Skip to main content
Greinar

Geðveikur kostnaður í sjúku heilbrigðiskerfi

By August 11, 2016No Comments

Sigurður Hólm Gunnarsson birti eftirfarandi grein inn á skodun.is 

Mér finnst það vera skylda mín að tjá mig aðeins um andleg veikindi og heilbrigðiskerfið hér á Íslandi. Í einu ríkasta landi heims býr almenningur við heilbrigðiskerfi sem er að hruni komið og gjaldtöku sem margir ráða ekki við. Á þetta ekki síst við um geðheilbrigðiskerfið. Í sama landi búa sakfelldir útrásarvíkingar sem enn eiga milljarðana sína, stórfyrirtæki stórgræða á auðlindum landsins og ríkir ráðamenn geyma peningana sína í skattaskjólum. Mér er ofboðið.

Eins og svo margir glími ég við veikindi. Andleg veikindi. Þjáist af þunglyndi, kvíðaröskun og ofsakvíða. Almennt reyni ég að tala sem minnst um þessi veikindi mín opinberlega þar sem viðbrögðin eru oft leiðinleg. Sumir bregðast við með því að tala um tilfinningaklám og athyglissýki. Því vil ég segja ykkur strax að ég hef enga sérstaka ánægju af því að segja frá því opinberlega að ég sé andlega veikur.  Ég hef heldur ekki nokkurn áhuga á vorkunn eða athygli.

Svo veit ég fyrir víst að opinská umræða um andleg veikindi getur haft áhrif á möguleika þeirra sem tjá sig til að fá eða halda vinnu. Í öllu fordómaleysinu sem margir þykjast búa yfir leynast miklir fordómar gagnvart fólki sem er veikt á geði. Enn er til fólk sem kallar þunglyndi og kvíða aumingjaskap sem fólk eigi bara að „hrista af sér“, „horfa á björtu hliðarnar“ eða „drulla sér í ræktina.“

Ég er gæfuríkur maður. Ég á yndislega fjölskyldu og vini sem styðja mig og veita mér gleði. Ég er í ágætri vinnu og konan mín líka. Kostnaðurinn sem til fellur vegna veikinda minna er mér þó nánast um megn. Sérstaklega undanfarna mánuði þar sem ég hef verið í fæðingarorlofi og haft töluvert minna á milli handanna.

Í veikindum mínum hef ég hitt heimilislækni, geðlækna og sálfræðinga. Það kostar töluverða peninga. Ég þarf líka að taka nokkur lyf að staðaldri og þau kosta sitt.

Nú nýlega gaf geðlæknirinn minn mér skýr tilmæli. Hann útskýrði að minn sjúkdómur væri það sem sumir kalla „krabbamein hugans“ sem væri illviðráðanlegur.

Það sem skiptir máli er að geðlæknirinn minn sagði mér að það þyrfti stífa meðferð í langan tíma til að bæta ástand mitt.

Í fyrsta lagi þyrfti ég að hitta geðlækni á um 6 vikna fresti (kostar mig um 10 til 12 þúsund skiptið, þegar búið er að draga frá hlutdeild sjúkratrygginga).

Í öðru lagi yrði ég að taka lyfin mín reglulega og jafnvel auka skammtinn.

Í þriðja lagi yrði ég að hitta sálfræðing reglulega yfir langt tímabil. Helst í hverri viku í að minnsta kosti ár og jafnvel lengur.

„Ég veit að þetta er dýrt en þú verður bara að „splæsa“ þessu á þig“, – sagði læknirinn fullur skilnings.

Það eru orð að sönnu að sálfræðiþjónusta sé dýr því skiptið hjá sálfræðingi kostar um 14 þúsund krónur. Ef ég þarf að fara fjórum sinnum í mánuði þá gerir það a.m.k. 56 þúsund hvern mánuð. Varlega áætlað borga ég 15 þúsund á mánuði í lækni og lyf þannig að mánaðarlegur kostnaður fyrir að vera andlega veikur er 71 þúsund eða um 852 þúsund krónur á ári. Í mínu tilfelli eru það ekki „nema“ um tvenn útborguð mánaðarlaun en mun meira fyrir allan þann fjölda sem er lægra launaður en ég. Reyndar er ég í fæðingarorlofi núna og fæ þá um 270 þúsund krónur á mánuði þannig að áætlaður árlegur heilbrigðiskostnaður er rúmlega þrjú mánaðarlaun frá fæðingarorlofssjóði.

Svo þarf ég eins og aðrir að borga af húsnæði, mat og klæði fyrir mig og börnin og svo þarf víst að gera við nokkrar tennur en það verður að bíða betri tíma (a.m.k. þar til síðustu viðgerðir hafa verið greiddar með raðgreiðslum). Í þessum mánuði þurfti ég að velja á milli þess að fara til læknis og borga LÍN.

Samkvæmt skýrum klínískum leiðbeiningum Landspítalans um hvernig eigi að haga verklagi „við meðferð sjúklinga með algengar geðraskanir, svo sem almenna kvíðaröskun og skelfingarkvíða“þá á fyrst og fremst að bjóða upp á sálfræðiviðtöl í bland við lyfjameðferð.

þunglyndiÞrátt fyrir þessar skýru klínísku leiðbeiningar er sálfræðiþjónusta alls ekki niðurgreidd af sjúkratryggingum. Við eigum ekki „rétt“ á heilbrigðisþjónustu ef við erum andlega veik eða með tannpínu.

Tekið skal fram að stéttarfélög greiða oft niður sálfræðikostnað. Styrktarsjóður BSRB greiðir þannig að hámarki 5000 krónur í 15 skipti á ári eða samtals 75.000. Í mínu tilfelli myndi árlegur kostnaður því lækka úr 852 þúsund í 777 þúsund krónur. En þá þarf ég líka að betla peninga af stéttarfélaginu mínu og útskýra fyrir óskyldu fólki að ég þurfi á sálfræðiþjónustu að halda. Mér finnst það niðurlægjandi.

Niðurstaðan er sú að margir hafa miklar fjárhagsáhyggjur ofan á þá kvöl að berjast við andleg veikindi. Of margir leita sér ekki viðeigandi aðstoðar vegna þess að þeir hafa ekki efni á því. Þetta veit ég fyrir víst og það er gjörsamlega óviðunandi ástand.

Ég kalla eftir viðbrögðum þeirra sem starfa í stjórnmálum. Ætlum við að byggja upp mannúðlegt samfélag þar sem heilbrigðisþjónusta er gjaldfrjáls eða er ætlunin að halda áfram Albaníustefnunni í geðheilbrigðismálum þar sem aðeins hinir ríku geta auðveldlega fengið bestu mögulegu þjónustu (gullpakkann fræga) á meðan við hin verðum að sætta okkur við takmarkaða þjónustu og fjárhagsáhyggjur?

Sigurður Hólm Gunnarsson