Skip to main content
Fréttir

Stjórnaðist af félagsfælni og kvíða

By febrúar 5, 2014No Comments

Stjórnaðist af félagsfælni og kvíða
Eymundur Eymundsson hefur glímt við kvíða, félagsfælni og þunglyndi frá barnsaldri.

Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
mbl.is
Innlent | mbl | 4.2.2014 | 19:45 | Uppfært 23:03

Eymundur Eymundsson hefur glímt við kvíða, félagsfælni og þunglyndi í um 40 ár, eða frá barnsaldri. Hann segir það lengi hafa stjórnað lífi sínu, en nú nýtur hann þjónustu Grófarinnar, sem er nýtt úrræði fyrir fólk með geðraskanir á Akureyri. Hann segir að þar læri fólk að taka ábyrgð á eigin lífi. Miklu máli skipti að þeir sem eru með geðraskanir átti sig á því að hægt sé að ná bata.

Að Grófinni stendur hópur notenda geðheilbrigðisþjónustunnar, aðstandendur þeirra og fagfólk sem starfað hefur í geðheilbrigðisþjónustunni á Akureyri í áratugi. Markmiðið er m.a. að vinna að verkefnum sem geta bætt geðheilbrigðisþjónustuna og vinna að bættum lífsgæðum. Unnið er út frá hugmyndafræði valdeflingar og byggt á sömu hugmyndum og starfsemi Hugarafls.

Í Grófinni byggir fólk sig upp með öðrum sem glíma við það sama á jafningagrundvelli. „Þetta er ekki athvarf, heldur staður þar sem fólk tekur málin í eigin hendur og virkjar hvort annað,“ segir Eymundur. „Það eru allir velkomnir sem glíma við geðraskanir.“

Sýna okkur að þetta sé hægt

„Þeir sem hafa náð bata eru fyrirmyndir fyrir okkur hin, þau sýna okkur að þetta er hægt, öfugt við það sem margir halda,“ segir Eymundur. „En maður þarf sjálfur að taka ábyrgð og hluti af þessu er að virkja sjálfan sig. Við erum að tala um fólk sem er ekki það veikt að það geti ekki eflt sjálft sig. En meðal þeirra sem hafa náð bata með fólk með geðhvörf og geðklofa. Það er allur gangur á því. Hér hefur fólk náð sér vel á strik og farið t.d. að vinna aftur eða farið í nám. Þetta er líklega eitt ódýrasta meðalið fyrir þjóðfélagið.“

Hélt að þetta væri aumingjaskapur

Sjálfur segir hann félagsfælni, kvíða og þunglyndi hafa stjórnað lífi sínu frá barnsaldri. „Ég byrjaði að finna fyrir kvíða þegar ég byrjaði í skóla. Það þróaðist síðan út í félagsfælni sem á endanum stjórnaði mínu lífi. Þetta var rosalegt myrkur lengi, ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta var. En síðan ég áttaði mig á þessu sjálfur hef ég margoft þurft að upplýsa fólk um að þetta sé ekki aumingjaskapur.“

Varstu sjálfur á þeirri skoðun, að þetta væri aumingjaskapur? „Já og ég hélt að ég væri öðruvísi en allir aðrir. Ég skammaðist mín alveg rosalega fyrir sjálfan mig. Ég var í íþróttum og í vinnu, en kveið fyrir öllu. Ég kveið því að fara að sofa og ég kveið því að vakna. Ég lokaði mig meira eða minna af í mörg ár og þetta mótaði mitt líf lengi vel. Ég hef misst af svo mörgu í gegnum tíðina vegna þessa, ég gerði fátt af því sem fólk er vant að gera. Svo leitaði ég í áfengi til að deyfa vanlíðanina, til að drekka í mig kjark. “

Við erum alls staðar í samfélaginu

Árið 2005 heyrði Eymundur fyrst talað um félagsfælni og áttaði sig þá á stöðu mála, en þá var hann að koma úr aðgerð og fékk fræðslu um ýmis sálræn einkenni. „Þetta var mikil uppgötvun og það rann upp fyrir mér ljós að það væri hægt að gera eitthvað í málunum. Það þarf líka að fræða börn og unglinga um geðsjúkdóma, ég held að ímyndin sé oft svo röng. Ég myndi vilja sjá meiri áherslu á geðfræðslu, að hægt væri að ná til ungra krakka. Við sem erum með þessa sjúkdóma erum nefnilega bara manneskjur og erum alls staðar í samfélaginu.“

Sjálfur segist hann hafa haft talsverða fordóma gagnvart fólki með geðraskanir og segir marga með geðraskanir eiga erfitt með að sætta sig við það vegna eigin fordóma. „Ég hélt að fólk sem væri geðveikt væri eins og maður sér í bandarískum bíómyndum, lokað inni og helst í spennitreyju. Það voru eiginlega einu skiptin sem ég sá fólk með geðraskanir.“

Hann segist ekki vera laus við einkennin. „En ég hef náð þeim bata að þetta er ekki að stjórna lífi mínu. Ég átti ekki von á því fyrir nokkrum árum.“
„Ég hélt að ég væri öðruvísi en allir aðrir. Ég hef misst af svo mörgu …

„Ég hélt að ég væri öðruvísi en allir aðrir. Ég hef misst af svo mörgu í gegnum tíðina vegna þessa, “segir Eymundur. mbl.is/RAX