Skip to main content
Fréttir

Yfirlýsing frá notendum GET og Hugarafls

By February 21, 2018February 22nd, 2018No Comments

Ekkert um okkur án okkar! Það á líka við í geðheilbrigðismálum!

Yfirlýsing frá notendum Geðheilsu – Eftirfylgdar og Hugarafls

Lesin upp á fundi með velferðarnefnd Alþingis, 21. febrúar 2018

Notendur Geðheilsu – Eftirfylgdar og Hugarafls vilja koma á framfæri þakklæti til velferðarnefndar Alþingis fyrir þann tíma sem nefndin gefur sér í málefni okkar.

Þessa dagana ríkir mikil óvissa, vonleysi og kvíði meðal okkar notenda. Notenda sem leitað hafa sér geðheilbrigðisþjónustu faglegs geðteymis Geðheilsu – Eftirfylgdar sem starfrækt hefur verið til 15 ára á vegum Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Nú hefur verið tekin stjórnsýsluákvörðun um að loka á þjónustu þessa geðteymis. Þjónustu sem byggir á hugmyndafræði bata og valdeflingar, sem einmitt var sérstaklega tekið fram að vinna bæri eftir í geðheilbrigðisáætlun Alþingis sem samþykkt var 2016 og gildir til fjögurra ára.

Óvissunni má best lýsa á þennan veg. Notendur vita í raun ekki hvort þeir eru að fara í aðra þjónustu eftir 2 vikur, 4 vikur, 5 mánuði eða 10 mánuði. Þeir vita ekki hvert þeir eru að fara. Þeir vita ekki hverjir fylgja þeim eða hverjir taka við þeim. Og þeir vita í raun ekkert hvaða þjónusta bíður þeirra og hvort hún hentar þeim yfir höfuð.

Það sem notendur vita, er byggt á tímalínu sem starfsmönnum Geðheilsu – Eftirfylgdar var gert skylt að vinna eftir samkvæmt tilskipunum stjórnenda Heilsugæslunnar. Sú tímalína sýnir hins vegar svart á hvítu að orð Heilsugæslunnar um að núverandi notendur Geðheilsu – Eftirfylgdar fái samfellda þjónustu, stenst engan veginn.

Að mati notenda er nú þegar ljóst að samfellan er rofin. Fagmenn Geðheilsu – Eftirfylgdar, hafa á síðustu mánuðum í samstarfi við starfsmenn og sjálfboðaliða innan Hugarafls, unnið þrekvirki til að koma til móts við þarfir notenda í þeirri óvissu sem áður er vitnað til. Forgangsraðað hefur verið, til þess að veita nauðsynlegan stuðning og koma í veg fyrir alvarleg bakslög. En bakslög hafa samt orðið og fólk hefur í auknum mæli verið að undirbúa sig fyrir óvissutíma. Í stað þess að einbeita sér að sinni batavinnu með sínum meðferðaraðilum.

Engin skrifleg gögn hafa borist frá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins til notenda um hvað nákvæmlega er framundan. Engin aðili sem kom að mótun nýrra geðteyma eða kom að ákvarðanatökum um framkvæmd, hefur látið sjá sig í Borgartúni 22 til að tala við notendur. Enginn fulltrúi nýrra teyma hefur látið sjá sig þar. Og enginn, hefur svo mikið sem svarað einum tölvupósti frá notendum sem í anda valdeflingar, eru að að leita sér upplýsinga um hvað er að taka við. Og það á reyndar líka við um heilbrigðisráðherra sem ekki hefur svarað fyrirspurnum eða áskorunum um að kynna sér stöðu mála út frá sjónarhóli notenda.

Einu gögnin sem notendur hafa í höndunum á þessari stundu, um hvað er að fara að gerast, er samantekt samráðshóps sem settur var á laggirnar í apríl 2017 og skilaði af sér skýrslu í september sama ár. Í þeirri skýrslu er strax auðséð, að engin notandi, eða fulltrúi valdeflingar átti sæti í samráðshópnum. Orðið valdefling, sem vinna ber eftir samkvæmt geðheilbrigðisáætlun Alþingis, kemur t.d. einu sinni fyrir í texta skýrslunar. Og öll framkvæmd vinnur í raun þvert gegn hugmyndafræði þeirrar valdeflingar sem Geðheilsa – Eftirfylgd og Hugarafl hafa boðið upp á í 15 ár.

Valdefling er verkfæri byggt á mælanlegum atriðum sem fagmenn og notendur geta nýtt sér markvisst í batamiðaðri vinnu. Og það er lykilhugtak til að tryggja þjónustu við hæfi notenda, samkvæmt tilmælum frá sameinuðu þjóðunum, allt frá 2010. Það kemur notendum ekkert sérlega á óvart, eftir að hafa kynnt sér skýrslu samráðshóps, að engin þörf er talin vera á því að mæla valdeflingu í nýjum geðheilsuteymum. Ekki frekar en talin hefur verið þörf á að gera það í geðheilsuteymi Breiðholts sem samkvæmt skýrslunni er eina geðteymið á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslu samráðshóps er nefnilega ekki minnst einu orði á geðteymi Geðheilsu – Eftirfylgdar sem eins og áður segir hefur veitt opinbera geðheilbrigðisþjónustu í 15 ár.

Samkvæmt tillögum starfshóps er heldur ekki sambærileg þjónusta í boði fyrir notendur. Lykilverkfæri sem margir hafa tileinkað sér í sínum bata virðast ekki metin að verðleikum. Þar má sem dæmi nefna jóga, slökun, núvitund og hugleiðslu. Á sama tíma er verið að bæta þessum öflugu forvarnarverkfærum inn í íslenska leikskóla og almennt skólastarf. Félagsleg virkni, hópastarf og notendastuðningur, líkt og Hugarafl hefur boðið upp á, samhliða einstaklings- og fjölskyldustuðningi Geðheilsu – Eftirfylgdar er heldur ekki til staðar lengur. Hér er um mikla afturför að ræða og mikil þörf á að notendur sem náð hafa bata, séu til staðar sem virkur hópur til að minnka fordóma, koma í veg fyrir valdaójafnvægi og byggja upp von.

Áhyggjur notenda um hvað er í raun framundan eru því ekki úr lausu lofti gripnar. Þær áhyggjur byggja á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið hingað til af hálfu embættismanna, þar sem stór hópur núverandi notenda í opinberri geðheilbrigðisþjónustu, virðist hreinlega ekki vera til. Slík vinnubrögð eru ekki boðleg og þeirri vanvirðingu sem einkennist helst af fordómum og forræðishyggju, mótmæla notendur harðlega.

Þessa dagana eru einstaka notendur að undirbúa kvartanir til umboðsmanns Alþingis vegna stjórnsýsluákvarðana Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og vinnulags sem opinberlega hefur verið sagt að sé á grundvelli geðheilbrigðisáætlunar Alþingis. Þær kvartanir leysa hins vegar ekki úr þeirri óvissu sem við okkur blasir á næstu misserum. Geðheilsa – Eftirfylgd er að missa hluta sinna fagmanna strax í mars og Hugarafl verður samkvæmt tímalínu Heilsugæslunnar, húsnæðislaust í september.

Eins og gefur á skilja, ríkir því ekki mikið traust af hálfu notenda til þeirrar þjónustu sem framundan er í nýjum teymum. Eða til þeirra embættismanna sem hingað til hafa tekið allar ákvarðanir og látið eins og við notendur séum ekki til. Og traustið verður ekki byggt upp aftur eins og staðan er í dag. Notendur Geðheilsu – Eftirfylgdar og Hugarafls óska því eftir, að leitað verði allra leiða til að tryggja áframhaldandi rekstur Geðheilsu – Eftirfylgdar og Hugarafls utan Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Við óskum eftir því að velferðarnefnd, einstaka þingmenn, ráðherrar velferðarmála og ríkistjórn Íslands vinni fljótt og örugglega að lausnum á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í málefnum notenda Geðheilsu – Eftirfylgdar. Og tryggi um leið, að innan opinberrar geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi, verði áfram í boði val um raunverulega, mælanlega valdeflingu, opna batamiðaða þjónustu og notendastuðning sem annars mun heyra sögunni til, byggt á geðheilbrigðisáætlun Alþingis.

Í framhaldinu verði unnið í takt við geðheilbrigðisáætlun og alþjóðalegar stefnur sem byggja á tilmælum Sameinuðu þjóðanna í geðheilbrigðismálum.

Virðingafyllst
Notendur Geðheilsu – Eftirfylgdar og Hugarafls