Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Syninum vísað af geðdeild- vöktuðu hann í viku

By janúar 27, 2017No Comments

Móðir sem fór með son sinn á móttöku bráðageðdeildar eftir að hann reyndi að stytta sér aldur, segir grafalvarlegt að fólk í slíkum hugleiðingum sé sent heim. Vaka þurfti í viku yfir syni hennar eftir sjálfsvígstilraunina.

Mynd með færsluÍ byrjun mánaðarins sagði Sigurður Hektorsson, yfirlæknir á bráðageðdeild Landspítalans, að engum væri vísað frá deildinni. Samtökin Hugarafl sendu frá sér ályktun vegna þessa og sögðu algengt að fólki væri vísað frá.

„Honum var ekki boðið neitt og það var eiginlega það sem fór svo illa með okkur, illa með hann. Ég hef aldrei séð ástandið á honum eins og þegar við komum út. Ef hann hefur einhvern tímann verið í því ástandi að vilja taka líf sitt þá er það þegar við komum út af geðdeild en ekki þegar við fórum inn. Höfnunin var slík sem hann fékk,“ segir Inga Dís Guðmundsdóttir.

1. maí 2015 reyndi Guðmundur Hermann, sonur Ingu Dísar, að fyrirfara sér með því að taka inn mikið magn lyfja. Guðmundur hafði glímt við erfið andleg veikindi um nokkra hríð og þetta var önnur sjálfsvígstilraun hans. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Selfossi þaðan sem hann var sendur á bráðadeild geðsviðs.

„Hann var mjög hætt kominn, var meðvitunarlaus þarna á annan sólarhring á sjúkrahúsinu á Selfossi þar sem var vel hugsað um hann. Síðan fer hann á bráðadeild og við forum með hann foreldrar hans á geðdeildina beint þar sem læknarnir á Selfossi bæði hringdu á undan okkur og létu okkur hafa bréf til að afhenda á geðdeild þar sem þeir töldu mjög áríðandi að tekið yrði á hans málum,“ segir hún.

Þar ræddu þau við hjúkrunarfræðing sem ákvað að Guðmundur yrði ekki lagður inn og þau send heim tveimur tímum seinna með fáar lausnir. Hann var ekki talinn nógu veikur til að vera lagður inn.

„Vægast  sagt má segja að við höfum verið með grátstafinn í kverkunum að biðja um hjálp og fengum bara algjörlega kalda neitun,“ segir Inga Dís.

„Þarna stöndum við úti, ég gleymi þessu aldrei, þarna horfumst við í augu öll þrjú, hvað eigum við að gera og hann biður okkur um að passa sig. Þessi drengur hefur aldrei beðið um það, hann hefur bara farið inn í skelina. Pabbi hans tók sér frí í heila viku og sat yfir honum. Það var það eina sem var í boði.“

Guðmundur komst síðan í meðferð á Vogi sem að hennar sögn varð upphafið að bata hans þar sem hann hafði líka notað áfengi til að deyfa kvíðann og þunglyndið. Inga sendi bréf á yfirmenn geðsviðs til þess að kvarta yfir því hvernig tekið hefði verið á málum sonar hennar. Hún segir skorta aðstoð fyrir aðstandendur þar sem oft lendi mikil ábyrgð á þeim. Seinna heyrðu mæðginin af samtökunum Hugarafli fyrir tilviljun og segir hún það hafa gjörbreytt lífi þeirra beggja.

„Það eru til staðir sem ég er búin að komast að síðan og komst að fyrir tilviljun, og þakka guði fyrir. Þar tel ég Hugarafl númer 1, það hefur bjargað lífi hans og mínu líka.“

Fréttin birtist upphaflega á ruv.is og var einnig í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins 26.01.2107.  Fréttin hefst þegar 10 mínútur eru liðnar af myndbandinu.