Skip to main content
Greinar

Manía

By febrúar 22, 2014No Comments

1. Fylgi fötluðum manni í hjólastól inn á knattspyrnuvöll. Næmnin færist í aukana; ég er við áhorfendastúkuna, það rignir og ég heyri í gsm síma að hringja; tvær stúlkur hafa hringt og eru að leita að símanum. Geng rakleiðis á hljóðið og finn símann í rjóðri upp við netagirðingu sem umlíkur völlinn. Gamall æskufélagi gengur upp að mér; ég sé það á augunum að hann er drukkinn. Enda fer hann að ræða um endurkomu Krists upp úr þurru. Ég verð annarshugar, þykist hlusta. Seinna þegar hann er löngu farinn, tek ég eftir því að ég er farinn að trúa því sjálfur, að “ Hann sé að koma.“

Er allur í því að lesa í umhverfið, túlka það sem tákn þegar sólstafirnir brjóta sér leið í gegnum skýjaþykknið eins og á biblíumyndum sem ég fékk í sunnudagaskólanum. Enda koma sjófuglarnir fljúgandi yfir völlinn, og það hefur stitt snögglega upp. Á mig rennur mikilmennskubrjálæði. Ofviðrissvipur Ludwigs.

2. Laus við alla skelfingu geng ég djarfur fyrir neðan stúkuna og reyni að horfa ögrandi í augun á hverri einustu manneskju í von um að einhver mæti stingandi augnaráði mínu. En allir eru að horfa eitthvað annað. Þangað til ég horfist í augu við kunnuglegt andlit og sé að þar er stóreygður landbúnaðarráðherra; að hann horfir af skáldlegri alvöru á mig. Áður en ég veit af erum við komnir í störukeppni, þar til að ég tek eftir teiknimynda fígúrunni „Grim“ í áhorfendaskaranum; að hann heilsar mér, kinkar kolli. Ég drúpi höfði af oflæti, en heilsa þó með því að nikka höfðinu. Finn sterkt fyrir nærveru sjálfs; að ég hef vakandi auga með hugsanlegri þyrlu á sveimi á himninum. Stend hinum meigin við áhorfendastúkuna, fyrir aftan varamannabekkina, og þrátt fyrir varkárnina, fer ekki framhjá mér hvernig hann er krepptur. Stífar handahreyfingar hans þegar hann lifir sig inn í leikinn, hvernig hann öskrar með öllum líkamanum og kippist allur til í stólnum eins og hann hafi lesið hugsanir þjálfarans sem er skamt frá og hrópar á leikmenn.

3. Þegar minnst varir er maður með skrítna húfu eins og hirðfífl kominn upp við hliðina á mér. Samstundis fæ ég ískalt hugboð; að hann hafi verið sendur til að brjóta mig niður, hræða úr mér líftóruna þangað til að ég missi vitið. En þrátt fyrir sturlunareinkennin; missi ég ekki sjónar af leiknum. Í hvert sinn sem leikmaður spyrnir í boltann finn ég vöðvasamdrátt eins og ég hafi spyrnt boltanum sjálfur. Geng viðkvæmur í mannfjöldanum. Brothætt hugsunin; að allir líti snöggt á mig í einu, hvísli nafn mitt, reki út úr sér tungurnar; tungurnar sem eru klofnar. Finn og sé hvernig vatnið kreystist úr blautu grasinu. Þegar ég kem aftur – það er leikhlé. Sé ég að það er að létta til. Sólargeisli fellur á stakt andlit í iðandi mannhafinu. Ég ber kennsl á gamla kennaran minn síðan í barnaskóla. Hún er hrædd; á svipin eins og fígúra úr málverki Munchs. Ég brosi og læt sem ekkert sé að gerast. Tek eftir því að ég sé umhverfið á óvenjulegan hátt. Meira að segja börnin fá fullorðinslega andlitsdrætti; minna á smávaxnar dularverur í mannsmynd.

Ég hef enn vakandi auga með þyrlunni. Þetta er úrslitaleikur og tvísýnt hvar þyrlan lendir.

Höfundur Hörður Gunnarsson