Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Mest lyfjanotkun og fæstir spítaladagar

By ágúst 31, 2017No Comments

Image result for geðdeildNotkun þunglyndislyfja er mun meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum, en legudagar á geðdeild eru mun færri. Notkun þunglyndislyfja hefur stóraukist hjá yngra fólki

Þunglyndislyf teljast til tauga- og geðlyfja og samkvæmt tölum frá NOMESCO, norrænu heilbirgðistölfræðinefndinni er notkunin mest hér á landi af Norðurlöndunum, um það bil 26% meiri en hjá þeirri þjóð sem næst kemur.

„Við erum með mestu notkun allra OECD-þjóða, við höfum séð þessa notkun í nokkuð mörg ár en hún er alltaf að aukast en síðustu ár höfum við séð talsverða aukningu meðal yngri notenda,“ segir Ólafur B. Einarsson verkefnastjóri á lyfjasviði Embættis landlæknis.

Hann segir notkunina óbreytta hjá aldurshópnum 45 til 49 ára, en aukninguna mikla meðal þeirra sem eru yngri,  allt að 38%. Skýringin á þessu sé ekki þekkt. Hann segir að þunglyndislyfin hafi verið svolítið undir radar því þau séu ekki talin ávanabindandi. Vert væri að skoða þessa þróun betur.

Þegar litið er á tölur NOMESCO frá 2012 yfir legudaga á geðdeildum kemur fram að þeir eru langfæstir á Íslandi af Norðurlöndunum og munar þar miklu. Á Íslandi eru þeir rétt rúmlega 90, tæplega 143 í Danmörku, 257 í Finnlandi, 292 í Noregi og 495 í Svíþjóð.  Aðspurður hvort þetta sýni að meira sé notað af lyfjum en minna af sjúkrahúsþjónustu, segir Ólafur.

„Það virðist allavega vera meira af lyfjum.“

NOMESCO tekur líka saman tölur yfir sérfræðilækna. Þegar litið er á fjölda starfandi geðlækna miðað við hverja hundrað þúsund íbúa kemur í ljós að fjöldi þeirra er í ágætu meðallagi miðað við nágrannalöndin.

Grein birtist upphaflega á ruv.is