Skip to main content
Fréttir

Hrein og klár aðför að öllum lífeyrisþegum

By september 29, 2014No Comments

bb.is | 29.09.2014 | 14:50

Finnbogi Sveinbjörnsson.
„Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja varðandi þetta mál, þetta er svo dæmalaust,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og stjórnarmaður í Lífeyrissjóði Vestfirðinga, varðandi fyrirhugaðar skerðingar á réttindum þeirra sem fá örorkulífeyri. „Til þess að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða í landinu kom á sínum tíma til ákveðið framlag til sjóðanna frá ríkinu, því að sjóðirnir eru að taka á sig ákveðnar skuldbindingar sem ríkið ætti að sjá um. Ætlast er til að stéttarfélög í landinu hlaupi undir bagga og noti sína sjóði til að viðhalda velferðarkerfinu. Síðan gengur ríkisstjórnin á þessa sjóði vinstri hægri, liggur mér við að segja, með skerðingum, tekjutengingum og öðru slíku,“ segir hann.

„Þannig verða sjóðsfélagar okkar fyrir skerðingum, bæði með því að greiðslur til þeirra lækka, og eins í því formi, að ef þeir eru á örorkuframlagi frá lífeyrissjóði, þá mega þeir ekki þéna eins mikið án þess að til skerðingar komi, króna á móti krónu. Þetta er ekki hvatning til þeirra sem vilja komast aftur út á vinnumarkaðinn, þrátt fyrir að ríkið hafi ætlað að vinna að því með aðilum vinnumarkaðarins, öllum aðilum hans, og vera með framlag í svokallaðan starfsendurhæfingarsjóð sem heitir VIRK. Nú þegar er búið að ákveða að slátra því framlagi, af því að sjóðurinn stendur svo vel. En VIRK-sjóðurinn stendur vel einfaldlega út af því að þeir sem þegar eru að borga í hann hafa staðið við sitt og og því stendur hann undir framtíðarskuldbindingum. Aftur á móti var hugsunin með þessum sjóði alltaf sú að þjóna öllum, líka öryrkjum á framfærslu ríkisins, og þar myndi ríkið koma inn með greiðslu á móti.“

Tvöfalt högg en þó er eitt enn verra

„Núna mun fyrirhuguð breyting til dæmis þýða bæði skerðingu á örorkuframlaginu og skerðingu framlagi til VIRK. Þetta er þannig í rauninni tvöfalt högg. Skerðingin á VIRK þýðir að ekki verður hægt að sinna neinum af þessum einstaklingum sem ríkið mundi vilja vísa til VIRK í gegnum úrræði í starfsendurhæfingu. Lífeyrissjóðirnir verða ekki aflögufærir til þess. Síðan mun þetta hafa þau áhrif á þá sem eru nú þegar inni í kerfinu, að þeirra réttindi koma til með að verða skert.

Og það sem er þó verra og langalvarlegast, að á næstu fjórum árum mun þetta örorkuframlag verða skorið niður sem svarar um fjórum og hálfu prósenti á ári. Það gerir ekkert annað en að skerða framtíðarlífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði flatt hjá þessum sjóðum sem því nemur, nái aðförin fram að ganga.“

Efar stórlega að fjármálaráðherra geri sér grein fyrir þessu

„Gjörningurinn í heild sinni er náttúrlega að setja í mjög alvarlega stöðu samtal og samræður, sem alltaf er talað um að aðilar vinnumarkaðarins eigi að eiga, bæði við stjórnvöld og við okkar viðsemjendur. Ég bara efa það stórlega, ég vil taka svo djúpt í árinni, að fjármálaráðherra geri sér grein fyrir því hvað þetta er alvarleg skerðing hjá lífeyrissjóðunum í landinu. Þetta hefur hins vegar ekkert að segja hvað varðar opinberu sjóðina, eins og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og aðra opinbera sjóði, þeir eru bara gegnumstreymissjóðir og allur almenningur í landinu borgar brúsann af halla þeirra, sem er upp á 470 milljarða króna. Þar erum við ekki að tala um einhverja smápeninga.“

Erfiður kjarasamningavetur framundan

„Þannig veit ég ekki hvernig í fjáranum, ég segi nú ekki annað, hvernig mönnum dettur svona vitleysa í hug, farandi inn í kjarasamningavetur, sem vitað var að yrði erfiður, að bæta svo þessum ógjörningi ofan á það. Ég veit ekki hvað menn eru að hugsa sem setja svona fram, hef bara engan skilning á því. Aðgerðin sem slík er hrein og klár aðför að öllum lífeyrisþegum í landinu, hvort heldur það eru ellilífeyrisþegar, örorkuþegar eða bótaþegar af öðru tagi.“

Eru að eyðileggja norræna velferðarmódelið

„Þetta er bara bein aðför að þessum hópum. Menn eru að ganga svo hart fram í að eyðileggja þetta norræna velferðarmódel sem stéttarfélögin hafa verið að byggja upp, að það tekur ekki nokkru tali. Ég veit ekki hvernig maður getur talað um þetta án þess að vera með blótsyrði á vörum allan tímann. Þetta leggst afspyrnuilla í mig. Þetta er ein sú allra versta sending sem við hefðum nokkurn tímann getað fengið inn í kjaraviðræður,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson.

Sjá einnig:
► Skerðing á örorkuframlagi mjög alvarlegt mál