Skip to main content
FréttirGreinar

Húsfyllir var á borgarafundi um stöðu Hugarafls og GET

By apríl 18, 2018No Comments

Vel var mætt á fund Hugarafls sem haldinn var í Borgartúni í gær. Fjórir stólar stóðu þó auðir, en þeir voru fráteknir fyrir fulltrúa frá velferðarráðuneytinu, Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hugarafl gefur fólki tækifæri til lífs og framtíðar, sagði formaður Unghuga

„Ég tók áhættuna, ákvað að trúa á þessa hugmyndafræði og að bati væri raunverulegur – raunverulegur fyrir alla, líka fólk eins og mig. Á því eina og hálfa ári sem ég hef verið í Hugarafli hef ég kynnst stórkostlegu fólki. Ég fékk meðal annars stuðning í Hugarafli til þess að ljúka BA-námi í sálfræði og brautskráðist með fyrstu einkunn,“ sagði Fanney Björk Ingólfsdóttir, formaður Unghuga, ungliðahóps innan Hugarafls, samtaka notenda geðheilbrigðisþjónustunnar á Íslandi.

Ummælin lét hún falla á borgarafundi um stöðu Hugarafls og geðheilsu- og eftirfylgdarteymis (GET), sem starfað hefur innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins síðastliðin 15 ár, en til stendur að leggja teymið niður og draga úr stuðningi við Hugarafl. Fundurinn var haldinn í Borgartúni í gær og var húsfyllir.

Fanney Björk er með geðhvarfaklofa og eru einkennin t.a.m. ofsjónir, ofheyrnir, ranghugmyndir og persónuleikabreytingar. Hún segir starf Hugarafls skipta sig miklu.

„Hugarafl býður upp á valdeflingu, raunverulega batamiðaða nálgun, stuðning fyrir aðstandendur, jafningjagrundvöll og fleira. Hugarafl gefur fólki eins og mér tækifæri til að eiga alvöru líf og framtíð á okkar forsendum og á okkar eigin persónulega hátt. Fyrir mér er mikilvægi þessarar starfsemi algerlega augljós,“ sagði hún.

Leggja traust sitt á þingið

Málfríður Hrund Einarsdóttir er formaður Hugarafls. Hún segir virka félaga þar vera á bilinu 150 til 200. „Á hverjum degi koma til okkar 40 til 70 manns. Við erum því með mjög stóran hóp fólks sem er að sinna sinni endurhæfingu hjá okkur og þau munu náttúrlega glata því fari svo að við missum húsnæði okkar,“ segir Málfríður Hrund í samtali við Morgunblaðið, en að óbreyttu mun Hugarafl missa húsnæði sitt 1. september næstkomandi.Aðspurð segist hún vera ánægð með mætingu á fundinn, yfir 100 manns, en bendir um leið á að fjórir stólar hafi staðið auðir allan tímann.

„Þeir voru fráteknir fyrir velferðarráðuneytið, Embætti landlæknis og heilsugæsluna. Fulltrúum þeirra var boðið að koma og taka þátt í pallborðsumræðum, en enginn þeirra mætti,“ segir Málfríður Hrund. „Þetta eru mjög skýr skilaboð. Það sem blasir við nú er að halda áfram pólitískum þrýstingi og treystum við á velferðarnefnd Alþingis.“

Grein birtist upphaflega í Morgunblaðinu 18.04.2018