Skip to main content
Greinar

"Ég get ekki meira…."

By desember 20, 2015No Comments

einarprofHefur þú upplifað í lífinu að þú getir ekki meir og orðið svo vonlaus að þig þráir að losna við þjáninguna? Ef svo er..þá gæti þessi pistill höfðað til þín!

 

Viðhorfin…

Viðhorfin sem ég ólst upp voru frekar svart/hvít, svona annað hvort eða. Þótti ekki „strákalegt“ að væla þó þér liði illa út af t.d. stríðni skóla eða heimilisaðstæðum. Þetta ræddi maður ekki. Ég upplifði kröfur til mín. Ég var fótboltapjakkur og draumurinn var að verða atvinnumaður eins og frændi minn og hetja Arnór Guðjohnsen. Pabbi hafði allt aðrar hugmyndir. Hann vildi visulega að ég yrði eins og hann. Ég var það bara ekki. Hann var af þeim gamla skóla þegar menn flíkuðu ekki tilfinningum. Var ríkjandi viðhorf hjá hans kynslóð að þeir sem minna máttu sín í samfélaginu voru álitnir „undirmálsfólk“. Ekki endilega meint í hroka en samt var „aumingjastimpill“ á því fólki! Með þessi viðhorf og kröfur gekk ég af stað út í lífið.

Er aumingjalegt að gefast upp…?

Við mörg þekkjum að lenda „út í horni“ í lífinu. Ef fólk upplifir vonleysi í „horninu“ og ekkert gert, er stutt í fólk brotni og geti ekki meir. Gefist upp á lífinu. Veit að sumir telja „uppgjöf“ merki veikleika manneskjunnar. Þess vegna er stutt í skömmina hjá fólki sem leiðir í þögnina. Segja ekki frá, byrgja inni og bera sársaukann í hljóði. Það er stórhættulegt!

Ég hef horft á eftir góðu fólki taka eigið líf eftir að hafa harkað af sér og sá enga aðra leið. Sorglegt. Því miður ræður skömmin miklu þ.e. óttinn við álit annarra. Í kirkjugörðum hvíla því miður margir sem þetta reyndu! Ég hef sjálfur verið komið að þessari brún. Ég var og er einn af þeim heppnu. Langar að deila minni reynslu í stuttu máli. Hún er tvíþætt. Annars vegar þegar ég náði tökum á mínu lífi eftir áfengis- og vímuefnaneyslu. Hins vegar við að veikjast af röskun sem er afleiðing af innbyrgðum sársauka vegna atburða úr barnæsku.

Já ég gafst upp…

Ég ólst upp við andrúmloft sem var mengað kvíða og ótta. Þær tilfinningar urðu mér eðlislægar. Ég átti bjarta framtíð sem knattspyrnumaður en vímuefni náðu tökum á mér. Ég átti erfitt með að viðurkenna mitt vandamál. Ég vildi ekki vera „aumingi“! Ekkert „helvítis væl“! Það munaði engu að alkóhólisminn legði mig að velli rétt rúmlega tvítugan. Var mjg langt genginn og stefnulaust rekald þegar ég loks „gaf eftir“, gafst upp sýndi vandmátt og þáði hjálp. Á ögurstundu!

20 árum síðar er ég skyndilega í svipuðum sporum. Sumarið 2013 veikist ég af „krónískri áfallastreituröskun (Complex Post Trauma Stress Disorder). Ég er keppnismaður og þoli mikið mótlæti. Ég barðist lengi og reyndi að „funkera“ í lífinu í 2 ár! Það orsakaði sorglegar afleiðingar. Í ágúst 2015 er ég húsnæðislaus og ligg í lánsíbúð að jafna mig eftir heiftarlegt ofsakvíða- og panikkast. Búinn mig frá umheiminum. „Brunnin yfir“ og gat ekki meira. Ég sá ekki orðið neina lausn en enda þjáninguna. Panikköstin voru svo tíð að ég þorði ekki úr húsi!

Ég trúi ekki á tilviljanir en á æðri mátt. Vinkona mín virtist fá hugboð og hafði samband í gegnum fb messanger. Ég var hættur að svara símanum og skeytum. Einhverra hluta vegna opnaði ég skeytið líkt og mér væri stýrt. Þar var skrifað tæpitungulaust og minntur á að ég ætti tvö börn. Þetta dugði til að ég beygði af og fékk hjálp í kjölfarið. Í algjörri uppgöf og vanmætti, kviknaði ljóstýra í svartamyrkri hugans.

Í báðum tilvikum átti ég val. Að gera eða gera ekkert. Að lifa eða deyja! Auðvelt að gera ekkert en það endar illa. Að gera þýðir að ég verð að leggja á mig vinnu. Hljómar einfalt en mín skoðun er að það er alltaf val. Þú tekur ákvörðun um að leita þér hjálpar eða ekki. Það getur enginn gert það fyrir þig!

Að þiggja hjálp er styrkleiki ekki aumingjaskapur!

Að þiggja hjálp er merki um hetjudáð, styrkleika og auðmýkt! Á ekkert skylt við veikleika eða aumingjaskap! Það viðhorf stóð mér lengi fyrir þrifum. Nánast kom mér í gröfina!

1993 kynntist ég reynslusporunum 12 sem nýttist mér vel s.l. haust þegar bataferlið mitt hófst. Í bæði skiptin var ég kominn í það mikla örvæntingu að ég fylgdi allri leiðsögn sem mér var veitt. Virðist fylgja mér að þurfa að fara á ystu brún áður en ég bjargast! Ég gat haft skoðun á leiðsögninni en gerði það ekki. Hafði gert það áður og endaði ávallt á verri stað. Var að auki brotinn og hræddur. Haustið 1993 öðlaðist ég jafnt og þétt nýtt líf og lifði góðu lífi í 20 ár þegar áföll barnæskunnar bönkuðu skyndilega upp á.

Í haust hóf ég meðferð hjá sálfræðingi í samráði við minn lækni. Að auki sótt fundi hjá 12 spora samtökum. Ég var svo illa farinn að ég gat ekki falið það og komst fljótt og skömmina á minni stöðu. Var tilbúinn að þiggja. Það gekk hægt fyrstu vikurnar en svo kom að því að ég fór að finna mun. Leið betur, í betra jafnvægi og öðlaðist von í stað vonleysis. Þessi vinna stendur enn yfir en í dag hef ég náð mjög góðum árangri á rúmlega 3 mánuðum. Eina sem ég hef gert er að fylgja leiðsögn og leggja á mig vinnuna. Hún virkar. Það er hægt að stíga upp úr vonleysi í von.

Lífið heldur svo áfram. Hvað þá…?

Mín reynsla er að besta „heilunin“ er að eiga samtal við aðila sem skilur mig t.d. trúnaðarvin eða fagaðila. Að tala frjáls og óhræddur við fordóma er svo heilandi. Vissulega til fleiri leiðir en þessi hefur reynst mér best til að ná sátt, betri líðan von og trú. Samhæfa reynslu, styrk og vonir heitir þetta. Þetta geri ég ávallt ef eitthvað bjátar á í lífinu eins og gengur. Þetta eru forréttindi.

Ég las að „mesti lærdómur lífsins er að það heldur alltaf áfram!“ Reynslan hefur kennt mér að mistök og áföll herða mig ef mér tekst að nýta mér hana til góðs. Um leið tækifæri til að þroskast og verða betri útgáfa af sjálfum mér. Það tókst fyrir 22 árum og ég er á góðri leið í dag. Það þýðir ekki að ég sé einhver hetja. Ég fékk hjálp. Það er kannski hin eiginlega „hetjudáð“. Að sýna auðmýkt og þiggja hjálp.

Ég hef tekið þátt í gleði og sorgum lífsins eins og gengur. Breytingin er að ég verð hæfari til að gera það. Um leið þroskast ég enn meira. Aldrei fullkominn en reyni að sýna framfarir. Það er ávísun á góða líðan og gott líf.

Lifið heil, lifið vel og verið góð við hvort annað.

Grein birtist upphaflega á: http://spegill.is/read/2015-12-15/eg-get-ekki-meira/?m=1 og er birt hér með leyfi frá höfundi.