Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Lífsreynslan hefur áhrif á heilsufar

By febrúar 20, 2016No Comments

Linn Getz læknir og vísindamaður.Linn Getz læknir og vísindamaður.

Læknisfræðin hefur málað sig út í horn með því að einblína um of á líffræði líkamans og hunsa mikilvægi ævisögu og umhverfis sjúklinga, segir Linn Getz læknir og vísindamaður. Hún bendir á að nýjustu rannsóknir renni stoðum undir að huga beri að aðstæðum fólks þegar líkamlegir kvillar eru teknir til skoðunar.

„Mig hefur langað til að varpa ljósi á það að ævi fólks og aðstæður hafa líffræðileg áhrif á líkamann. Tungutak læknisfræðinnar hefur hins vegar varla leyft þessa nálgun undanfarna áratugi. Nú hafa hins vegar birst rannsóknir úr heimi náttúruvísinda, sem sýna fram á áhrif umhverfis, uppeldis og atlætis á líkama fólks og heilsu,“ segir Linn Getz, læknir og vísindamaður, sem undanfarin ár hefur vakið athygli meðal kollega sinna á Norðurlöndum og víðar fyrir rannsóknir á mikilvægi samskipta og samspils lífsreynslu og líffræðilegra áhrifa á líkamann. Hún hlaut norrænu rannsóknarverðlaunin í heimilislæknisfræði 2011 fyrir brautryðjendastörf á þessu sviði.

Linn er norsk en hefur verið búsett hér á landi síðan 1996 en hún er gift Jóhanni Ágústi Sigurðssyni, prófessor í heimilislækningum, og saman eiga þau tvö börn. Linn starfar sem trúnaðarlæknir Landspítalans en hún er sömuleiðis dósent í heimilislæknisfræði við háskólann í Noregi. Hún hellti sér út í rannsóknir fyrir nokkrum árum og þá beindi hún fyrst sjónum sínum að áhættuhugtakinu eins og það er notað meðal lækna.

Áhættufaraldur heilsuspillandi

„Það hefur verið mikil áhersla lögð á áhættuþætti. Til dæmis eru gefin út viðmið fyrir æskilegan blóðþrýsting og kólesterólgildi eða blóðfitugildi. Læknum er gert að fara eftir leiðbeiningum sem einblína einungis á líffræði líkamans en sleppa því að ræða áhrif streitu til dæmis, sem þó er vitað að hefur áhrif á blóðþrýsting svo dæmi séu tekin af þeim leiðbeiningum,“ segir Linn sem einnig bendir á að tilhneiging sé til að færa viðmiðin með þeim afleiðingum að fleiri lenda í áhættuhópi.

Nýverið var til dæmis viðmiði um æskilegan blóðþrýsting breytt og í kjölfarið eru um 70 prósent norskra karla um tvítugt talin með óæskilega háan blóðþrýsting. „Þegar svo er komið þá þarf að ræða viðmiðið,“ segir Linn og sýnir mér tölur úr norskri rannsókn sem sýna að einungis lítill hluti Norðmanna sé við góða heilsu sé farið eftir mælingum á áhættuþáttum en það skjóti skökku við þá staðreynd að meðalævi Norðmanna sé yfir 80 ár.

„Okkar rannsóknarhópur hefur efast um að þessi „áhættufaraldur“ sé góður fyrir heilsuna. Við megum ekki gleyma að þetta er áhugamál sterkra hagmunasamtaka. Það er svo mikill peningur í kólesteról- og blóðþrýstingsiðnaðinum. Ekki bara í lyfjum, heldur í alls kyns lífsstílsfræðum. Það er mikilvægt að fólk hreyfi sig og hugi að því sem það borðar en hvatningin verður þó að vera vellíðan og lífsgæði en ekki það að uppfylla læknisfræðilega staðla.“

Skimanir hafa líka galla

Linn bendir einnig á að skimun fyrir krabbameini sé flóknara viðfangsefni en fram kemur í upplýsingum til almennings. „Skimanir hafa bæði kosti og skaðvænlegar afleiðingar, en í boðsbréfum um skimun koma eingöngu fram upplýsingar um hugsanlega kosti. Það að fara í brjóstamyndatöku vegna skimunar, getur verið góður valkostur, en það sama á einnig við um það að velja að fara ekki. Erlendar rannsóknir benda á að mikið sé um ofgreiningar, sem þýðir að margar konur ganga í gegnum meðferð við brjóstakrabbameini sem hefði kannski aldrei orðið að alvarlegu meini. Hér vill stundum gleymast að krabbameinsmeðferð getur verið mjög erfið og skapað skilyrði fyrir nýja sjúkdóma hjá sjúklingnum.“

Linn segir nauðsynlegt að læknar fari að hugsa á róttækan hátt um fræðin og losi sig undan hefð sem geri ráð fyrir að líta megi á líkamann sem gangvirki eins og hverja aðra vél.

„Stundum er sagt að rétt eins og fara eigi með bílinn í skoðun árlega ætti fólk að fara í heilsutékk á hverju ári. Þessi samlíking stenst ekki þar eð önnur lögmál gilda fyrir lifandi hugsandi verur en fyrir bíla. Það er ekki nóg að fara til læknis og láta mæla hitt og þetta ef persónulegt viðtal er ekki hluti af matinu,“ segir Linn. Mikilvægasta „heilsutékkið.“ sé í raun að spyrja fólk hvað því finnist sjálfu um heilsu sína.

Hugur og líkami heild

Hún segir láta nærri að innan læknastéttarinnar hafi stundum lítið verið gert úr læknum sem hafi sýnt áhuga á ævisögu og lífsskilyrðum sjúklinga sinna. Nú sýna nýjar rannsóknir hvernig lífsreynslan „skrifar sig inn í“ líkamann og hafi þannig víðtæk áhrif á heilsu og sjúkdóma. Því fái hún oft mjög þakklát viðbrögð við fyrirlestrum sínum fyrir lækna sem þakka henni fyrir innblástur og hvatningu til að ræða við sjúklinga.

„Læknar segja mér að þeim hafi liðið eins og í spennitreyju, allt hafi gengið út á líffræði líkamans og aðstæður fólks ekki átt að skipta máli. Hugur og líkami eru órjúfanleg heild og það sem við upplifum getur haft mikil áhrif á líkama okkar. Það er til dæmis ekki óalgengt að þeir sem þjást af vöðvaverkjum eða vefjagigt eigi sér erfiða fortíð.

Barn sem þarf að taka ábyrgð mjög snemma, til dæmis á foreldum sem eru alkóhólistar, eða barn sem verður fyrir ofbeldi getur orðið að fullorðnum einstaklingi sem glímir við verki, þunglyndi og aðra sjúkdóma. Því betur sem við skiljum hvernig ævisagan og heilsufarið spila saman, því meiri tækifæri höfum við á að skilja og hjálpa viðkomandi,“ segir Linn sem segir gagnrýnivert að líta á þunglyndi sem bara líffræðilegan sjúkdóm sem spretti upp án utanaðkomandi skýringa.

Það sé mikilvægt að læknir reyni að komast að því í samtali við sjúkling sinn hvað varð kveikjan að þunglyndinu, því oft sé orsökin atvik eða aðstæður sem eiga sér lengri sögu. „Sama má segja um króníska verki, það er nauðsynlegt fyrir lækni sem vill veita góða meðferð að kynnast ekki bara verkjunum heldur einnig persónunni sem hann er að meðhöndla. Ævisaga og lífsreynsla mótar mannslíkamann strax frá upphafi.“

Sigríður Björg Tómasdóttir skrifar
visir.is 23:00 13. ÁGÚST 2011