Skip to main content
Greinar

Aukin ásókn í félagslegt húsnæði

By febrúar 22, 2014No Comments

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is Biðlistar eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi hafa lengst, borið saman við júní í fyrra. Orsakirnar má að einhverju leyti rekja til versnandi efnahagsástands og samdráttar í…

Biðlistar eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi hafa lengst, borið saman við júní í fyrra. Orsakirnar má að einhverju leyti rekja til versnandi efnahagsástands og samdráttar í landinu. Óvíst er hvaða áhrif breyting lánveitinga Íbúðalánasjóðs (ÍLS) mun hafa á biðlistana en nú er fólki kleift að taka hærra lán en áður. Erfitt er að segja til um hvort fólk láti í kjölfarið taka sig af listanum eða hvort staða flestra sé það slæm að breytingin gagnist þeim lítið.

14% fjölgun í Reykjavík

Í byrjun mánaðarins voru 824 á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Um er að ræða hækkun upp á tæp 14% milli ára en í fyrra voru umsækjendurnir 723. Rekstur félagslegra íbúða er í höndum Félagsbústaða. Í þeirra eigu eru 1.748 félagslegar leiguíbúðir og fjölgar þeim um u.þ.b. 100 á ári. Þar að auki eiga Félagsbústaðir tæplega 300 þjónustuíbúðir.

Ástandið mun skila sér á listana

Biðlistinn eftir félagslegu húsnæði í Kópavogi hefur lengst um 20% milli ára. 137 biðu eftir húsnæði í fyrra en nú eru þeir 165. Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri Kópavogs, segir erfitt að útskýra fjölgunina en að einhverju leyti megi rekja hana til aukins íbúafjölda í bæjarfélaginu. Ekki er ljóst hvort efnahagsþrengingar sl. mánaða séu farnar að skila sér inn á biðlistana en ástandið sem hafi verið viðvarandi í þjóðfélaginu eigi mjög líklega eftir að sýna sig með áberandi hætti á listunum í framtíðinni.
Kópavogsbær á 340 íbúðir sem leigðar eru út og er stefnt að því að þær verði 360 í lok árs. Síðustu árin hafa 20 íbúðir verið keyptar árlega en í ár er stefnan sett á 30. Bæði því aukinnar þarfar hefur orðið vart og þá hefur fasteignaverð lækkað síðan í fyrra. Ekki er gert ráð fyrir að grípa til annarra ráðstafana til að stemma stigu við lengingu biðlistanna.

Vilja tryggja öryggi fólks

Í Kópavogi eru ekki í boði svokallaðar sérstakar húsaleigubætur, líkt og í Hafnarfirði og Reykjavík, en þær eru viðbætur við grunnfjárhæðir húsaleigubóta. Sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar þeim sem búa við erfiðar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður. Að sögn Aðalsteins verður kerfið að öllum líkindum tekið upp í Kópavogi síðar á árinu en hingað til hefur bærinn heldur viljað auka við eignasafnið. Þannig sé öryggi fólks, sérstaklega barna, tryggt en samningarnir sem fólk í félagslega húsnæðinu gerir við bæinn eru til þriggja ára. Fólk þurfi því ekki að óttast að þurfa að flytja með skömmum fyrirvara en sérstöku húsaleigubæturnar eru fyrir þá sem leigja á almennum markaði.

100 milljónir til íbúðakaupa

Í Hafnarfirði hefur fjölgað lítillega á biðlista eftir félagslegu húsnæði. 163 eru á listanum samanborið við 160 í fyrra en gera má því skóna að listinn væri lengri hefði bærinn ekki tekið upp sérstakar húsaleigubætur sl. haust. Alls eru 12 sem þiggja slíkar bætur frá bænum.
Félagslegar íbúðir í eigu bæjarins eru 229 talsins og hjá Fasteignafélagi Hafnarfjarðar fengust þær upplýsingar að fjölga ætti íbúðunum um 20 á árinu. Félagið ætlar að leggja til þess um 100 milljónir en ÍLS mun einnig leggja fram óuppgefna upphæð. Kaupin marka ákveðin umskipti en engar eignir voru keyptar á árunum 2006-7. Þá var bærinn með ellefu íbúðir á leigu sem voru framleigðar til þeirra sem á þurftu að halda.

Hver eru tekjumörkin fyrir félagslegt húsnæði?
Heildartekjur einstaklinga mega ekki nema meira en 2.843 þúsund kr. á ári. Tekjumörk hjóna og sambýlisfólks eru 40% hærri en hjá einstaklingum eða 3.980 þúsund kr. Ofan á þessar upphæðir bætast við 476 þúsund kr. fyrir hvert barn á heimilinu undir 20 ára aldri. Leggja þarf fram staðfest ljósrit af skattframtali síðasta árs og launaseðlum þriggja síðustu mánaða fyrir umsóknardag. Húsaleigubætur teljast ekki til tekna.

Hver eru eignamörkin?

Þau eru 3.069 þúsund kr. Miðað er við heildareign að frádregnum heildarskuldum.

Við hvað er miðað í hækkun á tekju- og eignamörkum?

Miðað er við árlega hækkun á neysluverðsvísitölu. Hækkunin frá 1. janúar 2007 til 1. janúar 2008 nam 5,86%.

Við hvaða aðstæður fá einstaklingar forgang á biðlista?

Séu félagslegar aðstæður fólks sérstaklega slæmar, einkum ef börn koma við sögu, er reynt að útvega því félagslegt húsnæði sem fyrst. Meta þarf hvert tilfelli fyrir sig. Þá ganga þeir sem ekki fá greiddar sérstakar húsaleigubætur fyrir þeim sem þeirra njóta.