Skip to main content
Greinar

Sögur um fjölgun sjálfsvíga ósannar

By september 10, 2011No Comments

Innlent | Morgunblaðið | 10.9.2011 | 11:55

stækkambl.is / Ernir Eyjólfsson
Sögusagnir um mikla fjölgun sjálfsvíga á Íslandi eftir efnahagshrunið eiga ekki við rök að styðjast, að sögn Högna Óskarssonar geðlæknis. Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna.

Talið er að í heiminum svipti sig einhver lífi á 40 sekúndna fresti. Mun algengara er að karlar séu þar að verki en konur, en þær gera reyndar töluvert fleiri sjálfsvígstilraunir sem enda ekki með dauða.

Staðreyndin er sú að á Íslandi taka tveir til þrír eigið líf í hverjum mánuði. Sjálfsvígum hefur samt fækkað að meðaltali hér á landi á síðustu þrjátíu árum en vert er að geta þess að tölur fyrir árið 2010 liggja enn ekki fyrir.

„Mikið er horft til þess hver áhrif efnahagshrunsins hafa orðið,“ segir Högni Óskarsson, geðlæknir og formaður fagráðs Landlæknisembættisins um forvarnir gegn þunglyndi og sjálfsvígum. „Af Norðurlöndunum hafa Íslendingar orðið langverst úti efnahagslega og að einhverju leyti félagslega. Í samfélaginu hafa undanfarið verið fantasíur í gangi um mjög mikla fjölgun sjálfsvíga en þær sögur eru sem betur fer ekki réttar. Vissulega hafa þau komið í bylgjum, til dæmis á Reykjanesi á síðastliðnum vetri en af því er ekki hægt að draga afgerandi ályktanir,“ segir Högni við Sunnudagsmoggann.

Eitt sjálfsvíg þykir að sjálfsögðu einu of mikið, því er stöðugt unnið að forvörnum á þessu sviði og Hjálparsími Rauða krossins, 1717, hefur komið mörgum til góða. Mjög margir hringja árlega þangað, bæði fólk í sjálfsvígshugleiðingum og þeir sem telja aðra í sjálfsvígshættu.

Fagráðið sem áður var nefnt var stofnað 2003 en starfsemi þess hefur verið minni síðustu þrjú ár en áður vegna fjárskorts. Dráttur hefur orðið á að tölur um tíðni sjálfsvíga fyrir árið 2010 liggi fyrir, en óyggjandi tölur fyrir það ár verða mikilvægur mælikvarði á þróunina. „Segja má að í lok árs 2009 séu áhrif kreppunnar ekki alveg komin fram, maður heldur því niðri í sér andanum og krossar fingur.“ Fjárhagserfiðleikar fólks hafi aukist og örvænting þeirra sem leita eftir hjálp sé meiri en áður. Hann hafi þó á tilfinningunni að tíðni sjálfsvíga hafi ekki aukist á milli ára.

Högni hefur unnið með öðrum sérfræðingum, bæði annars staðar á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu. Sífellt er reynt að draga lærdóm af þróun mála.

Tölur yfir sjálfsvíg karla 15 ára og eldri voru lægri að meðaltali á Íslandi árið 1980 en annars staðar á Norðurlöndunum og enn árið 2009. Sjálfsvígum fjölgaði að vísu hérlendis í tvígang, árin í kringum 1990 og aftur 2000, en Högni segir að það hafi verið innan tilviljunarmarka.

Sjálfsvíg voru næstum tvöfalt algengari í Danmörku og Finnlandi en hér heima árið 1980, ástandið var sambærilegt í Noregi og á Íslandi en meðaltalið hærra í Svíþjóð.

Sjálfsvíg hafa lengi verið mun algengari í Finnlandi en annars staðar á Norðurlöndum. Flest voru þau í byrjun tíunda áratugarins, í efnahagshruninu þar í landi, en næstu ár á eftir dró verulega úr. Í árslok 2009 voru tölur yfir sjálfsvíg í Finnlandi samt sem áður um 60% hærri en í hinum löndunum.

„Finnar eru af annarri ætt en við, sbr. tungumálið; Það er talið að þeirra ættstofn komi meira að austan, og það er merkilegt að hjá þjóðum og þjóðarbrotum sem eru erfðafræðilega skyldar þeim – til dæmis Ungverjum og hluta Slóvena – er töluvert hærri sjálfsvígstíðni en hjá öðrum nágrönnum þeirra allra.“

Þegar tölfræði yfir sjálfsvíg kvenna er skoðuð kemur í ljós að tíðni er líka lægst á Íslandi áratugina þrjá. Mun meiri sveiflur eru annars staðar; tölur að vísu sambærilegar hér og í Noregi við upphaf tímabilsins en hærri bæði í Finnlandi og Svíþjóð og miklu hærri í Danmörku. Í árslok 2009 voru tölur lítt breyttar í Finnlandi, íslenskar tölur fyrir konur voru áfram með þeim lægstu. Mjög dró úr sjálfsvígum kvenna í Danmörku á tímabilinu.

„Ef við lítum á þetta sem keppni eru Danir ótvíræðir sigurvegarar því sjálfsvígstíðnin þar hefur lækkað mjög mikið,“ segir Högni. Hann segir erfitt að benda á eitthvað sérstakt sem skýrir þessar breytingar. Hér á landi séu þunglyndislyf vissulega notuð í meiri mæli en annars staðar, en forvarnir gegn sjálfsvígum séu öflugar í Danmörku. Engar einhlítar skýringar eru á þessum góða árangri.„Það er hægt að tína margt til, en staðreyndirnar í málinu eru tölurnar.

Í tilefni alþjóðlegs dags sjálfsvígsforvarna verður haldin kyrrðarstund í Dómkirkjunni í kvöld kl. 20:00 – 20:30. Að kyrrðarstundinni stendur samstarfshópur á vegum þjóðkirkjunnar, Landlæknisembættisins, geðsviðs LSH, Nýrrar dögunar, Hugarafls, Geðhjálpar og aðstandenda.

Að lokinni athöfn í kirkjunni verður gengið niður að Tjörn þar sem kertum verður fleytt til að heiðra minningu þeirra sem fallið hafa frá fyrir eigin hendi.

Dómkirkjan

www.sjalfsvig.is

 

Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is