Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Öll sem eitt í tilefni af alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga

By september 7, 2016No Comments

Með ferðatöskur heimaFöstudaginn 9. september mun Auður Axelsdóttir, Hugaraflskona og stjórnarmaður í PIETA Ísland kynna stofnun og rekstur ráðgjafaþjónustu undir merkjum Pieta House á Íslandi.  Þjónustan er ætluð fólki í sjálfsvígshugleiðingum og fólki með sjálfsskaðahegðun. Einnig verður boðið upp á þjónustu fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi. Þá er hugmyndin að gefa út vandað kennsluefni sem meðal annars verður sýnt í skólum. Markmiðið er að opna umræðuna um sjálfsvíg, ná til fólks í sjálfsvígshugleiðingum og vinna með því auk þess að hvetja til aukinnar þekkingar og vitundar um orsakir og afleiðingar sjálfsvíga. Stuðlað verður að þeim bjargráðum sem eru möguleg sem forvörn en einnig lögð áhersla á stuðning og eftirfylgd ef sjálfsvíg hefur orðið.

Kynningin á PIETA Ísland er hluti af áhugaverðri dagskrá sem samráðshópur um Alþjóðlegan forvarnardag sjálfsvíga hefur sett saman og verður dagskráin haldin í húsakynnum Geðhjálpar, Borgartúni 30.  Hugarafl hvetur fólk til þess að mæta og sýna samstöðu í að bæta þjónustu fyrir þá sem eru að glíma við sjálfskaða og sjálfsvígshugsanir á Íslandi.

Dagskrá í tilefni af alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga í
Geðhjálp, Borgartúni 30, 9. september 2016 kl. 15.00 – 16.45.

15.00 – 15.05 Inngangur.
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, fundarstjóri og framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

15:05 – 15.15 Útmeð‘a – frumsýning gagnvirks forvarnarmyndbands
Hjálmar Karlsson, verkefnisstjóri Hjálparsíma Rauða krossins, segir frá öðrum áfanga Útmeð‘a forvarnarverkefnis Geðhjálpar og Hjálparsímans og frumsýnir gagnvirkt forvarnarmyndband um sjálfsskaða.

15:15 – 15.30 Með farangurinn á bakinu
Tómas Kristjánsson, sálfræðingur, fjallar um forvarnir gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum og kynnir nýjan forvarnarvef Útmeð‘a.

15.30 – 15.40 Tónlist
Jón Jónsson, tónlistarmaður, tekur lagið.

15.40 – 16.00 Þegar neyðin er mest
Fanný Hrund Þorsteinsdóttir, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir og Ragna Kristmundsdóttir, geðhjúkrunarfræðingar, fjalla um bráðaþjónustu geðsviðs LSH og Barna- og unglingageðdeildar LSH (BUGL).

16.00 – 16.20 Pieta á Íslandi
Auður Axelsdóttir, Hugarafli, kynnir vinnu við stofnun og rekstur ráðgjafaþjónustu vegna sjálfsskaða og sjálfsvígshugsana undir merkjum Pieta House á Íslandi.

16.20 – 16.45 Kaffi – spjall.

Viðburðurinn er öllum opinn og ókeypis.
Fjölmiðlar eru sérstaklega hvattir til að kynna sér dagskrána.

Samráðshópur um Alþjóðlegan forvarnardag sjálfsvíga:
Embætti Landlæknis, Geðhjálp, Hugarafl, Ný dögun, Landspítalinn, Minningarsjóður Orra Ómarssonar, Lifa, Rauði Kross Íslands og Þjóðkirkjan.