Skip to main content
Greinar

Pistill nr. 3 frá Einari Björnssyni Hugarafli v. “Mad in America´s international film festival”

By nóvember 11, 2014No Comments

3. Hluti
Ef svo viðteknar hugmyndir um orsakir geðraskana eru ekki réttar er þá ekki það sem við erum almennt að gera til að takast á við þær rangt? Þetta er eiginlega líka það sem ég hef verið að velta fyrir mér síðustu vikurnar. Sá líka myndir um að kenningin um efnafræðilegt ójafnvægi í heilanum sem orsök þessara vandamála sé á engan hátt vísindalega sönnuð. Að sú hugmyndafræði sem geðlækningar hafa gengið útfrá síðustu áratugi sé ekki studd neinum vísindalegum rökum. Að lyfin sem okkur eru gefin til að lagfæra þetta ójafnvægi séu ekki að gera neitt gagn og frekar til óþurftar en hjálpar. Sumar rannsóknir virðast meira að segja sýna fram á að lyfjalaus meðferð skili betri árangri en lyfjameðferð.
Í mínu tilfelli var búið að segja mér að ég þyrfti að vera á lyfjum alla ævi og það ekki bara einu lyfi heldur mörgum. Ég var á lyfjum við geðhvarfasýki (lithium), þunglyndislyfjum, flogaveikilyfjum til að auka virkni þunglyndislyfjanna, hjartalyfjum og meltingarlyfjum vegna aukaverkanna og svefnlyfjum vegna svefntruflana út af öllum hinum lyfjunum. Þetta var koteill sem ég átti að taka til lífstíðar samkvæmt þeim læknum sem höfðu mig til meðferðar. Engin hafði svo fyrir því að útskýra fyrir mér hvernig lyfin virkuðu eða af hverju, engin gerði mér heldur grein fyrir því að ef ég ætlaði að hætta á lyfjunum þá myndi það hafa í för með sér mjög erfið fráhvörf sem sum hver stóðu yfir í mörg ár.
Ég hallast að því núna að nálgun samfélagsins á geðraskanir sé í meginatriðum röng. Komin sé tími til að spyrja frekar að því hvað hafi komið fyrir viðkomandi frekar en að spyrja hvað sé að honum. Skoðum lífssögu einstaklingsins áður en við setjum hann á lyf. Nú má fólk ekki misskilja mig þegar ég tala um lyfjanotkun, í sumum tilfellum getur alveg verið að rétt sé að gefa lyf í einhvern tíma til að ná tökum á einhverju ákveðnu ástandi en ég held að ekki sé rétt að byggja meðferð fólks til langframa á lyfjum. Við hljótum að geta gert það á einhvern annann hátt. Við höfum aðrar nálganir í dag en eingöngu lyfjagjöf og eigum að efla þær enn frekar. Mig langar líka til að biðja fólk um að velta því fyrir sér hvort það væri til í að nota lyf við öðrum sjúkdómum ef ekki væri búið að sýna fram á gagnsemi þeirra með óyggjandi hætti. Ég held nefnilega að við séum alltof oft að nota lyf við geðröskunum án þess að fyrir liggi sönnun á því hvort þau eru að virka!! Fyrst og fremst þurfum við að efla umræðu um þessa hluti, fá fólk til að skiptast á skoðunum án fordóma og með opnum huga. Fá geðlækna, sálfræðinga, heilbrigðisstarfsfólk, notendur geðheilbrigðiskerfisins og aðstandendur til að ræða þetta án fyrirframgefinna niðurstaðna. Skoða hvað hefur verið að virka annarsstaðar í heiminum og tileinka okkur þau úrræði sem gefist hafa vel.

http://www.psychologytoday.com/blog/rethinking-psychology/201408/12-keys-mental-health-revolution