Skip to main content
Greinar

Helga

By febrúar 21, 2014No Comments

Þú ættir að hafa samband við Hugarafl sagði félagsráðgjafinn. Þetta var í annað skipti sem nafn Hugarafls bar á góma. Læknirinn minn hafði líka stungið upp á því sama. Það var búið að útskrifa mig úr hugrænni atferlismeðferð en samt var ég í stökustu vandræðum um hvað ég ætti að gera við sjálfa mig

Þú ættir að hafa samband við Hugarafl sagði félagsráðgjafinn. Þetta var í annað skipti sem nafn Hugarafls bar á góma. Læknirinn minn hafði líka stungið upp á því sama. Það var búið að útskrifa mig úr hugrænni atferlismeðferð en samt var ég í stökustu vandræðum um hvað ég ætti að gera við sjálfa mig. Ég þráði svo skilning. Ekki endalaus samtöl um komandi afrek úr því að ég var útskrifuð. Eins var um þörfina fyrir það að tilheyra einhverjum hópi. Mér hafði ekki fundist ég tilheyra neinum í mörg ár. Kannski var þetta Hugarafl eitthvað fyrir mig. Þetta var allavega fólk í bata. Þarna var víst fólk sem barðist gegn fordómum og studdi hvort annað. Stuðnings hafði ég ekki notið lengi. Því síður skilnings. Það sakaði ekki að kynna sér málin. Ég hafði allt að vinna og engu að tapa. Ef þetta Hugarafl gæti eitthvað hjálpað mér í bataferlinu þá var það þess virði að hafa samband.

Samt var ég eiginlega skjálfandi á beinunum þegar ég mætti þarna í svokallað forviðtal. Tvær konur tóku á móti mér. Önnur þeirra, kona á besta aldri var notandi, hin var nemi á miðjum aldri. Eldri konan kynnti mér sögu Hugarafls. Sú hafði nú aldeilis barist í lífinu og í sínum veikindum. Hún vakti aðdáun. Greind og skelegg kona. Talaði tæpitungulaust. Sú yngri geislaði af lífi og áhuga yfir þessari starfsemi. Hún sýndi mér fölskvalausan áhuga. Langt síðan að kona hafði verið svona áhugasöm um líf mitt. Hún sagðist verða tengillinn minn ef ég byrjaði í Hugarafli. Þá myndi ég hitta hana einu sinni í viku. Ég gæti þá talað við hana um hvað sem var. Svo eftir að ég væri búin að kynnast Hugarafli gæti ég tekið að mér verkefni fyrir hópinn. Það færi eftir áhugasviði mínu og getu, hvað það yrði. Margt gæti komið þar til greina eins og t.d. símsvörun, fara yfir póst, fræðslubæklinga eða að brjóta þá saman, ljósritun, þýðingar og sv.frv. Þetta kæmi bara í ljós þegar ég færi að vera heimavön. Ef ég treysti mér ekki í verkefni væri það líka í góðu lagi. Þetta virtist greinilega vera kjörið fyrir mig. Fundir voru haldnir tvisvar í viku auk nýliðafundar. Með því að sitja fundi þá myndi ég kynnast starfseminni og fólkinu. Sem gömlum félagsmálahundi leist mér vel á það.

Ég byrjaði að mæta. Fyrstu fundina fannst mér ég samt dálítið utanveltu. Starfsemin var mikið víðtækari en ég hafði gert mér grein fyrir. Fyrsta mánuinn var ég því aðallega í því að læra. Einnig tók einhvern tíma að kynnast fólkinu. Þar komu nýliðafundirnir sér vel, við nýliðarnir kynntust hratt. Hópurinn var lítill og rædd þar þau málefni sem brunnu mest á okkur. Það telst ekki til dyggða að reykja, en sem reykingamaður kynntist ég óneitanlega fyrr en ella, öðrum reykingasystkinum. Samhentur hópur þar sem að glatt var á hjalla. Í reykingapásunum voru og eru leyst mörg málin. Eftir mánaðarveru fór ég að taka að mér verkefni. Eftir 2 mánuði var ég komin í nokkra hópa. Eftir á að hyggja þá varð ég fljótt virk en það hentar samt ekki öllum. Í mínu tilviki þá virkaði vel að byrja í félagsstússi. Í dag er ég búin að vera virk í Hugarafli í hálft ár. Ég hef þurft að draga úr þáttöku þar sem ég er að vinna á öðrum stað. Vera mín þarna er eftir á að hyggja ómetanlegur liður í mínum bara. Leiðin upp á við hefur verið stöðug þennan tíma. Þarna hef ég kynnst góðu og hæfileikaríku fólki, bæði í hóp starfsmanna og notenda. Vinahópur minn þarna er stór og hefur gefið mér mikið. Við styðjum hvort annað og minnum stundum á stóra samheldna fjölskyldu. Veran þarna hefur því verið mér ómetanleg.