Skip to main content
Greinar

Að greinast með geðsjúkdóm

By febrúar 22, 2014No Comments

Kári Tilgangur þessarar greinar er að fjalla um það hvernig það er að greinast með geðsjúkdóm og hvernig farsælast sé að bregðast við því. Nú verður hver og einn auðvitað að finna sína eigin leið en það eru samt ákveðnir hlutir sem geta nýst öllum þeim sem greinast með geðsjúkdóm.

Það að greinast með geðsjúkdóm getur verið mikið áfall. Þegar einstaklingur sem hefur verið heilbrigður alla sína ævi greinist með geðsjúkdóm þá lendir hann í þeirri stöðu að þurfa að horfast í augu við sjálfan sig og átta sig á því að hann veit lítið um sinn sjúkdóm og hefur í mörgum tilfellum fordóma gagnvart sínum sjúkdómi. Það að fá geðsjúkdóm er eitthvað sem kemur fyrir aðra en ekki mig. Þetta eru fullkomlega eðlileg viðbrögð. Þó svo að samfélagslega séð hafi margt breyst til batnaðar og meðvitund almennings á geðsjúkdómum hafi aukist þá eigum við því miður enn langt í land. Það eru fordómar byggðir á fáfræði sem enn hrjá okkar samfélag gagnvart geðsjúkdómum almennt og gagnvart þeim einstaklingum sem veikir eru. Lengra ætla ég nú ekki að ræða um samfélagslegu hlið geðsjúkdóma heldur ætla ég að ræða um hvernig farsælast sé fyrir einstaklinginn að takast á við það að veikjast. Hér fyrir neðan koma nokkur atriði sem vonandi geta nýst þeim sem eru að veikjast í fyrsta sinn.

Að þekkja sinn sjúkdóm.

Það fyrsta sem þú ættir að gera þegar þú greinist með geðsjúkdóm í fyrsta sinn er að kynna þér sjúkdóm þinn eins vel og hægt er. Farðu á vefsíður eins og hjá doktor.is (www.doktor.is) og geðhjálp.is (www.gedhjalp.is) og kynntu þér læknisfræðilegu hlið sjúkdómsins. Lærðu að þekkja einkenni sjúkdómsins þannig að þú sért betur búinn til að takast á við þau. Kynntu þér bataferlið og líkur á bata og notendarannsóknir. Þekking á sjúkdómnum, nýjustu rannsóknum, horfum og bataferlinu gerir þér kleift að taka virkan þátt í þinni meðferð og skapar þann möguleika að þú og læknirinn þinn getið unnið í þinni meðferð í sameiningu. Gerðu sem sagt þá kröfu að meðferð þín sé samvinna sjúklings og læknis, að þú getir valið og fáir allar þær upplýsingar sem þú þarft hverju sinni.

Að nýta sér reynslu annarra.

Það að geta nýtt sér reynslu annarra er skynsamlegt að mörgu leyti. Í fyrsta lagi þá áttar þú þig á því að þú ert ekki einn með þinn sjúkdóm. Það hafa aðrir einstaklingar gengið í gegnum það sama og þú ert nú að ganga í gegnum. Þessir einstaklingar hafa margir fundið leiðir til að takast á við sjúkdóm sinn og sú þekking getur nýst þér. Lestu því reynslusögur og batasögur annarra, þær má finna til dæmis á síðu Hugarafls (www.hugarafl.is) og á síðu geðhjálpar (www.gedhjalp.is). Einnig eru fjölmargar erlendar síður sem innihalda reynslusögur og batasögur.

Að þekkja lyfin sem þú ert að taka.

Margir sem eru að takast á við geðsjúkdóma þurfa að taka lyf við sjúkdómi sínum. Þegar þér er skaffað lyf í fyrsta sinn þá ættir þú að gera þá kröfu að læknirinn þinn upplýsi þig um hvernig lyfið virkar og hvaða aukaverkanir eru til staðar. Einnig þarftu upplýsingar um hvaða líkur séu á að geta hætt á þeim aftur og hvað þurfi til. Kynntu þér einnig lyfin á vefsíðum eins og hjá Lyfja.is (www.lyfja.is) og doktor.is (www.doktor.is) þannig að þú öðlist betri þekkingu á lyfjunum. Einnig eru fjölmargar erlendar vefsíður sem innihalda upplýsingar um lyf og oft er skynsamlegt að fara inn á einhverja leitarvél eins og til dæmis Yahoo.com (www.yahoo.com) og slá þar inn heitinu á lyfinu og fá ferkari upplýsingar þannig.

Að takast á við eigin fordóma.

Fordómar eru yfirleitt byggðir á fáfræði. Við sem greinumst með geðsjúkdóma þurfum flest að ganga í gegnum ákveðið ferli þar sem við þurfum að horfast í augu við það að við erum veik. Það ferli getur tekið mislangan tíma og fer það að töluverðu leyti eftir þroska einstaklingsins. Leiðin til að sigrast á fordómum er að afla sér þekkingar. Þekking er besta vopnið sem við höfum til að berjast við geðsjúkdóma og fordómana sem þeim fylgja.

Að koma út úr skápnum.

Það er eitt að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður sé veikur en það er annað að viðurkenna það fyrir öðrum. Því fyrr sem þú kemur út úr skápnum með sjúkdóm þinn þeim mun betur mun þér farnast. Það er merki um styrkleika að geta viðurkennt að maður eigi við geðsjúkdóma að ræða. Allur feluleikur er ófarsæll og leiðir til þess að einstaklingurinn hefur minna sjálfstraust og líður yfirleitt illa með stöðu sína. Það að koma út úr skápnum getur að sjálfsögðu tekið tíma en þegar til lengri tíma er litið þá er það farsælast fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild. Það að burðast einn með svona leyndarmál fer illa með geðheilsu manna.

Þess má einnig geta að þegar við greinumst með geðsjúkdóm þá þurfum við að endurskilgreina okkur upp á nýtt. Finna okkar eigin rödd og kjark til að nota hana. Við megum ekki detta í þá gryfju að halda að við séum okkar sjúkdómur. Þó svo að við séum haldin einhverjum geðsjúkdómi þá höldum við áfram að vera persónur fyrst og fremst.

Að vera vongóður.

Það að vera vongóður er jákvæður og uppbyggjandi eiginleiki. Nú á dögum eru til mjög góð lyf sem geta í flestum tilvikum slegið á virk einkenni geðsjúkdóma. Nýjustu rannsóknir benda til þess að það séu jafnvel 60-70% líkur á því að fólk sem greinist með alvarlegar geðraskanir geti náð bata.

Ég vil einnig benda þér á að stuðning má finna á ýmsum stöðum eins og til dæmis hjá fjölskyldu og vinum og slíkur stuðningur getur reynst ómetanlegur í baráttunni við geðsjúkdóma. Ekki vera hræddur við það að deila reynslu þinni, þú munt finna það út að flestir taka þér vel og reynast skilningsríkir á þínar aðstæður.

Til er hugmyndafræði eins og valdefling sem getur gefið þér nýja von um bata. Þú hefur sem sagt fulla ástæðu til að trúa því að þú getir náð bata af sjúkdómi þínum. Það er að sjálfsögðu vinna að sigrast á geðsjúkdómum og hún getur tekið tíma en margir hafa gert það og þú getur það einnig lesandi góður. Ef þú vilt fræðast frekar um hugmyndafræði valdeflingar þá er hana að finna á heimasíðu Hugarafls (www.hugarafl.is) undir “hugmyndafræði”.

Skrifað 11 febrúar. 2007.

Kári Halldórsson.