Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) veitti Hugarafli hvatningarverðlaun á Landsþingi Bandalagsins nú um helgina. Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls og Auður Axelsdóttir, forstöðukona GET tóku við verðlaununum fyrir hönd Hugarafls.. Fanney Úlfljótsdóttir formaður bandalagsins veitti hvatninguna og sagði í ræðu sinni að Hugarafl hefði haft mikil áhrif á íslenskt samfélag og sinnt þýðingarmiklu hlutverki í geðheilbrigðismálum. Samtökin hefðu meðal annars hlúð sérstaklega að ungu fólki í starfi sínu. Einnig var lesin upp ályktun Bandalags kvenna í Reykjavík þar sem stjórnvöld eru hvött til að styðja Hugarafl í baráttu sinni fyrir áframhaldandi tilvist samtakanna.
Bandalag kvenna í Reykjavík var stofnað 30. maí árið 1917 og hefur meðal annars að markmiði að vinna að velferðrar og fjölskyldumálum, stuðla að jafnræði til náms óháð efnahagslegri og félagslegri stöðu og standa fyrir hverskonar menningar- og fræðslustarfsemi. Aðild að Bandalaginu hafa kvenfélög í Reykjavík og félög karla og kvenna sem starfa að markmiðum þess. Í Bandalaginu eru nú 16 aðildarfélög.
Viðurkenningin er Hugaraflsfólki kærkomin og er okkur svo sannarlega hvatning til að halda áfram á sömu braut.