Innlent | Morgunblaðið | 11.9.2014 | 20:15
Minnist góðu stundanna með bróður sínum
Árlega deyja mun fleiri í sjálfsvígum hér á landi en í umferðinni. Á bilinu 33 til 37 falla að meðaltali fyrir eigin hendi á hverju ári sem er ótrúlega há tala sem gott væri að sjá lækka. Í gær var Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna og voru kyrrðarstundir haldnar víða. Ungur knattspyrnumaður, Kristinn Freyr Sigurðsson, missti bróður sinn í sjálfsvígi átján ára gamall og ætlar að segja sögu sína.
Stundum virðist vera óskráð regla að ræða ekki um sjálfsvíg. Eins og það sé eitthvað sem beri að hafa hljótt um og ekki nefna upphátt. Kristinn Freyr Sigurðsson er í dag tuttugu og tveggja ára og er sannfærður um að fátt sé verra en þögnin þegar einhver nákominn hefur tekið eigið líf. Bróðir hans, Guðmundur Þór Sigurðsson, framdi sjálfsvíg 6. september 2010, tuttugu og þriggja ára gamall og þá missti Kristinn Freyr ekki bara bróður sinn heldur einn af sínum bestu vinum.
Ekki reiður út í hann
Kristinn Freyr er yngstur í fjögurra bræðra hópi. Guðmundur var næstyngstur og þeir tveir voru nánir. Elstu bræðurnir tveir voru fluttir að heiman en þeir yngri bjuggu í foreldrahúsum. Það var mikið reiðarslag fyrir alla fjölskylduna þegar Guðmundur dó og ýmsar tilfinningar gerðu vart við sig. „Ég varð ekki reiður, því hann var búinn að segja við mig að hann vildi deyja. Ég hafði vitað það í smá tíma og hann hafði reynt sjálfsvíg áður en honum tókst það,“ segir Kristinn Freyr. „Fyrst var ég náttúrlega bara gríðarlega sorgmæddur og svo kom eftirsjá yfir að hafa ekki getað gert meira en ég gerði,“ segir hann. Það er nokkuð algengt að þeir sem horfa á eftir ástvini í dauðann með þessum hætti ásaki sjálfa sig fyrst í stað og velti fyrir sér hvort eða hvernig þeir hefðu getað komið í veg fyrir sjálfsvígið.
Það sem hefur hjálpað Kristni Frey mikið við úrvinnslu tilfinninganna og í sorgarferlinu er að hafa alltaf náð að tala opinskátt um hvað gerðist. „Ég myndi ekki mæla með því að fólk reyndi að fela sannleikann því það þarf að tala um þetta,“ segir hann.
Umræðu er þörf
Í gær, 10. september, var Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna en dagurinn er haldinn til að heiðra minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Sérstakar kyrrðarstundir voru haldnar í Dómkirkjunni í Reykjavík, Akureyrarkirkju og Egilsstaðakirkju. Kristinn Freyr sagði sögu sína í Dómkirkjunni. Það er ekki auðvelt að standa fyrir framan fjölda fólks og ræða tilfinningarnar sem bærast innra með manni og rifja upp erfiða atburði. En það er samt nauðsynlegt þó að erfitt sé og því deildi Kristinn Freyr reynslunni með viðstöddum. „Það er nauðsynlegt að tala um sjálfsvíg því að sjálfsvígstíðni á Íslandi er gríðarlega há. Að meðaltali fremja þrjátíu og þrír til þrjátíu og sjö Íslendingar sjálfsvíg á hverju ári en samt virðist umræðan ekki vera meiri en hún er. Það finnst mér mjög skrýtið,“ segir hann.
Mikill styrkur í foreldrunum
Hópur fólks sem vill efla umræðuna um þessi mál hefur nú sameinast og mun á næstunni vera með fræðslu og stuðning fyrir þá sem misst hafa ástvini vegna sjálfsvíga. Hópurinn heldur úti vefsíðunni www.sjalfsvig.is. Foreldrar Kristins Freys hafa verið ötulir í starfi hópsins sem að síðunni stendur og hafa hjálpað sonum sínum og öðrum við að vinna úr sorginni. „Ég hef farið til sálfræðings og talað við prest en einhvern veginn hefur mér alltaf fundist best að tala við foreldra mína. Þau hafa hjálpað mér mikið,“ segir Kristinn Freyr.
Honum er mikið í mun að opna umræðuna til að hægt sé að lækka sjálfsvígstíðnina hér á landi. Við þá sem eru í svipuðum sporum og hann var sjálfur fyrir fjórum árum þegar hann missti bróður sinn vill hann segja að það skipti sköpum að leita sér hjálpar og tala við einhvern. „Því það er betra að tala um þetta og mikilvægt að tala þá við einhvern sem maður treystir algjörlega og helst einhvern sem veit hvernig þetta er. Það var þess vegna sem mér fannst best að tala við mömmu og pabba því þau vissu nákvæmlega hvernig mér leið,“ segir hann og bætir í lokin við því sem að hans mati skiptir einna mestu máli: „Það sem hefur hjálpað mér gríðarlega mikið er að hugsa um góðu stundirnar. Þótt oft komi upp í hugann eitthvað neikvætt eða eitthvað sem ég hefði getað gert betur þá ætti maður alltaf að reyna að hugsa um það góða sem maður átti með manneskjunni. Ekki hugsa um „hvað ef“ og „ef ég hefði“ þó að það sé hægara sagt en gert verður maður að reyna eftir bestu getu að hafa það þannig,“ segir Kristinn Freyr Sigurðsson að lokum.
Malín Brand
malin@mbl.is
Morgunblaðið