Skip to main content
Fréttir

Fréttatilkynning frá Hugarafli!! Hugarafli er boðið á alþjóðlega ráðstefnu Evrópuráðsins í Riga 14. nóvember

By nóvember 10, 2023No Comments

Hugarafli hefur verið boðið að halda tvö erindi á alþjóðlegri ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins-Council of Europe/ Steering Committee for Human rights. Hugarafl hefur nú starfað á Íslandi í 20 ár og stuðlað að breytingum og framförum í íslensku geðheilbrigðiskerfi sem eftir er tekið.

Heiti ráðstefnunnar er “Promoting autonomy in mental health care”, sem haldin verður í Riga Lettlandi þann 14.nóvember. Leitað er til Hugarafls vegna þess árangurs sem samtökin hafa náð á undanförnum árum og í skýrslu Evrópuráðsins er Hugarafl skráð sem ”Best practices” vegna einstaks árangurs og hugsjónabaráttu. Hér er lögð áhersla á sjálfræði notandans og réttindi í allri þjónustu.

„The initiative “Hugarafl” was among those examples that were presented in the Compendium of good practices to promote voluntary measures in mental health services,  which was published by the CDBIO.

Vefsíða ráðstefnunnar og dagskrá: Promoting autonomy in mental health care practice – Human Rights and Biomedicine (coe.int)

Fyrir hönd Hugarafls munu þær Auður Axelsdóttir framkvæmdastjóri Hugarafls og Málfríður Hrund Einarsdóttir formaður framkvæmdastjórnar, leggja land undir fót og taka til máls á ráðstefnunni. Fyrra erindi þeirra ber nafnið Equality-Empowerment-Hugarafl og þar verður fjallað um starf samtakanna og þann einstaka árangur sem hefur komið fram m.a. í Þjónustu Könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í september 2022. Fjallað verður um hugmyndafræði bata og valdeflingar, notendastýrða starfsemi á jafningjagrundvelli og þá miklu þekkingu sem hefur skapast á geðheilbrigði með starfsemi félagsins í tvo áratugi. Einnig verður farið yfir í erindinu hvernig samskiptum og samvinnu grasrótar samtakanna er háttað við stjórnvöld og opinberar stofnanir.

Seinna erindi Hugarafls snýr að geðfræðslu verkefni Hugarafls sem hefur verið rekið í félaginu í tæp 20 ár og heitir Mental health education for high-school and junior college students – Hugarafl

Í Geðfræðslu Hugarafls hafa notendur geðheilbrigðiskerfisins sem einnig eru félagar í Hugarafli farið í grunn- og framhaldsskóla og sagt sögu sína af því að glíma við andlegar áskoranir og náð bata. Verkefnið hefur gefið góða raun því notendurnir hafa náð til unga fólskins með því að ræða við þau á jafningjagrunni, svara spurningum þeirra og þannig sýnt að notendur geðheilbrigðiskerfisins eru venjulegar manneskjur. Einnig hefur Geðfræðslan stuðlað að auknum bjargráðum ungmenna til að höndla vanlíðan og finna leiðir til þess að efla geðrækt.

Þetta er mikill heiður og viðurkenning á starfi Hugarafls að Evrópuráðið skuli óska eftir nærveru Hugarafls sem nú hefur starfað á Íslandi í 20 ár og stuðlað að breytingum og framförum í íslensku geðheilbrigðiskerfi. Sá góði árangur sem Hugarafl hefur náð með því að ljá notendum von, mynda tengsl á jafningjagrunni og stuðla að valdeflingu þeirra og hvetja þá áfram til bata og betra lífs hefur ekki einungis vakið eftirtekt hérlendis, árangurinn hefur líka vakið áhuga Evrópuráðsins og annarra erlendra samstarfsaðila Hugarafls erlendis. Hugarafl hefur leitt fjölda verkefna í Evrópu í samstarfi við Erasmus plus og tengslanet Hugarafls teygir sig mjög víða m.a. til Bandaríkjanna og Indlands svo dæmi séu tekin.

 

Með kærri kveðju;

Auður Axelsdóttir framkvæmdastjóri Hugarafls gsm. 663-7750

Málfríður Hrund Einarsdóttir gsm. 897-1653