Síðustu vikur hafa verið annasamar hjá Hugaraflsfólki. Hefðbundin verkefni sem fylgja starfinu, hópavinna, Hugaraflsfundir, félagsstarf og kynningarviðtöl eru alltaf á sínum stað. Erlend samstarfsverkefni eru í fullum gangi og gestkvæmt hefur verið hjá okkur í Borgartúni 22. Stjórnmálamenn hafa komið við hjá okkur til þess að kynna sér starfsemina og stöðu mála. Og fulltrúar Hugarafls hafa líka verið á ferðinni um allan bæ og rætt við ráðamenn niður á Alþingi og í Ráðhúsi Reykjavíkur. Við erum innilega þakklát fyrir þann mikla stuðning sem við finnum fyrir þessa dagana sem gefur okkur bæði styrk og von til að halda ótrauð áfram í nafni valdeflingar og batamiðaðar hugmyndafræði.
Okkur þykir við hæfi að taka saman tvær stuttar klippur sem gætu hafa farið framhjá fólki í liðinni viku. Sú fyrri er viðtal sem tekið var við Auði Axelsdóttur á Bylgjunni miðvikudaginn 21. febrúar. Sú seinni er ábending frá Ásmundi Friðrikssyni, Alþingismanni til þingheims um að standa vörð um fallegasta blómið í garðinum, frekar en að slíta það upp með rótum, líkt og mörgum finnst nú verið að gera með starfsemi GET og Hugarafls.
Hugarafsfólk er bjartsýnt á að lausnir finnst og bindur miklar vonir við fund með félagsmálaráðherra í næstu viku. Njótum helgarinnar kæru vinir og félagar. Sjáumt hress og kát í næstu viku!