Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Hugaraflsfólk í fyrsta þætti af Paradísarheimt

By febrúar 6, 2017No Comments

Einar Björnsson og Vala Ósk Gylfadóttir voru meðal viðmælenda í fyrsta þætti Paradísarheimtar á RUV.   Í þessari nýju  þáttaröð ræðir Jón Ársæll Þórðarson við fólk sem á við geðrænan vanda að stríða og hefur gengið í gegnum ótrúlegar raunir vegna geðveiki sinnar en einnig unnið mikla sigra í baráttunni við sjúkdóminn. Stjórnandi þáttanna ásamt Jóni Ársæli er Steingrímur Jón Þórðarsson en þeir hafa starfað saman að þáttagerð í 20 ár og stýrðu m.a. hinum margverðlaunuðu þáttum Sjálfstæðu fólki.

vala

Vala Ósk Gylfadóttir. Mynd: RUV

Vala Ósk Gylfadóttir þjáist af þunglyndi og hefur gert tilraunir til að taka eigið líf. Hún skaðar sjálfa sig til að takast á við það sem hún nefnir tómleikann.  „Ég skar og brenndi mig. Ég jafnvel drakk eitur og helti sýru yfir lappirnar á mér,“ segir Vala Ósk en hún hafði mikla sjálfseyðingarhvöt strax á unglingsárunum. Hún vissi hins vegar ekki af hverju hún stafaði og hafði aldrei heyrt minnst á sjálfsskaðandi hegðun. „Það var mikil sjálfsfyrirlitning í gangi, mér leið ofboðslega illa, innri vanlíðan og reiði. Í dag skil ég hvað var í gangi, ég var að reyna að deyfa sársauka með öðrum sársauka.“

Vala Ósk notar stundum venjulegan kveikjara til að brenna sig. „Ég kveiki á kveikjaranum og sný honum við til að hita járnið. Svo set ég bara járnið við húðina og heyrist alveg suð þegar það brennur. Geri ég það aftur og aftur og aftur. Ég fæ svona ákveðna vellíðunartilfiningu í leiðinni. Ég finn alveg sársauka. En ekki eins mikinn sársauka og fólk myndi halda. Því hluti af því er, ég er að losa um andlegan sársauka og fæ ákveðna útrás.“

Einar

Einar Björnsson. Mynd: RUV

„Ég held að ég hafi ætlað að hengja mig upphaflega. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta fór allt saman, en ég man hvernig mér leið,“ sagði Einar Björnsson í þættinum í gær. var lagður í einelti frá sex ára aldri sem hann telur að hafi haft mikil áhrif á andlega heilsu sína alla tíð upp frá því.

Geðdeildin var annað heimili Einars um árabil og í þeirri ferð fór hann til helvítis, eins og hann orðar það sjálfur, en komst aftur heim til heilbrigðis. „Svörtustu tímarnir, þá er algjört vonleysi. Orkuleysi, bjargarleysi, maður getur ekkert gert til að breyta ástandinu. Þannig upplifir maður hlutina,“ segir Einar. „Manni finnst maður ekki geta gert neitt almennilega eða sé ekki hæfur sem manneskja. Ég upplifði það.“

Einar var ósköp eðlilegt barn en kvíðinn, sem átti eftir að setja mark sitt á líf hans, var aldrei langt undan. Í grunnskóla þjáðist hann af vanlíðan og íhugaði að taka eigið líf. „Ég var lagður í einelti frá því að ég byrja hér í skóla, frá því að ég var sex ára gamall. Ég held að það hafi haft alveg gífurleg áhrif á mig seinna,“ segir Einar, sem íhugaði að taka eigið líf sem barn.

Einar og Vala eru öflugt Hugaraflsfólk sem hafa verið dugleg að gefa af sér til samtakanna. Þau eru mörgum ómetnalegar fyrirmyndir og sýna á hverjum degi að það er hægt að áorka miklu í lífinu þrátt fyrir allskonar hluti sem upp koma.

Hér má sjá fyrsta þáttinn af Paradísarheimt en alls verða þættirnir sex talsins og eru sýndir á sunnudagskvöldum á RUV.