Skip to main content
Fréttir

Umfjöllun um Hugarafl í Stundinni

By maí 5, 2017No Comments

Hugarafl vill benda lesendum á greinargóða umfjöllun Stundarinnar um starfsemi félagsins sem birtist í 9. tölublaðinu, þann 4. maí síðastliðinn.  Í kjölfarið hafa greinarnar svo birst inn á stundin.is.  Greinaflokkurinn lýsir vel því fjölbreytta starfi sem fram fer í Hugarafli og hversu dýrmætt starfið er fyrir fjölda einstaklinga sem sótt hafa sinn bata á aðra hæðina í Borgartúni 22.

Stjórnvöld spara í geðheilbrigðismálum, en kostnaðurinn fellur á samfélagið. Forsíðuúttekt nýs tölublaðs Stundarinnar er helguð orsakasamhengi geðheilbrigðisstefnunnar og batasögum einstaklinga með geðraskanir.

Formaður Hugarafls – samtaka sem hjálpa fólki með geðraskanir að verða virkt í samfélaginu að nýju – segir sögu sína, sem og fólkið sem hefur hlotið bata með hjálp samtakanna. Nú horfa þau fram á óvissu í fjárframlögum frá ríkinu og báðir verkefnastjórarnir sjá fram á að verða sagt upp í sumar.

Endaði barnshafandi á geðdeild

Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, segir frá því hvernig hvert áfallið á fætur öðru varð til þess að hún missti geðheilsuna og metnaðinn og festist í hlutverki sjúklings, sem átti ekki að rugga bátnum, ekki ögra sjálfum sér eða umhverfinu, eða gera neitt sem gæti orðið til þess að hann fengi kast eða yrði leiður. Hún segir frá því hvernig henni tókst að rjúfa þennan vítahring, finna sína styrkleika og fara að lifa á ný.

„Mig langar til þess að biðja ykkur um að hlusta af því að við erum að fara að tala um geðveiki. Það er erfitt að segja frá sjálfum sér og þetta er viðkvæm saga. En mig langar til að segja ykkur hana.„

Svona nær Málfríður Hrund Einarsdóttir athygli framhaldsskólanema þegar hún segir söguna af því hvernig hún, sem ólst upp í öruggu umhverfi í Hafnarfirði, augasteinn foreldra sinna og langyngst sex systkina, sem öll héldu verndarhendi yfir henni, brotnaði niður. Hefði allt farið eins og móðir hennar óskaði sér hefði hún aldrei lent í neinum áföllum á lífsleiðinni. Raunin varð þó önnur og hvert áfallið hefur rekið öðru. Strax í æsku lenti hún í hremmingum í vináttusambandi sem einkenndist af ráðríki og ofbeldi og mótaði allt sem á eftir kom. Hér segir hún svo frá því hvernig tilraunir hennar til þess að byrgja sársaukann inni og harka af sér varð á endanum til þess að hún missti heilsuna og endaði á geðdeild, verðandi móðir, örmagna á líkama og sál.

Nánar á Stundin.is

Geðraskanir: Kostnaðurinn af aðhaldinu

Íslendingar eiga met í lyfjanotkun en aðgengi að sálfræðingum er takmarkað. Kostnaðurinn af geðröskunum er talinn vera minnst 24 milljarðar á ári. Engu að síður eru samtök eins og Hugarafl, sem vinna að bata fólks með geðraskanir, í uppnámi vegna óvissu um fjárframlög.

Það þarf náttúrlega einhverja geðveiki til þess að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á,“ sagði Bjarni Benediktsson í áramótauppgjörsþættinum Kryddsíld á Stöð 2 á gamlársdag og benti jafnframt á að lífsgæði væru mikil hér á landi á nánast hvaða mælikvarða sem er. Líkur eru hins vegar á að þeir sem raunverulega glími við geðveiki sjái einmitt ekki hversu frábært það er að búa á Íslandi, því staðreyndin er sú að Íslendingar eru heimsmeistarar í notkun þunglyndislyfja, mikil aukning hefur orðið í notkun svefnlyfja meðal barna á síðustu árum og örorka vegna geðraskana fer vaxandi meðal ungs fólks.

Hjálparsími Rauða krossins tekur á móti rúmlega einu og hálfu sjálfsvígssímtali á dag og þá hefur ríkisstjórn Bjarna skorið niður styrki til samtakanna Hugarafls um 80 prósent, en samtökin sérhæfa sig í endurhæfingu og valdeflingu þeirra sem glíma við geðheilbrigðisvandamál.

Nánar á Stundin.is

Örsögur úr Hugarafli: Leið í átt að bata

Notendur þjónustunnar segja frá því hvað varð til þess að þeir öðluðust bata frá geðsjúkdómum.

Lengi að yfirstíga fordóma

Hvenær og hvernig áttaðir  þú þig á því að þú þurftir á hjálp að halda?

Er ég veiktist á sínum tíma tók það mig langan tíma að viðurkenna fyrir sjálfum mér og öðrum að ég þyrfti á hjálp að halda vegna þeirra gífurlegu fordóma og neikvæðni sem ég mætti í mínu nærumhverfi gegn geðsjúkdómum. Þegar það loksins gerðist, árið 1986, var ég langt leiddur af kvíða og þunglyndi og fékk hjálp fyrst hjá heimilislækni, sem vísaði mér til viðtals hjá geðlækni, sem var ákaflega neikvæð upplifun og liðu margir mánuðir þar til ég fékkst til að mæta aftur til viðtals, og þá hjá öðrum geðlækni. Ég áttaði mig á því, á þessum tímapunkti, að ef ég leitaði ekki hjálpar þá, yrði stutt í sjálfsvíg.

Nánar á Stundin.is

 Áskrift að Stundinni fæst á 1.190 krónur á mánuði í vefútgáfu og 1.490 krónur á mánuði með heimsenda prentútgáfu innifalda. Með áskriftinni styrkist sjálfstæð rannsóknarblaðamennska.

Hægt er að nálgast umfjöllun Stundarinnar með því að kaupa áskrift að blaðinu.