Skip to main content
Greinar

Steindór J. Erlingsson segir frá geðfræðsluverkefni Hugarafls

By febrúar 21, 2014No Comments

„Geðfræðslan er tilraun Hugarafls til þess að koma með nýja nálgun að fræðslu unglinga um geðheilbrigði, með aðaláherslu á að draga úr fordómum.“

FYRIR skömmu birtist í Morgunblaðinu grein eftir Matt Muijen, ráðgjafa á sviði geðheilbrigðismála hjá Evrópuskrifstofu WHO, þar sem hann gerði að umtalsefni geðheilsu og efnahagsvandann á Íslandi. Hann bendir á að þjóðin standi frammi fyrir auknum félagslegum og geðrænum vandamálum, því „[m]ikil tengsl eru á milli annars vegar atvinnuleysis og hins vegar skulda og þunglyndis, áfengissýki og sjálfsvíga“. Börn og ungmenni munu ekki fara varhluta af þessum erfiðleikum. Muijen telur mikilvægt að rjúfa þennan vítahring með öllum tiltækum ráðum. Hugarafl, félag notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og fagfólks, í samstarfi við Hlutverkasetur, leggur sitt lóð á vogarskálarnar með Geðfræðslunni, sem miðar að því að kynna nemendur í efstu bekkjum grunnskólans og framhaldsskólum fyrir reynsluheimi notenda (geðsjúkra).
Í nýlegri bandarískri rannsókn, þar sem kannaðir voru þættir sem hafa áhrif á fordóma unglinga gagnvart geðröskunum, er mælt með nýjum leiðum til þess að fræða unglinga um geðheilbrigði. Sérstök áhersla er lögð á að auka þurfi fræðslu sem dregur úr fordómum hjá þessum aldurshópi gegn geðsjúkdómum, enda eru geðraskanir helsta orsök örorku hjá fullorðnum. Mikilvægi þessa liggur ekki síður í því að rannsóknir hafa leitt í ljós að fordómar eru helsta ástæða þess að ungmenni leita sér ekki aðstoðar vegna geðraskana og neikvæðra viðhorfa þeirra til notenda. Rætur fordóma ungmennanna liggja m.a. í neikvæðri umfjöllun fjölmiðla um einstaklinga með geðraskanir. Þau byrja hins vegar að innbyrða fordómana á barnsaldri, enda hafa rannsóknir leitt í ljós að barnaefni í sjónvarpi og kvikmyndahúsum elur á mjög neikvæðum hugmyndum um geðraskanir og notendur.

Geðfræðslan er tilraun Hugarafls til þess að koma með nýja nálgun að fræðslu unglinga um geðheilbrigði, með aðaláherslu á að draga úr fordómum. Verkefnið felst í því að notendur í bata „koma út úr skápnum“ og greina frá reynslu sinni af geðröskunum og hvaða leiðir hafa hentað þeim í bataferlinu. Mikilvægi þess að notendur sinni slíkri fræðslu er ótvírætt, enda hafa rannsóknir leitt í ljós að bein samskipti notenda við hinn almenna borgara er áhrifamikið tæki til þess að draga úr fordómum; mun gagnlegra en hefðbundin fræðsla og mótmæli.

Haustið 2007 heimsóttum við bekk í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem mikilvægi fræðsluverkefnisins kom berlega í ljós. Í kjölfar fræðslunnar sendi kennarinn, sem kennir sálfræði, okkur umsögn þar sem fram kom að nemendurnir „voru að taka próf hjá mér í vikunni og ég sá aftur og aftur að frásagnirnar höfðu fest sig í litlu límheilana þeirra af mun meiri krafti en námsskrudduþekkingin, þ.e. orðalagið og dæmin koma frá Hugaraflsfólki“. Það var hins vegar ekki beina þekkingin sem gladdi kennarann „heldur sá munur sem ég heyri á spurningum þeirra og tali eftir að þið komuð. Í stað óttablandinnar virðingar um hið framandi fólk (geðsjúklinga) heyri ég virðingu og skilning“. Jafnframt benti kennarinn á að nemendurnir gerðu sér betur grein fyrir því að veikjast af geðsjúkdómi „þýðir hvorki heimsendi né ævilanga vist á dularfullri stofnun“.

Á vordögum ársins 2008 heimsóttum við 9. bekk í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem gagnsemi verkefnisins kom einnig vel fram. Kennarinn hafði undirbúið bekkinn vegna komu okkar daginn áður og fram kom að nemendur höfðu áhyggjur og spurðu: „Hvað eigum við að gera ef þau ráðast á okkur?“ Í kjölfar heimsóknarinnar ræddi kennarinn við nemendurna um gildi fræðslunnar og hafði stórlega dregið úr fordómum gagnvart notendum. Eftirfarandi ummæli eru meðal þess sem kom fram: „Mér fannst þetta fræðandi og skemmtilegt“, „Bara gaman að fræðast um þetta“ og fleira í þeim dúr.

Frá því í september hefur Geðfræðslan farið í fjölmargar skólaheimsóknir, sem mælst hafa mjög vel fyrir, og liggja næg verkefni fyrir fram í lok febrúar á næsta ári. Auk þess að sinna skólaheimsóknum á höfuðborgarsvæðinu þá er það stefna Geðfræðslunnar að þjálfa notendur úti á landi og gera þeim þannig kleift að sinna fræðslunni í sinni heimabyggð og hefur af því tilefni verið útbúin ítarleg handbók. Nú þegar er hafin þjálfun í tveimur sveitarfélögum. Er það von þeirra sem að Geðfræðslunni standa að hún fái að vaxa og dafna því verkefnið hefur nú þegar sannað notagildi sitt. Ein meginforsenda þess er aðgangur að fjármagni og hafa styrkir frá Sparisjóðnum og Forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar tryggt stöðu Geðfræðslunnar næstu misserin.

Höfundur er vísindasagnfræðingur og verkefnastjóri Geðfræðslunnar; steindor@hlutverkasetur.is