Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Málþing Geðhjálpar, Mannamunur í mannréttindum

By maí 3, 2017No Comments

gedhjFRÉTTATILKYNNING

Mannamunur í mannréttindum

Reykjavík 3.maí 2017 – Mannamunur í mannréttindum er yfirskrift málþings Geðhjálpar og lagadeildar Háskólans í Reykjavík (HR), í HR þann 4. maí næstkomandi, um mannréttindi fólks með geðraskanir, Á málþinginu verður rætt hvort fólk með geðraskanir njóti sömu mannréttinda og aðrir hópar án fötlunar samkvæmt íslenskum lögum. Þeirri spurningu verður varpað fram í hverju möguleg mismunun felist og hvort brugðist verði við ákalli Geðhjálpar um endurskoðun gildandi lögræðislaga. Við sama tækifæri verður Réttindagátt Geðhjálpar opnuð og kynnt. Málþingið fer fram í stofu V101 og er öllum opið.

Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild HR setur málþingið og dregur niðurstöður þess saman í lokin. Fyrsta erindið heldur Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, sem fjallar baráttu samtakanna fyrir endurskoðun lögræðislaganna. Geðhjálp hefur bent  á nauðsyn þess að lögin séu endurskoðuð frá grunni með hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn felur í sér að óheimilt sé að mismuna fólki á grundvelli fötlunar, m.a. hvað varðar frelsisskerðingu, sviptingu lögræðis og þvingaða meðferð.

Næst mun Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, fjalla um gildandi lögræðislög og svara því hvort stjórnvöld telji ástæðu til að endurskoða lögin. Í beinu framhaldi mun Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, mannréttindalögfræðingur og þingmaður, kynna Réttindagátt Geðhjálpar og segja frá því hvaða lærdóm hún dró af yfirferð sinni yfir helstu lög og sáttmála um mannréttindi fólks með geðröskun við vinnslu vefsins. Þórhildur Sunna er fyrsti flutningsmaður nýframlagðar þingsályktunartillögu um endurskoðun lögræðislaga.

Með Réttindagáttinni www.rettindagatt.is er notendum geðheilbrigðisþjónustunnar, aðstandendum og öðrum hagsmunaaðilum gert kleift að sækja sér aðgengilegar, almennar upplýsingar og ítarefni í því skyni að verja og sækja réttindi þessa hóps. Gáttin skiptist í grófum dráttum í fjóra hluta: réttindi fólks með geðrænan vanda út frá sex ólíkum sjónarhornum; almenn réttindi með sérstakri tilvísun til geðrænna veikinda; réttarúrræði og stuðning og síðast en ekki síst víðfeðmt gagnasafn með upplýsingum um helstu alþjóðasamninga, lög, nefndarálit og úrskurði.

Í kjölfar yfirferðar Þórhildar Sunnu segir Kristinn Rúnar Kristinsson frá reynslu sinni af geðhvörfum, þvingun við nauðungarvistun og meðferð á spítala undir yfirskriftinni Mín eigin rússíbanareið. Þá mun Brynhildur Flóvenz, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, fjalla um „ósýnilegt“ valdaleysi og aðra vankanta í framkvæmd þjónustu við fólk með geðröskun út frá lögræðislögunum.

Botninn verður slegin í dagskrána með stuttum pallborðsumræðum þar sem Hrannar Jónsson,  Ragna Bjarnadóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Kristinn Rúnar Kristinsson og Brynhildur G. Flóvenz sitja fyrir svörum.

Nánari upplýsingar veita:

Anna G. Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar í s. 693 9391 og
Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá HR  í síma 859 5117, netfang eirikursig@hr.is