Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Heilbrigðiskerfið ástæða mikillar lyfjanotkunar Íslendinga

By janúar 4, 2017No Comments
Birgir Jakobsson segir að bregðast þurfi við.

Birgir Jakobsson segir að bregðast þurfi við.VÍSIR/STEFÁN

Helsta skýringin á mikilli lyfjanotkun Íslendinga er heilbrigðiskerfið hér á landi, segir landlæknir. Kerfisbreytinga sé þörf svo hægt sé að snúa þessari þróun við. Íslendingar eiga met í lyfjanotkun á Norðurlöndunum.

Þetta kemur fram í pistli Birgis Jakobssonar landlæknis í nýjum talnabrunni embættisins. Pistilinn ritar Birgir vegna þeirrar staðreyndar að notkun Íslendinga á örvandi lyfjum, róandi-, kvíðastillandi, svefn- og verkjalyfjum auk sýklalyfja er mun meiri en í öðrum Norðurlandaþjóðum. Þá er notkun Íslendinga á þunglyndislyfjum sú mesta innan OECD landanna og hefur landlæknir lýst yfir þungum áhyggjum vegna þessa.

Birgir segir heilbrigðiskerfið hafa þróast í þá átt að læknar vinni frekar einir á stofum en í samvinnu við aðra lækna eða heilbrigðisstéttir auk þess sem skortur sé á gæðavísum og árangursmati. Þá sé fjármögnunarkerfið meingallað. Hann segir embætti landlæknis hins vegar aðeins hafa takmarkaða möguleika til að komast að ástæðu þessarar miklu lyfjanotkunar.

„Landlæknir leyfir sér þó að fullyrða að orsakirnar er ekki að finna í að Íslendingar séu svo frábrugðnir öðrum þjóðum eins og gjarnan er haldið fram, stundum í gamni, né heldur að íslenskir læknar séu fremri starfsbræðrum sínum í nágrannalöndunum og séu fljótari að tileinka sér nýjungar. Íslenskir læknar eru hvorki betri né verri en starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum, enda hafa þeir flestir fengið menntun sína erlendis,“ segir hann.

Birgir segir að of mikil áhersla hafi verið lögð á hlutverk lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra starfsstétta en að önnur úrræði hafi nánast gleymst. Nú þurfi kerfisbreyting í heilbrigðisþjónustunni að vera forgangsefni og að sérgreinafélög lækna verði að taka þessi mál föstum tökum.

Greinin birtist upphaflega á visir.is