Skip to main content
Fréttir

Jólakortin hjá Hugarafli

By desember 17, 2018No Comments

Jólakort til sölu hjá Hugarafli.

 

Fallegu jólakortin eftir Stefán Jörgen Ágústsson fást hjá Hugarafli. Endilega sendið vinum og vandamönnum fallega jólakveðju og styrkið um leið gott málefni.

Stefán Jörgen Ágústsson fæddist í Reykjavík 24. mars 1977. Hann lést á heimili sínu 8. apríl 2018.

Stefán Jörgen vann við tæknibrelluförðun. Hann stundaði hönnunarnám við Iðnskólann í Hafnarfirði árin 1993-1995. Þá lærði hann og starfaði undir handleiðslu förðunarlistamannsins og Óskarsverðlaunahafans Dick Smith og lauk prófi frá bréfaskóla hans árið 1995. Stefán var að miklu leyti sjálfmenntaður en sótti og kenndi ótal námskeið í listinni hér heima. Þá sótti hann einnig námskeið og sýningar í Englandi, þar lærði hann m.a. hárkollugerð, hárvinnu og hárgötun sem hann þróaði áfram. Stefán vann í Pinewood Studios árið 2009 við myndina The Wolfman í hárvinnuhópi Rick Baker, sem fékk Óskarinn 2010 fyrir besta árangur í förðun í sömu mynd.

Sögusafnið prýða verk Stefáns að stórum hluta, hann vann á byrjunarstigi safnsins í Garðabæ árin 2001-2003, þar kenndi hann þeim sem þar unnu vinnu með hár, hárgötun, mótavinnu, afsteypugerð o.fl. Skrifarinn í Sögusafninu er afsteypa af andliti Stefáns. Hann hannaði og gerði handbrúðurnar Búbbana fyrir Stöð 2 árið 2006. Einnig er hann frumhönnuður Glanna glæps í þáttunum um Latabæ árið 2003 og árið 1999 hannaði hann, leikföng, sparibauka og handbrúður fyrir Latabæ. Hann starfaði hér og erlendis fyrir lítið þekkta, landsþekkta sem heimsfræga leikara, leikstjóra og listamenn. Kvikmyndir: It Hatched 2017. Austur 2014. Eddan, tilnefning fyrir gervi ársins 2012 í Algjör Sveppi og töfraskápurinn. Algjör Sveppi 2014-2009. Eddan 2011 fyrir gervi ársins í The Good Heart. Djúpið 2011. The Wolfman 2009. Reykjavík Rotterdam 2008. Köld slóð, Mýrin, Flags of Our Fathers, Letters from Iwo Jima, The Last Winter 2006. A Little Trip to Heaven 2005. Myrkrahöfðinginn 1997. Sjónvarp: Búbbarnir 2006. Leikhús: Sindri silfurfiskur 2009. Gosi 2007. Söfn: Stefán var við vinnu og kennslu á verkstæði Sögusafnsins 2001-2003 í kynningarmyndbandi safnsins. Stefán vann við á þriðja tug kvikmynda frá 1990-2017 einnig vann hann fyrir leikhús, söfn, sjónvarp o.m.fl.

Kortin er hægt að kaupa í Hugarafli, Borgartúni 22.   Hægt er að kaupa stök kort á 100 krónur,  6 kort saman í pakkningu á 500 krónur eða 12 kort saman á 1.000 krónur.  Umslög fylgja með í pakkningunum.  Allur ágóði af sölu jólakortanna rennur til Hugarafls.