Skip to main content
Greinar

Skilaboð frá aumingjakynslóðinni

By maí 31, 2017No Comments

Kæru foreldrar og aðrir meðlimir eldri kynslóðarinnar,

Ég veit ekki hversu oft ég heyri að við unga fólkið í dag séum algerir aumingjar. Við nennum ekki í skólann, nennum ekki að vinna, nennum ekki að læra, nennum ekki að hreyfa okkur, erum alltaf þreytt og gerum ekkert annað en að sofa á daginn og djamma um helgar.

Ég ætla ekki að neita neinu af þessu. Á yfirborðinu lítum við nokkurn veginn svona út svo það er ekkert vitlaust að halda að við séum einfaldlega löt. En það er löngu kominn tími til að kafa undir yfirborðið og tala um það sem er raunverulega í gangi. Og málið er nokkuð einfalt.

Okkur líður illa.

Við erum þunglynd, orkulaus, með kvíða, lélega sjálfsmynd, átraskanir og höfum ekki hugmynd um það hver við erum eða hvað við viljum. Við höfum einfaldlega ekki tíma til að finna út úr því vegna þess að við eyðum 8 tímum á dag í að sitja á rassgatinu að hlusta á ættarsöguna hjá Jóni Jónssyni sem var uppi fyrir þrjúhundruð árum, og framtíð okkar ræðst af því hvort við munum hvernig uppáhalds skóflan hans var á litinn eða ekki. Við erum að þvinga okkur til að læra og muna upplýsingar sem okkur er skítsama um í meira en 8 tíma á dag í 14 ÁR! Og aðrir lengur!

En við þurfum ekki bara að mæta í skólann í 8 tíma, læra heima og stunda einhverja hreyfingu í klukkutíma á dag heldur erum við í vinnu líka. Því við þurfum jú að vinna, annars erum við aumingjar. Reyndar skiptir ekki máli hvort við vinnum ef einkunnirnar okkar eru lélegar því þá erum við letingjar. Eina leiðin til að vera ekki aumingi eða letingi er að vera með góðar einkunnir, stunda reglulega hreyfingu og vera duglegur að vinna. Það er ekkert leyndarmál að okkur finnst hundleiðinlegt í skóla. Það ætti heldur ekki að koma neinum á óvart að okkur (og flestum fullorðnum líka) finnst hundleiðinlegt að vinna. Og þar sem vinnan og skólinn taka upp nokkurn veginn allan okkar tíma þá þýðir þetta að flestum krökkum í dag finnst lífið hundleiðinlegt.

Og hvað gerist þegar þér finnst lífið hundleiðinlegt? Þú verður kvíðinn og þunglyndur því þú vaknar á hverjum morgni og veist að dagurinn verður hundleiðinlegur áður en hann byrjar. Ekki bara dagurinn heldur öll vikan líka. Og næsta vika þar á eftir. Bættu því ofan á lélega sjálfsmynd, einelti, heimilisaðstæður, átraskanir og önnur undirliggjandi vandamál, líkamleg og andleg, og þú ert kominn með hóp af einstaklingum sem líður virkilega, virkilega illa.

Það er sífellt verið að tala um vímuefnanotkun meðal ungs fólks. Við drekkum alltof mikið, reykjum alltof mikið, tökum of mikið í vörina o.sv.fr. Foreldrafélög gera allt sem þau geta til að stoppa skemmtanir þar sem áfengisneysla fylgir og forvarnarfræðsla er útum allt. Ég man sérstaklega eftir brútal forvarnarfyrirlestrum gegn munntóbaksnotkun í grunnskóla. Það breytir því þó ekki að stór hluti þeirra sem sátu þessa fyrirlestra með mér nota munntóbak í dag. Ekkert frekar en að þau hafi hætt að drekka trópí þó tannvernd hafi verið með fyrirlestur þrisvar í mánuði um sýru í ávaxtasöfum.

Það er kominn tími til að við áttum okkur á að vímuefnin sjálf eru langt frá því að vera aðalvandamálið. Vandamálið er vanlíðanin sem skapar þörf fyrir vímuefnin. Oft eru þessi vímuefni svo til skaðlaus þegar þau eru notuð einstaka sinnum í hófi. Það er misnotkun á þeim sem er hættuleg. Og misnotkun á vímuefnum er í langflestum tilfellum vegna vanlíðanar.

En við megum ekki tala um að okkur líði illa því þá erum við aumingjar. Eldri kynslóðir þurftu sko líka að ganga í skóla og ekki voru þau að kvarta! Já svo ég tali nú ekki um alla klukkutímana sem þau unnu í fiski frá 4 ára aldri. Svo getum við ekki einu sinni hunskast til að fá sæmilegar einkunnir!?

Þetta viðhorf veldur því að enginn þorir að viðurkenna að þeim líði illa því okkur finnst við ekki hafa rétt á því. Og einstaklingar, sem líða illa, hafa engan að tala við og fá engin svör frá læknum önnur en innantómar greiningar og lyf sem hafa engin áhrif, munu leita annara leiða til að líða betur. Margir nota svefn, tóbak, sígarettur eða áfengi í þessum tilgangi. Einfaldlega því það eru þær aðferðir sem eru aðgengilegastar og mest samþykktar af samfélaginu.

Mikilvægi þess að auka samskipti og skilning milli ungmenna og foreldra er margumtalað. En það að við kvörtum yfir vandamálum okkar og þið gerið lítið úr þeim eru hvorki skilningsrík né áhrifarík samskipti. Samt sem áður er þetta lang algengasta samskiptaformið milli yngri og eldri kynslóðarinnar í dag.

Ef ykkur er alvara með að draga úr vímuefnanotkun og geðsjúkdómum meðal ungs fólks legg ég til að þið farið að hlusta. Að spyrja okkur hvernig okkur líður og taka okkur alvarlega ef okkur líður illa. Ekki bíða þangað til að við erum komin með átröskun, alvarlegt þunglyndi, kvíðaröskun eða króníska líkamlega verki. Ekki bíða þangað til að við erum komin á sjö lyf og með margar mismunandi greiningar frá læknum til að taka okkur alvarlega. Næst þegar við sofum í 4 tíma yfir daginn í heila viku og mætum ekki í skólann, spyrjið okkur hvað sé að í staðinn fyrir að skamma okkur fyrir að vera letihaugar. Næst þegar við tölum um það hvað okkur líður ömurlega í skólanum, hugsið ykkur aðeins um áður en þið komið með stöðluð svör eins og að ,,engum finnist gaman í skóla en svona sé þetta bara”.

Næst þegar þið sjáið að okkur líði illa, spyrjið afhverju. Og í staðinn fyrir að gera lítið úr tilfinningum okkar, prófið að hlusta.

Ég veit að þið viljið okkur vel og að báðar kynslóðir eru að gera sitt besta. En elsku fólk, þetta er ekki spurning um leti eða aumingjaskap lengur. Þetta er orðið mun alvarlegra og það mun ekkert breytast nema við förum að opna okkur og hlusta í stað þess að gera lítið úr hvert öðru. Allt er ekki í lagi, við erum að drukkna og við þurfum ykkar stuðning.

Kveðja,

Aumingjakynslóðin

Pistill birtist upphaflega hér.