Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Styrkir Hugarafl á sviðinu í Eurovision

By maí 8, 2015No Comments

María Ólafsdóttir mun bera sérhannaða skartgripi á sviðinu í Austurríki þegar hún flytur framlag Íslands í Eurovision. Skartið fer í almenna sölu 9. maí en allur ágóði mun renna til Hugarafls sem berst fyrir hagsmunum og mannréttindum fólks með geðröskun.

Undirbúningur fyrir Eurovision er í fullum gangi og í dag söng María meðal annars á tónleikum í Mosfellsbæ. Hópurinn heldur til Austurríkis á miðvikudag en fram að því verða þrotlausar æfingar og undirbúningur fyrir stóru stundina.

Í dag var hins vegar tilkynnt að María mun bera skartgrip á sviðinu í Austurríki sem er hannaður af Sunnu Dögg Ásgeirsdóttur og smíðaður af Jóni & Óskari. Skartið ber að sjálfsögðu heiti söngkonunnar og sýnir fiðrildi sem er einkennistákn lagsins Unbroken. Allur ágóði mun renna til samtakanna Hugarafl en í fréttatilkynningu frá samtökunum kemur fram að hún hafi átt hugmyndina. Þar segir jafnframt:

„Hún mætti á Geðveikt kaffihús Hugarafls sem haldið var í tilefni af List án landamæra þann 2.maí síðastliðinn. María flutti Unbroken undurfallega eins og hennar er von og vísa ásamt fleiri lögum, gestum til mikillar gleði. Annar höfunda lagsins, Ásgeir Orri Ásgeirsson kom fram með henni á Geðveiku kaffihúsi.

Það þarf vart að geta þess að framlag hennar og frumkvæði hvetur okkur áfram í baráttunni gegn fordómum. Hjá Hugarafli fer m.a. fram heilmikið starf með ungmennum og þar má nefna Geðfræðslu í grunn- og framhaldsskólum og Unghugahópinn en þar koma ungmenni saman, ræða reynslu sína og styðja hvort annað. Í hópnum er unnið að því að efla sjálfstraust og félagsleg tengsl. Það fjármagn semsafnast verður notað til að styðja áframhaldandi starf með ungu fólki, málsvörum framtíðarinnar!

Hugaraflsfólk mun fylgjast grannt með söngkonunni ungu og óskar henni velfarnaðar í lífinu öllu.“
Baldvin Þór Bergsson