Skip to main content
Fréttir

Þögul mótmæli við Velferðarráðuneytið

By April 8, 2018No Comments

Notendur Hugarafls og Geðheilsu – Eftirfylgdar (GET) boða til þögulla mótmæla við Velferðarráðuneytið, þriðjudaginn 10. apríl kl. 13:00 – 13:30. Tilefnið er breytt landslag í geðheilbrigðisþjónustu þar sem rjúfa á 15 ára farsælt samstarf GET og Hugarafls – fagaðila og notenda. Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um “Réttindi hvers manns til þess að njóta bestu mögulegrar líkamlegrar og andlegrar heilsu” og samkvæmt “stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum” sem Alþingi á að vinna eftir er samvinnu sem þessarri lýst sem framtíð geðheilbrigðisþjónustu. Það er því ljóst að með því að slíta í sundur samstarf sem þetta er verið að hverfa aftur til fortíðar, taka valdið af notendum, og skerða valmöguleika þeirra sem þurfa á þjónustu að halda vegna andlegra erfiðleika.

Skorað verður á heilbrigðis- og félagsmálaráðherra að taka ábyrgð á stöðu mála og gera sér grein fyrir því að fjöldi fólks er að missa mikilvæga þjónustu. Þetta eru ráðherrar okkar notenda og sem slíkir ættu þeir að sjá sóma sinn í að hlusta á raddir okkar, virða þá reynslu sem við búum að, og taka þörf okkar á mismunandi úrræðum til greina.

Allir velkomnir og hvattir til að taka þátt.