Skip to main content
Greinar

„Sjálfsvíg er ekki eigingjarn verknaður“

By janúar 30, 2017No Comments

Höfundur: Kristborg Bóel Steindórsdóttir

„Mér finnst svo mikilvægt að umræðan um andlega sjúkdóma sé opinská og hún hefur opnast á síðustu árum, sem betur fer,“ segir Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli, en faðir hennar féll fyrir eigin hendi þegar hún var aðeins sjö ára gömul. Sigríður Rún sagði sögu sína í viðtali jólablaðs Austurgluggans.

Sigríður Rún bjó á Húsavík fyrstu ár ævi sinnar en fluttist með móður sinni og systrum sínum tveimur til Reykjavíkur eftir að faðir þeirra lést. Sigríður Rún segir að börn séu lengur að fara í gegnum sorgarferlið þar sem sorgin ýfist upp aftur og aftur með auknum þroska.

„Ég man óljóst eftir þessu en hugurinn virkar þannig að hann reynir að gleyma. Það var öðruvísi talað um sjálfsvíg í þá daga og mikið tabú og fordómar tengdir því. Það er ótrúlega einkennileg sorg í kringum sjálfsvíg og aðstandendur sitja uppi með yfirþyrmandi sektarkennd og þá upplifun að einstaklingurinn velji það að fara frá þér. Eða þá sjálfsásakanir og spurningar eins og hvernig standi á því að þú hafir ekki séð að maka þínum, barni eða öðrum nákomnum hafi liðið svo illa.“

Sigríður Rún segir að þær systur hafi ekki fengið að vita hvernig faðir þeirra lést fyrr en löngu síðar. „Við fréttum það eiginlega útundan okkur og spurðum mömmu hvort það gæti verið satt. Hún var bara að gera sitt besta en viðhorfið var bara svo ólíkt, það átti að vernda börn fyrir sorg og passa að við yrðum ekki sorgmæddar. Það var í rauninni sett upp ákveðið leikrit en sem betur fer hefur þetta mikið breyst í samfélaginu. Börn hafa mikla þörf fyrir að kveðja ástvini og þau skilja miklu meira en hinir fullorðnu halda, það þarf að viðurkenna sorgina þeirra. Við áttum enga fjölskyldu á Húsavík og mamma hafði því engan stuðning þar og við fluttum aftur til Reykjavíkur í kjölfarið.“

Lífshlaupið stóru systur að kenna?

Sigríður Rún segir brosandi að lífshlaup sitt sé líklega stóru systur sinni að. „Ég vildi alltaf vera með henni og hún nennti því mismikið, druslaðist þó með mig út um allt en reyndi ítrekað að stinga mig af. Hún átti góðar vinkonur og ég vildi auðvitað vera með þeim. Einhvern tímann fór ég út á náttkjólnum og stígvélum, bara vaknaði og hljóp út til þess að ná þeim. Það var pínulítið gamalt fjárhús nálægt húsinu okkar á Húsavík og þar lékum við okkur gjarnan. Hún sagði að ég mætti vera með þeim ef ég myndi vera Jesúsbarnið, liggja í jötunni og ekki segja orð. Ég vandaði mig ótrúlega mikið og kannski er bara allt mitt lífshlaup henni að kenna, þ.e. þessi Jesúkomplex.

Umræða um andlega sjúkdóma hefur gerbreyst

Sigríður Rún segir mjög mikla og mikilvæga breytingu hafa átt sér stað í samfélaginu varðandi sjálfsvíg á þeim árum sem liðin eru frá hennar áfalli.

Sjálf hef ég unnið mikið við svona áföll og það er mikilvægt að þeir fordómar sem sjálfsvígum tengjast séu að víkja. Það velur enginn að deyja, ólíkt því sem oft hefur verið haldið fram. Sjálfsvíg er ekki eigingjarn verknaður, alls ekki. Þegar fólk er komið á þennan stað sér það enga aðra leið út. Umræðan hefur sem betur fer gerbreyst upp á síðkastið – það velur enginn að veikjast af krabbameini og það velur enginn að berjast við þunglyndi. Það hefur ótrúlega margt breyst á mjög stuttum tíma og síðastliðin fimm ár hefur orðið alger bylting í því hvernig rætt er um geðsjúkdóma.“

Sigríður Rún segir áfallið án efa hafa mótað þá leið sem hún fór. „Án nokkurs vafa hefur það haft áhrif á það við hvað ég starfa í dag. Ég fór reyndar í guðfræði af því ég hafði svo mikinn áhuga á faginu, mig langaði bara að vera fræðimaður og læra um það sem hefur haft svo mikil áhrif á menninguna okkar, bókmenntir, tungutakið, hugsun og bara samfélagið okkar almennt. Ég ætlaði mér held ég aldrei að verða prestur.“

Grein birtist upphaflega á austurfrettir.is