Skip to main content
GeðheilbrigðismálGreinar

Gleðilegt sumar, vorið komið og bjartari dagar í vændum – ekki hjá öllum!

By June 1, 2016No Comments

Nú gera flestir ráð fyrir því þegar birtan er farin að vera myrkrinu yfirsterkari að þá lagist flest og þar á meðal þunglyndi og kvíði, en því miður er það ekki alltaf þannig. Margir hressast við aukna birtu en samt eru sumir þannig að vorið og sumarið veldur kvíða og finna fyrir enn meiri vanlíðan því á sumrin áttu að vera eins og valhoppandi blómálfur af einskærri hamingju.

alt

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir, forstöðumaður Bataseturs og iðjuþjálfi.

Því miður fara geðsjúkdómar ekki í sumarfrí og margir eiga erfiða tíma af ýmsum ástæðum. Á sumrin riðlast oft skipulagið og  sumarfríið getur verið kvíðavaldur því að það er gjarnan krafan að sumarfrí eigi að samanstanda af ferðalögum, grillveislum, sundferðum, ísáti og skemmtilegum minningum. Krafan um öll þessi skemmtilegheit getur valdið kvíða hjá svo mörgum og t.d. eru peningamálin það því það hafa ekki allir ráð á því fara í ferðalag eða öðru sem fylgir sumrinu. Auðvitað er hægt að gera margt sem kostar ekki neitt ef að líðanin er góð. Ef kvíðinn eða depurðin er alls ráðandi verða allar athafnir erfiðar

Samviskubitið yfir því að leika ekki á alsoddi getur verið yfirþyrmandi og veldur því að líðanin versnar enn frekar. Allir upplifa slæma daga og bera einhvern tíma kvíða í brjósti. Þegar þessi líðan er farin að stjórna lífi þínu að öllu leyti þarf að gera eitthvað í málunum. Þó að það sé mjög vel meint að segja þeim að fara bara út að ganga þá er það samt sem áður ekki lausnin fyrir alla. Það að geta eytt tíma með fólki sem hefur svipaða reynslu hjálpar mörgum og að geta sagt frá líðaninni án þess að þurfa að útskýra nokkuð er ómetanlegt. Einnig er oft auðveldara að tala við einhvern utan fjölskyldunnar því að hinn veiki vill ekki íþyngja sínum nánustu með því að vera endalaust að „væla“ yfir öllu.

Geðræktarmiðstöðin Batasetur Suðurlands hefur starfað frá því í september 2015 og hefur vaxið og dafnað með frábærum félögum á öllum aldri sem eiga það öll sameiginlegt að vilja líða betur og efla lífsgæði sín og annarra með  geðraskanir. Það er hverjum í sjálfsvald sett hvað hver og einn gerir og hversu mikinn þátt hann tekur í starfi Bataseturs. Ekki skiptir máli hvort að viðkomandi sé í veikindafasa eða í góðu jafnvægi. Það fær hver og einn að vera hann sjálfur og allt er bundið trúnaði til þess að einstaklingurinn sé óhræddur við að opna sig. Það er hægt að koma og fá sér kaffibolla og spjall eða taka líka þátt sjálfsvinnu í gegnum verkefni af ýmsu tagi.

Batasetur er opið á föstudögum frá kl. 9 til 16 og erum við til húsa á Skólavöllum 1 við Bankaveg. Við erum einnig svo lánsöm að hafa fengið aðstöðu að Austurvegi 40 b í húsnæði Hvítasunnukirkjunnar, við hliðina á Nettó og mun vera opið þar á miðvikudögum kl. 10–14 og ýmsar nýjungar í boði.

Nánari upplýsingar má nálgast á: www.facebook.com/Batasetur/. Einnig með því að senda póst ábatasetrid@gmail.com.

Verið hjartanlega velkomin
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir, forstöðumaður Bataseturs og iðjuþjálfi.