Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Pistill á alþjóðadegi gegn þunglyndi

By April 7, 2017No Comments

Eftirfarandi pistill frá Hugaraflsfélaga var skrifaður í tengslum við grein heilbrigðisráðherra á Visir.is og má pistilinn jafnframt finna í ummælum sem fylgja þeirri ágætu grein.

Kristinn og RokkóÉg verð að viðurkenna að þegar þessar línur eru ritaðar, hef ég ekki mikið álit á þeim heilbrigðisráðherra sem þarna skrifar eftir stórfelldan niðurskurð hans til samtakanna Hugarafls. Vildi seint trúa því að rokkarinn í brún-gulu jakkafötunum væri bara einfaldur kerfiskarl sem tæki þátt í að drepa niður starf öflugra grasrótarsamtaka sem passa að mati einhverra ekki inn í kerfið. Ég vona að hann og félagsmálaráðherra ætli í alvörunni að eiga samtal við samtökin á næstu dögum. Það er ekki nóg að skrifa bara greinar herra Proppe.

Eins og kom fram í grein ráðherrans er alþjóða heilbrigðisdagurinn 7. apríl að þessu sinni tileinkaður þunglyndi og fólk hvatt til að tala saman. Ég var sjálfur greindur með þunglyndi fyrir um 12 árum síðan og einn af þeim sem kerfið týndi og “læknaði” með að gefa allt of mikið af lyfjum sem lét mann í raun eingöngu sætta sig við algjörlega óviðunandi aðstæður. Ég fór úr því að vera starfandi  kennari og íþróttafræðingur í það að liggja inn í Hátúni 10 með enga löngun til þess að lifa. Á þeim lyfjakúr sem læknirinn hafði úthlutað mér ásamt mínum eigin fordómum og annarra í garð þunglyndisins, auk líkamlegra veikinda var ég bara sáttur við þá niðurstöðu. Botninum náði ég í Hátúninu eftir að hafa tvisvar tilkynnt niður til húsvarða megna rotnunarlykt sem kom úr þarnæstu íbúð við mína. Viku síðar var sú íbúð opnuð og komið var að manninum látnum sem þar hafði búið. Flestum virtist vera nokkuð sama. En þessi botn sem einkenndist fyrst og fremst af því að ekki var hægt að dveljast á minni íbúð vegna ólyktar varð til þess að ég lagðist inn á geðdeild í annað sinn í viku þar sem lyfjaskammturinn var aukinn og læknirinn rétti mér bók um þunglyndi til að lesa. Ekki var nú boðið upp á samtalsmeðferð eða sálfræðing á þeim staðnum.

Eftir að ég kynntist samtökunum Hugarafli fann ég vonina og fékk aftur trúna á fólk. Ég hafði áður verið hjá öðrum félagasamtökum sem því miður voru orðin að geymslustað, ekki mátti ræða vandamál eða líðan og hvað þá hafa skoðun á hlutum þegar kom að ákvarðanatöku um starfsemina. Í Hugarafli mátti hins vegar hafa rödd og í kjölfarið kom trúin á fagfólkið og ekki síður á notendum sem styðja við bakið á hver öðrum í blíðu og stríðu vegna þess að þeir skilja oft aðstæðurnar betur heldur en margur annar. Í Hugarafli hef ég líka sjálfur fengið tækifæri til að nýta mína þekkingu og reynslu sem íþróttafræðingur og kennari til að gefa af mér, auk þess sem ég hef verið í ritstjórn og unnið við vefsíðu samtakanna. Ég hef jafnframt gefið af mér til annarra verkefna og má þar sem dæmi nefna Alþjóða geðheilbrigðisdaginn 10. október og Pieta Ísland sem vinna að því að bæta úr miklu úrræðaleysi varðandi sjálfvíg og sjálfsskaða með samtalsmeðferð. Nýverið hefur undirritaður stutt Hugarafl og Þorstein Kristján Jóhannsson við að koma af stað nýju félagi sem mun fræða og veita stuðning fyrir fólk sem ræður ekki við og ofnotar tölvur og snjallsíma.

Öllu þessu og fjölmörgu öðru hefur “auminginn” sem fyrir nokkrum árum bjó í Hátúni 10 áorkað með gjaldfrjálsum stuðningi og aðstoð frá góðu fólki í Hugarafli og fagfólki Geðheilsu eftirfylgdar í Borgartúni 22. Auk þess hef ég nýtt mér flest þau aðkeyptu námskeið sem Hugarafl hefur boðið upp á þó oft á tíðum hafi ég þurft að greiða dágóða fjárhæð fyrir þau vegna fjársveltis samtakanna. Þar má nefna HAM námskeið haldið af geðlækni, ECPR námskeið og 10 vikna námskeið í Núvitund sem öll hafa nýst vel í minni vinnu.

Í fyrsta sinn á þessum 12 árum hef ég líka fengið tækifæri til að ræða opinskátt um lyfjamálin og unnið markvisst að því í samráði við minn geðlækni að minnka við mig lyf og fækka þeim tegundum sem áður voru taldar bráðnauðsynlegar til þess að ég tórði í Hátúni 10. Ég dreg það ekki í efa að þunglyndislyf eru nauðsynleg þegar fólk býr við slíkar aðstæður enda langt frá því að vera boðlegar á Íslandi. Samt er boðið upp á slíkar “lausnir” og þunglyndislyfin gefin til að fólk sætti sig við þær. Kannski hefur slíkt eitthvað með það að gera að Íslendingar eiga nú vafasamt met í notkun þunglyndislyfja í stað þess að vinna að raunverulegum samfélagslegum lausnum í einu ríkasta landi heims. Kannski við ættum að tala saman um það?

Í dag er ég kominn á þann stað að ég er að útskrifast frá geðlækni mínum á Landsspítala sem telur mig vera kominn í gott ferli til að vinna í áframhaldinu m.a. hjá VIRK stafsendurhæfingu. Þessa dagana er ég að leita að nýjum geðlækni sem mun styðja mig áfram í að minnka við mig lyf og veita nauðsynlega þjónustu til að tryggja áframhaldandi bataferli. Þangað til fæ ég góða aðstoð frá bæði notendum og fagfólki í Borgartúni 22 sem eru mér ómetanlegur stuðningur þegar kemur að biðtíma milli kerfa eins og framundan er.

Í Hugarafli er svo sannarlega talað saman. Og það samtal skiptir okkur svo miklu máli. En því miður er slíkt samtal ekki metið mikils af núverandi ráðamönnum þjóðarinnar sem skáru fjárveitingar til samtakanna niður um 80% nú nýverið. Sá niðurskurður er ekki bara móðgun við það faglega starf sem unnið er í Hugarafli, heldur líka móðgun við það mikla og óeigingjarna sjálfboðaliðastarf til stuðnings þeim sem minnst mega sín. Slíkt sjálfboðaliðastarf, unnið af notendum sem margir hverjir hafa fulla menntun til þess að veita slíka aðstoð er ómetanlegt meðan fólk er að feta sig til baka eftir veikindi. Það er dapurlegt að verða vitni að því að þjónusta slíkra grasrótarsamtaka sé ekki metin að verðleikum í íslensku samfélagi. Ég vil því hvetja ráðamenn að eiga það samtal sem lofað hefur verið við Hugarafl og sjái að sér í þeirri einföldu kerfiskarlatrú sem gerir samtökunum nær vonlaust að starfa við óbreyttar aðstæður eins og staðan er í dag.

Kristinn Heiðar Fjölnisson, stoltur Hugaraflsmaður