Skip to main content
Greinar

Sparisjóðurinn í góðum málum

By febrúar 21, 2014No Comments

Eiríkur Guðmundsson segir frá styrktarátaki sparisjóðanna: „Markmiðið er geðrækt meðal ungmenna…“

SPARISJÓÐURINN hefur hleypt af stað söfnunarátaki þar sem viðskiptavinir fyrirtækisins sem og allir landsmenn eru hvattir til þess að taka höndum saman um að styrkja félög sem vinna að því að bæta geðheilsu barna og unglinga á Íslandi. Hugarafl er eitt þeirra félaga sem njóta góðs af söfnunarátaki Sparisjóðsins. Með söfnunarfénu hyggst Hugarafl stuðla enn frekar að fræðslu um geðheilsu fyrir ungt fólk með heimsóknum í efstu bekki grunnskólans og framhaldsskóla. Markmiðið er geðrækt meðal ungmenna, að fræða ungmenni um mismunandi leiðir til eflingar geðheilsu og að afsanna staðalímyndir geðsjúkra. Sjónarhornið verður geðrækt, notendaþekking og notendareynsla.
Með átakinu er hægt að stórauka fræðslu um hvernig hægt er að ná bata, efla forvarnir, draga úr fordómum, og styrkja ungmenni sem eiga í tilfinningalegum erfiðleikum. Reynsla notenda verður í höfð í fyrirrúmi og henni á að deila með öðrum. Einnig skapast störf fyrir þá notendur sem munu sinna fræðslunni og er því einnig um atvinnusköpun að ræða.

Brottfall nemenda úr framhaldsskólum er allt of hátt eða um 20%, sem jafngildir að um 4.000 nemendur hætta eða taka sér frí frá námi árlega. Þá er og töluverður hópur úr grunnskóla sem heldur ekki áfram. Ég hef starfað sem kennari í sérskólum undanfarinn áratug með brautryðjendum í skólaúræðum fyrir börn með hegðunarerfiðleika og vil ég þar nefna Guðlaugu Teitsdóttur, Jóhönnu Gestdóttur og nú Björk Jónsdóttur. Síðastliðin 2 ár höfum við orðið þess aðnjótandi að fá heimsóknir frá Hugarafli í Brúarskóla og vil ég sérstaklega þakka Hugarafli fyrir þá mikilvægu fræðslu. Það var aðdáunarvert hversu áhugasamir nemendur voru, fordómalausir og duglegir að ræða opinskátt um málefnin.

Rúm fjögur ár eru nú liðin frá því að Hugarafl var stofnað. Hugarafl hefur átt stóran þátt í að breyta umræðunni um geðheilbrigðismál á Íslandi og verið sýnileg fyrirmynd fyrir fólk til þess að ná bata. Þegar hópurinn var stofnaður einkenndist umræða gjarnan af neikvæðum þáttum frekar en jákvæðum. Því miður kemur enn fyrir að gefin er upp neikvæð staðalímynd af fólki sem glímir við geðræna erfiðleika og setningar eins og „tikkandi tímasprengjur“ sjást á síðum blaðanna. Þetta er mjög röng staðalímynd af geðsjúkum og vekur alltaf furðu mína þegar slíkt sést á prenti.

Hugarafl hefur frá upphafi barist gegn fordómum m.a. með blaðaskrifum og sjónvarpsviðtölum. Einn meðlima Hugarafls kom fram í Íslandi í dag og Kastljósi, þar sem hann útskýrði hvernig það væri að vera með geðklofa á svo aðdáunarverðan hátt að eftir var tekið. Þau jákvæðu áhrif sem Hugarafl hefur haft á málstað geðsjúkra felast m.a. í breytingu á hugarfari, það er að vera ekki alltaf að hamra á hvað samfélagið sé vont við geðsjúka, heldur horft til þess hvað geðsjúkir geti gert fyrir samfélagið.

Með framtaki Sparisjóðsins til eflingar fræðsluátaki Hugarafls í samvinnu við Hlutverkasetur er þarft skref stigið í þá átt að fyrirbyggja að ungmenni þurfi að kljást við geðheilsuvanda of lengi án þess að vita hvað sé til ráða, læri fyrr að huga að vinum sínum ef vandamál er til staðar, finni leiðir í eigin nærumhverfi og hugi að geðrækt.

Hvet þig til að gefa styrk á www.spar.is.

Höfundur er kennari.