Ef aðeins opinberar stofnanir geta vísað þeim sem glíma við geðraskanir áfram til frjálsra félagasamtaka glatast dýrmætur tími til að grípa inn í, að mati Hugarafls. Slíkt kerfi er hrein hindrun að mati samtakanna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér vegna ummæla Leifs Bárðarsonar, sviðsstjóra eftirlits og gæða hjá embætti landlæknis, í fréttum RÚV á miðvikudag.
Í yfirlýsingunni kemur fram að opinberir aðilar sem greiði fyrir þjónustu samtakanna hafi aðgang að upplýsingum um árangursmælingar, þátttöku, hugmyndafræði og starfið sem verið er að inna af hendi. Leifur sagði í fréttinni að oft bærust upplýsingar treglega á milli meðferðarstaða en Hugarafl segir ekkert því til fyrirstöðu að veita upplýsingarnar, sé það gert á forsendum einstaklingsins og með upplýstu samþykki hans. Þær séu veittar ef einstaklingurinn biður um það og með þeim hætti sem samræmist nýjum lögum um persónuvernd.
Leifur telur að þjónustan þurfi að vera þannig að fólk sem ekki þurfi að leita strax á geðdeild fari fyrst til heilsugæslunnar sem vísi því svo áfram í réttan farveg – aðra stofnun eða frjáls félagasamtök. Hugarafl segir þetta ekki í samræmi við þá hugmyndafræði sem alþjóðleg stefnumótun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO og Sameinuðu þjóðanna byggi á og talað sé um að eigi að vera. „Slíkt þjónustuferli, þar sem einstaklingar komist ekki í tæri við starf félagasamtaka fyrr en eftir biðtíma hjá heilsugæslu og svo tilfallandi tilvísun frá fagaðila – er hrein hindrun. Ef fólk verður að bíða eftir tilvísun til að komast í þjónustuúrræði þá erum við að glata dýrmætum tíma til að grípa fólk þegar það hefur drifkraftinn, frumkvæðið og þorið til að óska eftir aðstoð. Þarna höfum við glugga sem hefur opnast tímabundið – og við verðum að grípa það tækifæri þegar það gefst! Það að skapa óþarfa hindranir og draga tímabilið á langinn getur hreinlega verið skaðlegt. Hér er leikið með líf.“
Um gagnrýni Leifs þess efnis að fagmennska fari ekki saman við hagsmuni félagasamtakanna sjálfra segir Hugarafl að ýmis félagasamtök hafi ráðið til sín fagfólk sem vinni náið með einstaklingum. Það sé fjarri lagi að fagmennsku þeirra sé ábótavant eins og Leifur gefi í skyn. „Fagfólk sem er reiðubúið til að vinna með félagasamtökum, þ.e. samhliða einstaklingunum sjálfum og fjölskyldum þeirra, er líklegast til að veita batahvetjandi þjónustu, byggða á valdeflingu. Það er krefjandi að vinna á þennan hátt, krefst þess að við breytum ríkjandi valdastrúktúr og deilum valdi með notendum. Það skilar fólki líka aftur út í lífið! Það eru ekki allir fagaðilar í stakk búnir til að vinna á þennan hátt, en það eru ýmsar fagstéttir sem eru hæfar til að vinna svona og skila árangursríku, gagnreyndu, faglegu starfi,“ segir í yfirlýsingu Hugarafls.
Grein birtist upphaflega á RUV.is