Skip to main content
Greinar

Geðsýki Leti geðsjúklinga

By nóvember 14, 2000No Comments
14. nóvember 2000 | Aðsent efni | 772 orð | 1 mynd

Axel Haugen

Axel Haugen
Nánast aldrei er minnst á það, segir Axel Haugen, að geðlyf bæla niður nánast alla aðra þætti persónunnar í leiðinni.
OFT gæti maður haldið að geðsjúkir væru haugalatir, margir þeirra koma engu í verk dögum saman, sofa fram yfir hádegi, jafnvel heilu sólarhringana, og tiltölulega fáum tekst að fóta sig á vinnumarkaðinum.Sá sem þetta ritar var greindur með geðklofasjúkdóm, eða schizophrenia eins og sjúkdómurinn er kallaður á fræðimáli fyrir 16 árum og hefur fram að þessu fengið þrjár mismunandi undirgreiningar eftir tímabilum. En þær eru: Heberfreni, schizo affective og paranoia auk þess sem ég var upphaflega greindur „aðallega þunglyndur“.Ég tel rétt að upplýsa þessa þætti varðandi sjálfan mig, þar sem það sem hér fer á eftir getur varla talist fræðigrein heldur er einvörðungu um að ræða mína upplifun á þessum sjúkdómi auk annars sem ég hef séð og heyrt hjá samsjúklingum mínum, innan deildar og utan.Ég er reyndar svo heppinn að hafa að mestu sloppið við ofskynjanir.

En hegðan mín, þegar ég er lyfjalaus, getur verið með þeim hætti, að hvorki nánustu ættingjar mínir né samfélagið tekur í mál að ég „gangi laus.“

Þrisvar sinnum hef ég verið nauðungarvistaður og einnig alloft farið fyrir áeggjan ættingja og lækna en einnig, einkum fyrstu árin, að eigin frumkvæði inn á geðdeild.

Ég hef nær alltaf verið lagður inn á geðdeild fv. Borgarspítala sem nú heitir víst Landspítalinn – háskólasjúkrahús, Fossvogi.

Meðferðinni má í sem allra stystu máli lýsa með einu orði: Lyfjameðferð, og skilst mér að svipað sé uppi á teningnum á öðrum geðdeildum landsins en lyfjameðferð virðist vera forsenda þess að fólki sé boðið upp á aðra meðferð samhliða og er mér reyndar kunnugt um fleiri en eitt dæmi þar sem sjúklingum hefur einfaldlega verið vísað burt af geðdeild þegar þeir neituðu að þiggja lyfjameðferð.

Lyfjameðferð er í stuttu máli mjög öflug aðferð til að hemja sjúkdóminn og bæla niður einkenni hans.

En það sem minna er talað um, og nánast því aldrei minnst á, er að þau bæla nánast alla aðra þætti persónunnar í leiðinni. Menn verða ekki eins tilfinningaríkir, maður getur orðið sljór, syfjaður og almennt fjarar lífsgleðin út og tilfinningin fyrir því, að það sé gaman að vera til deyr þurrum lyfjadauða.

Það er ekki að undra þótt nær allir sem taka inn geðlyf geri einhvern tímann tilraun til að hætta á þeim.

Í stuttu máli má líkja því, að vera lyfjalaus, við það, að virða fyrir sér fagra fjallasýn í heiðskíru og frostbjörtu sólskinsveðri. En það að vera á lyfjum er eins og að virða fyrir sér þessa sömu fjallasýn í hinu sama veðri í gegnum skítuga rúðu!

Við ofanritað bætist svo, að mönnum er nánast því stillt upp við vegg að taka inn þessi lyf eða „éta það sem úti frýs“ að öðrum kosti. Mér persónulega finnst ekkert undarlegt við það, að einstaklingar sem missa með þessum hætti frumkvæðið í eigin lífi og/eða persónulegt sjálfstæði, vilji helst af öllu sofa, nenni engu og séu almennt ekki vinnufærir.

En ofan á þetta allt saman bætist svo, í það minnsta er það mín reynsla, að tíminn líður hreinlega „ekki neitt“ í vinnunni, þegar maður er á lyfjum, og virðist þá líða hægar eftir því sem skammtarnir eru stærri og/eða lyfjasortirnar fleiri, að auki, eins og þetta dugi ekki, þá trufla lyfin einbeitinguna og er það líkast því að samvinna hugar og handar sé rofin.

Einnig má nefna, a.m.k. í mínu tilviki, að sé ég á lyfjum og vakna syfjaður, þá „rjátlar“ syfjan ekkert af mér eftir því sem líður á morguninn, eins og ég minnist svo skýrt að gerðist þegar ég var lyfjalaus, heldur er ég áfram syfjaður þar til ég gefst upp og fer aftur upp í rúm. Í stuttu máli er erfitt að vera á lyfjum og fullur vinnudagur að gera ekki neitt.

Við, sem erum geðsjúk, höfum bara ekkert val.

Þegar bjátar á andlega sviðinu bendir allt þjóðfélagið á sálfræðinga, geðlækna og geðdeildir, og það eru engar fréttir að erfiðustu tilfellin lenda á læknum og geðdeildum en læknarnir eru gjarnir á að beyta lyfjum eins og þeir hafa menntun til.

Nú kynni einhver læknir að segja að slen, framtaksleysi og tilfinningaleg flatneskja séu dæmigerð bæld einkenni geðklofasjúkdóms. En ég spyr á móti hversu margir sjúklingar með bæld einkenni geðklofa eru lyfjalausir? Spyr sá sem ekki veit.

Ég hef nú samt, og vil að það komi fram, skilning á afstöðu lækna og starfsfólks geðdeilda, vegna þess ástands sem geðsjúkir geta komist í, í sturlunarástandi, og þekki það reyndar af eigin raun.

Það vottast því að ég hef enga lausn á þessu leiðindamáli en tilefni greinarinnar var jú einungis það að benda þeim, sem telja okkur geðsjúklingana vera letingja, á, að það er þokkalega góð ástæða fyrir letinni og vona ég að mér hafi a.m.k að einhverju leyti tekist að koma því til skila hver hún er.

Höfundur er geðklofasjúklingur og fær lyfið Trilafon dekanoat.

 

 

 

Athugasemd höfundar við greininni Leti geðsjúklinga

Vegna greinarinnar hér að ofan er rétt að taka fram að þegar hún var skrifuð, var hún algjörlega einlæg og heiðarleg og ekkert í henni ofsagt eða vansagt ,og að öllu leiti rétt lýsing á því ástandi sem var, þegar ég fékk lyfið Trilafon dekanoat.
En vegna þess lífsviðhorfs að: “Gott gerir betur þá getið er, svo lengi sem laust sé við hégóma.” Þá tel ég nauðsynlegt að í kjölfar þess að læknir minn samþykkti að taka mig af Trilafoni fyrir rúmlega ári síðan, og athuga hvort það gengi að hafa mig eingöngu á lyfinu Zyprexa, sem ég hafði þá tekið að auki, í nokkurn tíma þar á undan, þá er nauðsynlegt og rétt að taka fram, að allir hinu neikvæðu punktar sem fram koma í ofanritaðri grein, eiga hreinlega ekki lengur við, eftir að lyfjameðferð mín með Trilafoni, hefur runnið sitt skeið á enda.
En í sem allra stystu máli, þá hefur verkan Zyprexa, allar hinar jákvæðu hliðar Trilafons, en engar af hinum neikvæðu. Ég væriþví ekki í stakk búinn til að rita ofanritaða grein í dag, þótt hún hafi að öllu leiti verið raunsönn lýsing á ástandinu, á meðan lyfjameðferð mín einskorðaðist við Trilafon.
Að lokum óska ég sjálfum mér til hamingju, með þá lyfjabreytingu að vera hættur á Trilafoni, og fá þess í stað Zyprexa og þakka alla þá læknisaðstoð, sem og aðstoð hjúkrunarfólks og starfsfólks geðdeilda, sem mér hefur verið veitt í meira eða minna mæli frá 17 ára aldri jafnvel þótt ég hafi oft, einkum hin síðari ár verið vægast sagt erfiður sjúklingur og sjálfsagt neikvæður í meira eða minna mæli og einum of kröfuharður, svo ekki sé meira sagt.

Mig iðrar minnar eigin framkomu í garð fjölda fólks,
Og þótt það vegi e.t.v. ekki þungt í eyra
Þá biðst ég afsökunar

Virðingarfyllst,
og með þökk fyrir oft á tíðum óverðskuldaða aðstoð

Axel Haugen