„Við mannfólkið virðumst alloft hafa takmarkaðan skilning á okkur sjálfum, þar á meðal hugsunum okkar, tilfinningum og gerðum. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að finna fyrir alls kyns tilfinningum á lífsleiðinni. Við upplifum ýmiss konar atvik í gegnum ævina sem koma af stað tilfinningum, sumum góðum og öðrum erfiðum,“ segir Kristín Lilja Garðarsdóttir, sálfræðingur og uppeldisfræðingur, í pistli sínum:
Mörg okkar eru hins vegar að glíma við erfiðar tilfinningar í daglegu lífi sem virðast í engu eða litlu samræmi við þær umhverfisaðstæður sem við lifum við í dag. Dæmi um slíkar tilfinningar eru sífelldar áhyggjur eða ótti þó svo að ekkert slæmt sé að gerast, fullkomnunarárátta, sorg, einmanaleiki, höfnun og reiði.
Eins eru mörg okkar sem eru að glíma við hinar ýmsu fíknir og okkur skortir skilning á því hvað liggur að baki.
Þar að auki er ekki óalgengt að við séum föst í tilteknum vítahring. Við erum að lenda síendurtekið í aðstæðum þar sem við upplifum sömu tilfinningarnar aftur og aftur, dæmi um það getur verið höfnun. Það er eins og við sækjumst í tiltekið ójafnvægi innra með okkur.
Eftir að ég sem sálfræðingur hef unnið með fólk sem er fast í vanlíðan af einhverju tagi og skoðað sögu þess eru mynstrin oft áberandi og skiljanleg. Við virðumst vera föst í tilfinningum/mynstrum sem eiga rætur í æskuna; barnið innra með okkur er fast í aðstæðum sem veldur því vanlíðan.
Börn hafa tilfinningalegar þarfir. Ein af tilfinningalegum grunnþörfum barna er að fá að tilheyra, að tengjast umönnunaraðilum. Börn vilja vera elskuð og viðurkennd fyrir það sem þau eru, sama hvernig þau eru. Sú viðurkenning þarf að vera skilyrðislaus. Börn eiga því ekki að þurfa að standa sig á tiltekinn hátt til að vera viðurkennd. Þá þarfnast börn umhverfis sem veitir þeim öryggi og stöðugleika. Börn eru einstaklega viðkvæm og það þarf lítið til að umhverfisaðstæður raski jafnvægi þeirra.
Lífið er þó yfirleitt þannig að aðstæður barna eru ekki fullkomnar og því erum við flestöll með einhverjar byrðar innra með okkur. Umönnunaraðilar leitast að sjálfsögðu við að gera sitt besta í samskiptum sínum við börn. En saga umönnunaraðila hefur áhrif á líðan þeirra og hegðun sem síðan hefur áhrif á barnið. Umönnunaraðilar virðast oftar en ekki ala börn sín upp á þann hátt sem þeir sjálfir voru aldir upp. Þá hefur sú menning sem við búum í áhrif á ríkjandi uppeldisaðferðir. Til dæmis er ekki langt síðan fólk hér á Íslandi var að berjast við það eitt að lifa af. Markmiðið var að geta veitt börnum húsaskjól, mat og klæði. Oft var ekki svigrúm fyrir eða hugað að tilfinningalegum þörfum barna. Tíðarandinn bauð hreinlega ekki upp á það. Lykilatriði var að ala börn upp í þeim gildum að standa sig svo þau gætu séð fyrir sér. Ekki mátti hrósa börnum því þá gætu þau mögulega orðið of góð með sig og aginn var oft einstrengingslegur.
Nú á tímum höfum við hins vegar svigrúm og upplýsingar sem gerir okkur kleift að vera meðvituð um þarfir okkar og hvernig saga okkar og saga fjölskyldunnar hefur mótað okkur og í kjölfarið getum við breytt sögunni.
Oft koma tilteknar umhverfisaðstæður af stað ákveðnu tilfinningamynstri meðal barna. Til að mynda ef börn alast upp við áfengisneyslu á heimilinu upplifa mörg þeirra tilfinningar eins og óöryggi, höfnun, reiði, skömm, meðvirkni og skort á stjórn. Ef við höfum liðið skort á tilfinningatengslum (skort á ást/viðurkenningu frá umönnunaraðila) fylgja því tilfinningar eins og höfnun, fullkomnunarárátta, einmanaleiki (tilheyrum ekki), óöryggi og skortur á trausti og nánd.
Ástæður þess að rætur liggja oft í æskunni eru líkast til þó nokkrar en hér ætla ég að nefna þrjár þeirra.
Skortur á stjórn
Börn hafa yfirleitt takmarkaða stjórn á aðstæðum í umhverfi sínu. Þau eru háð umhverfinu en ef þeim líður illa á einhvern hátt hafa þau hvorki þroska né stjórn til að breyta aðstæðum. Til að mynda ef barn elst upp við vímuefnaneyslu foreldris/foreldra getur barn ekkert gert til að breyta þeim aðstæðum. Eins ef barn upplifir skort á tilfinningatengslum (skort á ást/viðurkenningu) er það ekki í stakk búið til að fá umhverfið til að koma til móts við þarfir þess.
Skortur á stjórn getur komið fram í nánast öllum umhverfisaðstæðum barns. Skólinn til að mynda er stór þáttur í lífi barns. Barn er fast í skólanum alveg sama hvernig því líður. Í skólanum eru gerðar kröfur um að barnið geti tileinkað sér ákveðna færni. Börn eru með mismunandi styrkleika/veikleika og bóknám hentar þeim ekki öllum. Börn sem eiga erfitt með að tileinka sér bóknám upplifa oft vanmáttarkennd sem síðan fylgir þeim áfram í lífinu. Eins er ef börn eru lögð í einelti hvort sem það er í skóla eða annars staðar þá eru þau oft og tíðum föst í þeim aðstæðum.
Sjálfhverfa barna
Önnur ástæða fyrir því að ræturnar liggja í æskunni er sú sjálfhverfa sem tengist því hvar börn eru stödd í þroskaferlinu. Börn skortir víðsýni; að sjá heildarmyndina. Vandinn við að barnið sér sig sem nafla alheims er sá að það fer að þróa með sér ranghugmyndir ef umhverfisaðstæður koma ekki til móts við þarfir þess. Til að mynda ef að barn upplifir endurtekna höfnun upplifir barnið það sem sína sök; af því að „ég er ekki nógu góð/góður“, „það er eitthvað að mér“ – barnið sér ekki höfnunina sem vandamál umhverfisins heldur eignar sér hana. Það sér ekki að höfnunin er vegna þess að umönnunaraðilinn er mögulega ekki fær um að vera til staðar fyrir barnið á þann hátt sem barnið þarfnast, en barnið túlkar það sem barnið sjálft sé ekki nógu gott til að eiga það skilið að vera elskað.
Flótti frá tilfinningum
Til að koma í veg fyrir að óþægilegar tilfinningar festist innra með okkur þurfum við að fara í gegnum þær alveg sama á hvaða aldri við erum. Ef að við verðum fyrir áfalli, eins og til að mynda missi nákomins ættingja, erum við mannfólkið þannig gerð frá náttúrunnar hendi að okkur er ætlað að vera í þeim sársauka sem við erum að upplifa í tengslum við áfallið; við þurfum hreinlega að vera í þeim erfiðu tilfinningum sem fylgja áfallinu til að losa þær út úr kerfinu. Slíkt hið sama á við um börn. Það getur þó verið einstaklega erfitt fyrir börn í ljósi þess að þau geta síendurtekið verið föst í aðstæðum sem þeim líður illa í. Í ofanálag, eins og fyrr segir, eru börn viðkvæmir einstaklingar; þau þola mun minni tilfinningalegan sársauka heldur en þau okkar sem eru fullorðin. Til að barn geti lifað af í aðstæðum sem reynast því erfiðar þróar barnið með sér varnir. „Partur“ innra með barninu tekur hluta af sársaukanum (tilfinningunum) frá barninu til að það geti „lifað af“. Á þann hátt er líklegra að barnið geti lifað af í aðstæðum sem það höndlar ekki. Slíkur flótti (ótti) frá tilfinningum getur verið nauðsynlegur fyrir barnið. Vandinn er hins vegar sá að ef slíkar varnir hafa þróast innra með okkur í æsku þá fylgja þær okkur yfirleitt áfram fram á fullorðinsár og valda því að við höldum áfram að vera hrædd við þær tilfinningar sem búa innra með okkur. Kerfið okkar finnur ýmsar leiðir til þess að „barnið innra með okkur“ finni ekki of mikinn sársauka. Flótti frá tilfinningum getur einnig komið fram í fíknum. Ekki er óalgengt að fíknir byrji strax í æsku en þær geta umbreyst í aðrar fíknir á unglings- og fullorðinsárum.
Saga fólks hefur ekki einungis áhrif á þróun varna heldur hefur menningin einnig áhrif. Það er ekki langt síðan að tilfinningar voru litnar hornauga hér á landi. Dæmi um menningarlegar varnir eru frasar eins og „lífið heldur áfram“, „það þýðir ekki að dvelja við þetta“, „þetta er búið“. Varnirnar koma einnig fram í kynbundnu samhengi. Það er eins og kvenkynið hafi frekar leyfi til að vera í tilfinningum heldur en karlkynið og oft í neikvæðri merkingu, eins og ekki gráta eins og stelpa, stórir strákar gráta ekki. Sem vísar til þess að drengir hafi ekki leyfi til að vera tilfinningaverur. Þetta eru þó allt varnir sem fara vonandi að líða undir lok.
Að mínu mati er mikilvægt og jafnframt áhugavert að skoða barnið innra með okkur en varnir koma oft í veg fyrir að við skyggnumst inn á við og skoðum sögu okkar í tilfinningalegu samhengi. Varnirnar geta komið í veg fyrir að við náum að kynnast okkur sjálfum. Þar að auki hafa þær tilfinningar og varnir sem sitja fastar í barninu innra með okkur þau áhrif að við erum oft föst í óheilbrigðum mynstrum (við sækjum í aðstæður sem eru slæmar fyrir okkur). Að sama skapi bitna tilfinningarnar og varnirnar á líðan okkar og samskiptum við annað fólk. Fyrsta skrefið í átt að tilfinningalegri vellíðan eða breyttum lífsmynstrum er að horfast í augu við þær tilfinningar sem búa innra með okkur.
Grein birtist upphaflega á mbl.is