Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Grófin geðverndarmiðstöð

By apríl 5, 2016No Comments

Hólmfríður Ásbjarnardóttir skrifaði þessa einlægu grein um Grófina á Akureyri í apríl 2015.  Greinin varð til í kjölfar á skólaverkefni um geðraskanir og úrræði.  Hólmfríður ákvað að deila sinni jákvæðu upplifun og reynslu af starfsemi Grófarinnar.

Grófin er nýtt úrræði fyrir fólk með geðraskanir þar sem allt er unnið á jafningjagrunni. Unnið er eftir hugmyndafræði Valdeflingar að fólk með geðraskanir geti náð bata með að vinna í sjálfu sér. Forvarnir og fræðsla um að vinna gegn fordómum og gefa fólki von um betri lífsgæði er hluti af starfi Grófarinnar. Grófin er griðastaður. Þar er hægt að koma, setjast niður og slaka á. Þarna er alltaf heitt á könnunni, fólk til að tala við og verkefni sem þarf að leysa.

Hvort sem áhugi er fyrir því að skapa, stjórna eða hlusta, sem ekki eru tækifæri eða forsendur til annars staðar, þá er Grófin staðurinn. Þar er lögð áhersla á jafningjastarf þar sem allir stuðla að geðheilbrigði. Það tók mig langan tíma að leggja af stað í þetta verkefni. Ég vissi ekki við hverju ég mátti búast. Ég var pínu stressuð en svo hafði svo samband og undirbý mig.  Ég geng þarna inn, fer úr skónum í forstofunni og skrifa í gestabók sem liggur opin. Þegar ég geng lengra inn sé ég stofu, með nýjum hornsófa og sófaborði. Þar sitja þrír einstaklingar með kaffibolla. Ég hugsa strax með mér kaffi! Hvar fæ ég kaffi? Þá sé ég kaffiborð beint af augum. Ég hefði líka getað fengið mér te en ég er í kaffihug þennan dag.

Áður en ég næ lengra kemur til mín maður. Hann kynnir sig og ég átta mig á því að þetta er sá sem ég er búin að tala við í gegnum tölvupóstinn. Indæll maður og maður finnur strax að hann hefur gengið í gegnum ýmislegt um ævina. Hann er einn af stofnendum Grófarinnar og hefur unnið í svipuðu starfi fyrir sunnan. Hann kynnir mig fyrir fólkinu sem situr í sófanum og sýnir mér svo staðinn. Við göngum í gegnum skrifstofuna hans, kaffistofuna, fundarsalinn, handverksstofuna og svo stofuna. Þegar þangað er komið er hann kallaður í samtal svo ég fæ mér kaffibolla og sest niður.

Þar er fólk sem hefur lifað lífinu alveg eins og mamma og pabbi, eða amma og afi. Það hefur upplifað sömu hluti og lært sömu staðreyndir um heiminn. Þú getur ekki verið neitt annað en þú sjálfur á þessum stað. Þú finnur fyrir hlýju frá fólki sem kemur fram við þig sem jafningja sinn. Það hafa svo margir aðrir fundið sig þarna. Fyrir sumum er þetta vinnustaður, aðrir koma til að spjalla og fá sér kaffi og enn aðrir mála og skapa en öll hafa þau sama markmið sem er að stuðla að heilbrigði.

Við erum öll boðuð á fund. Ég byrja á því að skrifa undir  yfirlýsingu um að ég ræði ekki um það fólk sem ég hitti hér utan veggja Grófarinnar. Þessi fundur var um áhyggjur og hvernig við gætum beðið um hjálp ef okkur vantaði.  Mikið var rætt og margir náðu að tjá sig um sín áhyggjuefni. Þetta var fyrsti fundurinn af þessu tagi sem haldinn var. Annars miðast allt starf innan veggja Grófarinnar við að stuðla að heilbrigðu og jákvæðu hliðum lífsins. Falleg málverk eru á veggjum og upplífgandi skilaboð frá öllum mögulegum hliðum.

Kynni mín af geðveiki eru ekki mikil. Áður en ég kynnist starfsemi Grófarinnar vissi ég af geðveiki afa míns sem ég þekkti voðalega lítið og svo af einni af æskuvinkonum mínum. Ég hef tvisvar komið á geðdeildina á FSA og einu sinni heimsótt BUGL. Af þeirri reynslu hef ég lært að fólk er jafn misjafnt og það er margt og til eru margar gerðir af geðröskunum.

Ég sá afa minn örsjaldan og þekkti ekki til hans né heilsufars hans.

Á meðan afi var á lífi má segja að samfélagið hafi bælt niður alla umræðu um veikindi hans. Hann var lagður inn á Klepp. Í þá daga var það að vera vistmaður á Kleppi alveg síðasta sort og synir hans gáfu frekar í skyn að hann væri látinn. Í dag á þetta ekki að vera svona. En það virðist taka langan tíma fyrir samfélagið að þróast úr heimi þagnar, skammar og bælingar og spurning hvort fólk líti enn á einstaklinga með geðraskanir sem klikkað eða hættulegt fólk.

Ég sit og spjalla við fólk um pólitík, prjónaskap, blak, tungumál, mikilvægi skólanna og svo margt fleira. Það hefur ferðast um heiminn, það hefur alið upp fjölskyldur og misst ástvini eins og flestir þekkja. Mér er tekið með opnum örmum. Allt er í nútíð, enginn er að pæla í hvað gerist á morgun heldur hvað er að gerast í dag. Jákvæðu hugarfari er haldið á lofti og það er enginn að stressa sig yfir neinu. Ég er bara ég og það er ekkert sem ég get gert til að breyta því. Dvölin mín í Grófinni fær mig til að finna fyrir þakklæti yfir því að hafa fengið færi á að kynnast þessari starfsemi. Kannski hefði afa gengið betur ef hann hefði fengið sama tækifæri og ég.

Á svokölluðum umhyggjufundi kemst einn maður svo vel að orði. Hann talar um að áhyggjur sínar séu öðruvísi en þær áhyggjur sem vinir hans og ættingjar hafa. Hann segir að það sé mikilvægt að geta talað við fólk sem hefur svipaðar áherslur og áhyggjur í lífinu. Það er ekki endalaust hægt að íþyngja ástvinum sínum með hugsunum sínum varðandi geðsjúkdóminn. Þess vegna kemur hann til Grófarinnar. Þar er áhersla lögð á heilbrigði og þar getur hann talað um þá litlu sigra sína sem að skipta aðra ekki eins miklu máli.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi Grófarinnar betur þá eru þau með heimasíðuwww.grofin.wordpress.com og svo getið þið fundið þau á facebook undir nafninu Grófin Geðverndarmiðstöð. Þau eru staðsett í Hafnarstræti 95 (fyrir ofan apótekarann) svo ég skora á fólk til að einfaldlega mæta og sjá hvort að þetta henti þeim. Það er einnig hópur ungs fólks eldri en 18 ára, sem hafa átt við geðræn vandamál að stríða, sem koma saman einu sinni í viku og gera eitthvað skemmtilegt eða spjalla saman og það eru alls engar skuldbindingar.

– Hólmfríður Ásbjarnardóttir

Greinin er upphaflega birt á dagskráin.is