Skip to main content
Fréttir

Fræðsluvika – 20 ára afmæli Hugarafls

Í tilefni af 20 ára afmæli Hugarafls verðum við með fræðsluviku fyrir allt samfélagið. Verið öll velkomin í húsakynni Hugarafls í Síðumúla 6, 108 Reykjavík.

Allar fræðslurnar eru í fundarsal Hugarafls á annarri hæð, byrja kl. 13:00 og enda kl. 14:00. 

Mánudagur 5. Júní – Open dialogue

Opið samtal felst í því að styðja fjölskyldur í að tala saman, fara í gegnum andlegar áskoranir og finna leið til að efla samtal á jafningjagrunni, samskipti og tengsl. Opið samtal er aðferð sem þróuð hefur verið í Finnlandi undanfarna þrjá áratugi. Tveir fagmenn setjast á rökstóla með fjölskyldunni og aðilinn sem er að ganga í gegnum andlegar áskoranir er með í öllu ferlinu. Ákvarðanataka er sameiginleg, ekkert samtal fer fram án allra úr fjölskyldunni sem sækja fundina. Ótrúlegur árangur hefur náðst í Finnlandi með þessari aðferð um 82 % þeirra sem hafa farið í gegnum hana hafa náð bata og farið aftur út í samfélagið.

Á Íslandi eigum við einn þjálfara í aðferðinni þ.e. Auði Axelsdóttur framkvæmdastjóra Hugarafls.

Auður Axelsdóttir fer með fræðsluna. 

Þriðjudagur 6. Júní – Batagildin og hugtök

Grétar Björnsson ræðir um helstu hugmyndir og hugtök valdeflingar og batahugmyndafræðinnar sem eru leiðarljós í öllu starfi samtakanna. 

Miðvikudagur 7. Júní – Jafningjastuðningur

Hugarafl hefur unnið með jafningjastuðning frá upphafi. Jafningjastuðningur í Hugarafli er mikilvægur liður í starfseminni þar sem fólk með reynslu getur stutt aðra félaga sem þurfa á samtali eða stuðning að halda. Það getur verið dýrmætt fyrir fólk sem er að ganga í gegnum erfiðleika að hitta einstaklinga sem deila svipaðari reynslu og geta verið til staðar.  6 einstaklingar frá Hugarafli sóttu námskeið til að öðlast réttindi í að veita jafningjastuðning og þjálfa fólk í jafningjastuðning á alþjóðavettvangi.  Fjóla Ólafardóttir og Málfríður Hrund Einarsdóttir fara með fræðsluna. 

Fimmtudagur 8.Júní – afmælishátíð sjá viðburð hér

Föstudagur 9.júní – Andlegt hjartahnoð Ecpr

Andlegt hjartahnoð, Emotional CPR(eCPR) byggir á nálgun sem Hugaraflsfólk hefur tileinkað sér undanfarin ár með aðstoð Daniel B. Fishers geðlæknis og hlotið viðurkennda þjálfun í. Fram fer samtal/nánd sem byggir á tengingu við tilfinningar og nýtist vel einstaklingum sem eru að ganga í gegnum alvarlegt tilfinningalegt álag. Andlegt hjartahnoð gagnast einnig vel þeim sem eiga erfitt með að tengjast á annan hátt, tengingin er í gegnum tilfinningar og hjartað, oft án orða. Einstaklingi er mætt með nánd, samlíðan og samveru á jafningjagrunni. Andlegt hjartahnoð er einnig notað fyrir hópa og í samfélögum þar sem áföll hafa orðið. Við erum að vonum ákaflega stolt yfir því að eiga þrjá útskrifaða þjálfara hjá Hugarafli og við hyggjumst fara af stað með námskeið í haust fyrir notendur, aðstandendur og fagfólk. Auður Axelsdóttir og Málfríður Hrund Einarsdóttir fara með fræðsluna.