Skip to main content
Fréttir

Segir Á allra vörum auka á fordóma í garð geðsjúkdóma

By september 19, 2013No Comments

 

Vísir Innlent 19. september 2013 13:51

„Það sem að sló mig mest voru svarthvítu auglýsingarnar – myndir af fallegu fólki þar sem það er brotið í framan. Myndirnar sýna algjört vonleysi og mikla sorg,“ segir Auður. MYND/365

„Ásýnd átaksins Á allra vörum er hvorki til þess fallið að efla þekkingu á geðsjúkdómum eða gefa fólki von um bata,“ segir Auður Axelsdóttir sem hefur sent ábendingu til átaksins og til RÚV vegna umfjöllunar þeirra um geðsjúkdóma.

Auður er forstöðumaður geðheilsumiðstöðvar innan heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún er líka einn af stofnendum Hugarafls, samtaka sem beita sér gegn fordómum í garð geðraskana og sjá um fræðslu fyrir fólk sem er með slíkar raskanir.

Hún segir að átakið Á allra vörum, eins og það er sett upp, ýti frekar undir fordóma og sé jafnvel til þess fallið taka von um bata frá fólki.

„Það sem að sló mig mest voru svarthvítu auglýsingarnar – myndir af fallegu fólki þar sem það er brotið í framan. Myndirnar sýna algjört vonleysi og mikla sorg,“ segir Auður.

Auður segir að þeir sem hafi barist gegn fordómum í garð geðraskana líði eins og farið sé nokkur ár aftur í tímann með nýju auglýsingunum.

Auður tekur þó fram að hún sé mjög ánægð með að verið sé að safna fyrir geðgjörgæsludeild þar sem aðbúnaður fyrir geðsjúka á Landspítalanum hafi ekki verið nægilega góður.

„Það er full þörf á að bæta aðstöðuna á Landspítalanum og þetta er skref í þá átt og því fagna ég,“ segir Auður.

Hún segir gríðarlegan sársauka fylgja því að fást við geðsjúkdóma. Það sé alltaf mikilvægt að fólk hafi von og það sé hættulegt að taka vonina frá því.

Mikilvægt að fólk viti að það er von
„Fókusinn í þessari herferð hefði getað verið allt annar, hann hefði miklu frekar átt að vera í þá átt að efla þekkingu um batalíkur. Það hefði frekar átt að ræða það hversu miklar líkur eru á að fólk nái bata þó það sé komið í öngstræti og því líði hörmulega á stundum,“ segir hún.

Auður hefur starfað með fólki með geðraskanir  í um 20 ár og leggur á það áherslu að langstærsti hluti fólksins fari aftur út í lífið í fullum bata. Það er eitthvað sem hún og þeir sem starfa með veiku fólki sjái á hverjum degi.

Einn af hverjum þremur til fjórum ganga í gegnum geðræna erfiðleika einhvern tímann á ævinni. Hópurinn sé mjög breiður og flóran mismunandi og sjúkdómarnir miserfiðir.

„Því miður getur þetta átak gefið fólki ranga mynd af geðsjúkdómum.  Ég var voða kát þegar ég sá sjónvarpsauglýsinguna fyrst þar sem hún var litrík og falleg. En þegar ég hafði horft á auglýsinguna til enda, runnu á mig tvær grímur. Mamman er sýnd veik og það líður heilt ár og ekkert gerist í veikindum mömmunnar, hún var enn jafn veik. Skilaboðin eru svolítið að þetta sé alveg vonlaust.“

Hún segir að fólk þurfi alltaf að hafa von og vonin um bata sé mikil fyrir  fólki með geðraskanir. Fjöldi rannsóknir sýni að fólk geti náð góðum bata. Ef fólk trúi því ekki og viti ekki að því getur batnað, verður allt bataferlið mun erfiðara.

„Fólk sem eygir von um bata fer allt öðruvísi inn í bataferlið. Það leggur öðruvísi af stað. Það tekur öðruvísi ábyrgð á veikindunum.  Það er alvarlegt þegar fólk hefur ekki von, vonleysið er mjög hættulegt,“ segir Auður.