett sem heldur okkur réttu megin í lífinu. Margt getur haft áhrif á virkni þessarra boðefna. Líka við sjálf. Fremur en að vera í farþegasætinu, eru til margar leiðir til að setjast í bílstjórasætið og leysa þau úr læðingi.

Við eigum máske ekki peningatré en það má sannarlega segja að innra með okkur vaxi hamingjutré. Dópamín, serótónín, oxytocin og endorfín skipa þann dásamlega kvartett sem heldur okkur réttu megin í lífinu. Margt getur haft áhrif á virkni þessarra boðefna. Líka við sjálf. Fremur en að vera í farþegasætinu, eru til margar leiðir til að setjast í bílstjórasætið og leysa þau úr læðingi. Það hefur sjaldan verið vinsælla en einmitt nú að sækja í eigin boðefnabrunn. Það er alltént klárt að það að vera í náttúrulegu jákvæðu ástandi hefur mælanleg áhrif á lífsgæði okkar, afköst og velferð.

Hér eru nokkur helstu boðefnin og hvernig mögulegt er að nýta sér þau í hag, án þess að taka eitthvað sérstakt inn:

Dópamín
Dópamín ýtir undir að við finnum okkur leið að markmiðum okkar, þrám og þörfum. Dópamín gefur okkur ánægjustrauminn og styrkinn, þegar við náum að leysa það úr læðingi. Slugs, frestunaráratta, sjálfsefi og doði eru nátengd litlu magni dóapamíns.
Rannsóknir á rottum sýna að þær sem búa yfir litlu dópamíni velja alltaf auðveldari leiðina og borða minna. Þær sem hafa hins vegar meira dópamín leggja mikið á sig og borða helmingi meira. Þær eru jú orkuboltar.
Til þess að halda góðu flæði dópamíns fer best á því að brjóta stóra markmiðið niður í smærri einingar og fagna litlu áföngunum. Að halda reglulega upp á litlu sigrana viðheldur góðu dópamínflæði. Og í stað þess að leggjast í dópamín “timburmenni” er vænlegt að byrja svo fljótt sem unnt er á næsta verkefni og vinna það með sama hætti. Þannig vinna t.d. góðir stjórnendur. Þeir fagna vissulega þegar stóru markmiðunum er náð en gæta þess líka að halda upp á, hrósa og svo framvegis, á leiðinni.

Serótónín
Serótónín er merkilegt boðefni og virkast þegar við finnum til okkar. Einmannaleiki og þunglyndi sýna sig þegar skortur er á serótóníni. Lítið magn serótóníns í líkamanum er sagt ein helsta ástæðan þess að fólk sýnir af sér andfélagslega hegðun. Barry Jacobs sérfræðingur í taugavísindum við Princeton hefur útskýrt að flest þunglyndislyf beini sjónum að framleiðslu serótóníns.

Heilinn er merkilegt fyrirbæri sem greinir oft ekki á milli raunverulegra minninga og ímyndunnar en í báðum tilfellum getur hann framleitt serótónín. Þetta er líka ein af ástæðum þess að það t.d. að iðka þakklæti nýtur vaxandi vinsælda. Það kallar fram það góða og minnir okkur á að við séum einhvers virði. Ef þú þarft t.d. á serótónín orkuskoti að halda miðri streitutíð, gefðu þér tíma til þess að rifja upp góðar minningar.
Það er annars margt hægt að gera til að auka magn serótóníns. Fyrir utan að iðka þakklæti, eða hugleiða á eitthvað gefandi, ýta útivist og sólböð undir aukningu serótóníns. Það á líka við um D-vítamín í skammdeginu, ásamt B6 og B12 vítamínum. Og svo er annað að koma sterkar í ljós sem er að ef’ þarmaflóra okkar er heilbrigð er serótónínið margfalt öflugra. Þar skipta holl fæða og inntaka vinalegra meltingargerlar miklu máli. Auk þess sem serótónín eykur getu okkar til að melta mat og halda okkur í heilbrigðri líkamsþyngd. Ásamt dópamíni er serótónín sagt mikilvægasta boðefnið.

Oxytocin
Oxytocin er það boðefni sem hefur með nándina og traustið að gera og ýtir undir heilbrigð sambönd. Það leysist úr læðingi m.a. við. kynlíf en líka þegar konur fæða börn og gefa brjóst. Þekkt er að dýrategundir hafna afkvæmum sínum þegar oxcytocin flæðið er blokkerað. Oxytocin ýtir undir tryggð og félagslega færni og styrkir bönd. Oft er talað um oxytocin sem “knús” boðefnið. Því sé gott að faðma eins mikið og nokkur kostur er. Dr. Paul Zak “taugahagfræðingur” (líka þekktur sem Dr. Love) segir snertingu og faðmlag auka oxytocin í líkamanum og draga um leið úr streitu og styrki ónæmiskerfið. Það sé því góður siður að faðma fólk fremur en að taka í hönd þess. Dr Zak mælir með átta faðmlögum á dag.

Endorfín
Það losnar um endorfín þegar við fáum verki og finnum sársauka. Endorfín er náttúrlegt verkjalyf en dregur líka úr hræðslu og kvíða. Vellíðan eftir átök á borð við langhlaup, lyftingar, hjólreiðar, orkugefandi jóga, eða aðra áreynslu stafar af flæði endorfínis. Endorfín er að mörgu leyti líkt morfíni því það dregur úr sársaukaskynjun. Semsé hreyfing og líka hlátur eru einföldustu leiðirnar til að losa um endorfín. En líka tilhlökkun eða það að vera á leiðinni að gera eitthvað spennandi.

Það er þó margt annað og fíngerðara í lífinu sem leysir endorfín úr læðingi, t.d. það að gefa eftir og láta sig fljóta. Þar sem flot er ekki hreyfing heldur slökun, hugleiðsla og vellíðan getum við að auki undið ofan af okkur og dregið um leið úr skaðlegum þáttum streituhormóna.
Þá hefur það sýnt sig að ilmir af lavender og vanillu eru tengdar losun endorfíns. Rannsóknir hafa líka gefið vísbendingar um að dökkt súkkulaði og kryddaður matur leiðbeini heilanum um losun endorfíns. Svo það er góð hugmynd að hafa dökkt súkkulaði og góða kjarnaolíu innan seilingar þegar þú vilt losa um þetta notalega boðefni.

Grein birtist upphaflega hér.