Skip to main content
Greinar

Málefni Hugarafls ofarlega í huga margra

By júní 8, 2017No Comments

Selma Ragnheiður Klemensdóttir iðjuþjálfi tjáði sig um málefni Hugarafls á afmælisdegi félagsins.

Image result for alþingi

Hægt er að smella á myndina til að fara á umræður um málefni Hugarafls á Alþingi

Í dag á afmælisdegi Hugarafls langar mig að tjá mig um þau samtök sem eru mér mjög kær. Það er fyrir mér óskiljanlegt að fólk sem stjórnar því hvert peningarnir í okkar landi fara, gefi sér ekki betri tíma til að sjá og skilja hvað fram fer á þessum góða stað. Eflaust gera það einhverjir og vil ég alls ekki alhæfa, en það vantar fleiri sem tala máli Hugarafls. Ég las á vef Alþingis umræður frá 29. maí sl., að enn er fjárhæðin rúmlega 1,5 milljón sem Hugarafl á að fá í sinn hlut frá ríkinu í ár. Þarna lækkar styrkurinn úr 8 milljónum frá því í fyrra hjá félagi sem vex jafnt og þétt og sparar miklar fjárhæðir fyrir samfélagið. Mitt mat er að Hugarafl ætti að vera hluti af heilbrigðisþjónustu landsmanna á vegum ríkisins.

Þegar ég hugsa um Hugarafl þá vakna allskonar tilfinningar og allar eru þær góðar, mér hlýnar í hjarta og hugurinn verður eitthvað svo glaður og léttur, ég fyllist líka stolti yfir því sem Auður Axelsdóttir og félagar hennar hafa byggt upp á þeim fjórtán árum sem liðin eru frá stofnun samtakanna.

Ég útskrifaðist sem iðjuþjálfi 2006 og tveimur til þremur árum síðar óskaði ég eftir því við Auði að vera nemi hjá henni í tvær vikur. Hún hafði stutt mig mikið með óformlegri handleiðslu og tilfinningalegri hjálp sem er mér ómetanleg og er eitt af því sem gerir mig að þeirri manneskju og þeim iðjuþjálfa sem ég er í dag og vil vera. Ég heillaðist af þeirri nálgun sem þar fer fram og því samstarfi sem er á milli allra aðila hvort sem það eru háskólagengnir fagmenn eða fagmenn á öðrum sviðum og í sínum tilfinningum og lífi. Valdefling er hugtak sem ég hef lagt mig fram um að vinna eftir og hef ávallt í huga samvinnu milli mín og þess sem leitar til mín. Þarna er Hugarafl mín fyrirmynd.

Ég hef ekki komið mikið í Hugarafl undanfarin ár, en er alltaf í sambandi við Auði og fylgist með úr fjarlægð þar sem ég bý á Egilsstöðum. Ég veit hve mikið samtökin hafa vaxið og það vex ekkert „af því bara“. Það er alltaf einhver sem hlúir að og sér til þess að hlutirnir gangi upp og það hefur Hugaraflsfólk gert með þeirri frábæru samvinnu sem þar fer fram.
Ég vona svo innilega að stjórnvöld endurskoði sína ákvörðun og sýni Hugarafli þá virðingu sem þeim ber svo að starfsemi þeirra geti haldið áfram að vaxa og dafna.

Til hamingju með daginn ykkar.