Í þessum pistli ætla ég að leitast við að svara algengum misskilningi um meðvirkni, þ.e.a.s. að meðvirkni sé góðmennska, það sé til jákvæð meðvirkni og neikvæð meðvirkni. Svo er ekki. Meðvirkni er aldrei góð, ef hún væri það væri það ekki meðvirkni.
Reyndar er meðvirkni oft góð fyrir aðra en þann sem framkvæmir út frá meðvirkni. T.d. fyrir vinnuveitendur sem eru með starfsmann sem segir aldrei nei, – en einn daginn er mjög líklegt að djúsið verði kreist úr starfsmanninum og hann búinn á því. – Þá er „líftími“ starfsmannsins ekki langur.
Að sama skapi getur þetta virkað vel fyrir félagsskapinn, að hafa meðvirkan einstakling sem réttir upp hendi í hvert skipti sem eitthvað á að gera og segir „ég skal“ ..
En af hverju er þetta ekki gott?
Leitum að orsökum.
Orsökum fyrir því að einhver segir alltaf „já“ og „ég skal.“ Er það vegna þess að hann er bara svona góður eða er ástæðan önnur?
Anna var svona kona sem sagði aldrei nei, – nema kannski þegar henni buðust stór tækifæri eða eitthvað spennandi, þá þorði hún ekki að taka skrefið. Því henni fannst hún hvorki verðug né eiga skilið. En þegar hún var beðin um að taka eitthvað að sér sagði hún sko stórt JÁ, og þegar spurt var út í hópinn hvort einhver væri til í að taka hluti að sér sagði hún hátt og snjallt „ÉG SKAL“ .. hópurinn í kring leit þakklátum augum á Önnu, – blessunin hún Anna, alltaf tilbúin þessi elska.
Og allir elskuðu Önnu, sem var alltaf boðin og búin.
En var þetta í rauninni það sem Anna vildi? – Var ekki nóg að gera hjá Önnu? – Átti hún ekki börn, heimili, mann, atvinnu .. gat hún bætt þessu öllu á sig.
Anna var eitt kvöldið að keyra heim af kvenfélagsfundi þar sem hún hafði lagt til þessar dýrindis brauðtertur og fengið þvílíkt hrós fyrir. Hún hafði haldið uppi fjörinu og verið hvers manns hugljúfi.
Gott kvöld, en Anna var búin á því. Á morgun biðu hennar enn fleiri verkefni og hún fann að hún var í raun að drukkna. Hún hugsaði sem snöggvast hvort hún ætti ekki bara að keyra útaf – og lenda ofan í skurðinum og þá myndi hún kannski slasast mátulega mikið til að lenda inni á spítala og geta hvílt sig. (Þetta er raunveruleg frásögn, þó nafni sé breytt).
Þetta er ekki ég, þó þetta gæti alveg hafa verið ég 😉
Af hverju gengur Anna svona fram af sér?
Anna ólst ekki upp við miklar tilfinningar frá foreldrum. Pabbi var hlutlaus og mamma frekar köld. Hún fékk ekki faðmlag og fékk ekki að heyra orð eins og „Ég elska þig“ – Hún var ekki hvött til að vera hún sjálf.
Hún fékk viðurkenningu þegar hún kom heim með einkunnirnar úr skólanum, þegar hún tók til í herberginu sínu, þegar hún sýndi dugnað.
Hún fór að læra að hún þyrfti að GERA eitthvað til að vera metin.
Hún fór að læra að hún sjálf væri ekki nógu verðmæt í sjálfri sér.
Hún þyrfti að sanna sig til að fá viðurkenningu frá umhverfinu.
Það var því þannig að forsendur fyrir góðsemi Önnu og velgjörðum voru rangar. Þær voru til þess að fá viðurkenning og hrós, og til þess að henni finndist hún einhvers virði. Ef hún s.s. var ekki að gera eitthvað fyrir aðra upplifði hún sig einskis virði.
Anna var líka meistari í að ráðleggja öðrum og mátti ekkert aumt sjá. Hún spurði ekkert aðra hvort þeir þyrftu ráðin, hún vissi oft betur hvað þeim var fyrir bestu, betur en þeir sjálfir, svo hún lét þá vita, allt undir formerkjum góðmennsku.
Anna skildi ekkert í vanþakklæti heimsins. Það var iðulega að hún rembdist eins og rjúpan við staurinn og fékk ekki eitt „svei þér“ – Hún hafði samband við skólann fyrir soninn, passaði upp á að stelpan tæki með íþróttadótið í skólann, passaði upp á afmælisdaga fyrir manninn og sá um að redda öllu fyrir saumaklúbbinn.
„Jeminn hvað fólk var farið að ganga á lagið“ hugsaði hún, – „ég er bara eins og litla gula hænan og þarf að gera allt! ..“
Munurinn á Önnu og litlu gulu hænunni var þó mjög stór.
Litla gula hænan bauð hinum að taka þátt, að hjálpa sér við að baka brauð. Anna bað EKKI um hjálp, henni fannst að hinir ættu að „fatta“ að þeir ættu að hjálpa henni. Ef þeir gerðu það ekki, voru þeir bara lélegur pappír, – en að sjálfsögðu pirraðist hún út í þá.
Litla gula hænan borðaði brauðið sjálf, en Anna deildi brauðinu þó hún hefði bakað það sjálf og væri pirruð að hún fengi enga hjálp.
Munurinn á Önnu og Litlu gulu hænunni var að önnur var meðvirk en hin ekki.
Dýrin sem ekki hjálpuðu litlu gulu hænunni, lærðu það að ef þau hjálpuðu ekki við að baka brauðið fengju þau ekkert brauð. – Það hafði afleiðingar.
Fólkið í kringum Önnu lærði það að þó það hjálpaði ekki til fékk það samt brauð. – Engar afleiðingar.
Afleiðingarnar fyrir Önnu sjálfa voru þær að í næsta skiptið sem hún ætlaði að baka brauð, gerðist það sama, – því að fólkið vissi að það fengi brauð hvort sem er.
Litla gula hænan hafði aftur á móti kennt dýrunum lexíu um orsök og afleiðingar.
Það er ekki góðmennska að ala á leti annarra, að taka af þeim þroska, að taka af þeim sjálfsákvörðunarvald, að taka af þeim ábyrgð.
Það getur í sumum tilfellum verið dulbúin þörf, til að fá hrós, viðurkenningu.
Hér er ég ekki að segja að allir eigi að hætta að gera allt fyrir alla – og langt í frá.
Við verðum alltaf að gera það sem við gerum á RÉTTUM forsendum.
Fólk hefur gift sig á röngum forsendum. Þegar Anna fékk bónorð þá gat hún ekki hugsað sér að særa manninn, hann var jú svo sem allt í lagi, svo hún sagði já, gegn betri vitund.
Það var ekki góðmennska heldur meðvirkni.
Hvað getur Anna gert? – Getur hún sjálf farið að treysta því að fólk haldi áfram að elska hana þó hún geri ekki allt það sem hún áður gerði fyrir það? – Þó að hún sé ekki prímus mótór í kvenfélaginu? – Þó hún taki ekki barnabörnin þrisvar í viku – elska börnin hennar hana samt? –
Getur hún stundum sagt Nei og samt verið elskuð?
Anna þarf að byrja á að virða sjálfa sig sem manneskju og elska sjálfa sig án skilyrða. – Án þess að þurfa að sanna sig með menntun, með stöðu eiginmanns, án þess að börnin standi sig vel í skóla, án alls hins ytra. Að vera Anna á að vera NÓG. – Anna er elsku verð. –
Þegar Anna er byrjuð að elska sig, virða sig og tíma sinn, og treysta sér til að segja já þegar hana virkilega langar að gera eitthvað, ekki bara til að geðjast eða þóknast, bara til að gera það vegna þess að hún hefur gaman af því, hún hefur tíma og hana langar einlæglega – þá er hún farin að starfa af fullri góðmennsku. – Af einlægni. – Þegar hún er farin að setja upp stopp merkið og spyrja sig: „Langar mig að gera þetta?“ – og svara svo eftir biðtíma „Já“ eða „Nei“ – og svarinu fylgir ekki gremja.
Ef að við segjum já, en meinum nei, – þá sitjum við nefnilega oft uppi með gremjuna, og ekki bara við, heldur allir okkar nánustu sem þurfa að umgangast okkur. –
Ég veit um dæmi þess að ömmur hafi tekið að sér að passa barnabörnin í næstum þeim eina tilgangi að láta vinkonur sínar vita hvað þær væru góðar ömmur, að sanna það fyrir heiminum. – Kannski voru þær þreyttar og úrillar og hreinlega í engu skapi til að passa börnin, og börnin fundu það.
Það er ekki góðmennska það er meðvirkni.
Að biskup „gleymi“ bréfi ofan í skúffu, til að hlífa fjölskyldu þeirrar sem skrifaði bréfið og vildi segja sögu sína. Það er ekki góðmennska það er meðvirkni.
Meðvirkni okkar og „góðmennska“ getur nefnilega bitnað á öðrum og þeim sem síst skyldi.
Við þurfum að veita því athygli af hverju við gerum hlutina.
Eiginmaður Önnu, hann Teddi var ánægður með Önnu sína, enda hin þægilegasta eiginkona. En Teddi fann að eitthvað vantaði, í vinnunni var þessi frísklega kona sem veitti honum athygli, hafði blikkað hann og tekið eftir hvað hann var flottur, en Anna hafði ekki haft orð á því í mörg ár, hvað þá veitt honum almennilega athygli í rúminu! -Hann fór þvi að halda fram hjá Önnu, þó að honum þætti ofurvænt um hana.
– Hann vildi ekki sjá Önnu særða og reyndi því í lengstu lög að segja henni ekki frá framhjáhaldinu og ætlaði sér það aldrei. Það sem Anna vissi ekki myndi nú ekki særa hana. – Anna komst að framhjáhaldinu þegar Teddi hafði verið kærulaus og skilið Facebook eftir opna. – Anna var særð, en Teddi hélt dauðahaldi í það að minnka sársauka Önnu og sagði allt byggt á misskilningi.
Eruð þið farin að fatta þessa meintu góðmennsku eiginmannsins?
Teddi þurfti tenginguna við Önnu og allt sem hún veitti honum, hann vildi ekki missa hana. Hann ætlaði bara að taka hliðarspor, ekki neitt meira.
Ástæðan fyrir því að Teddi sagði Önnu ekki að hann væri óánægður í sambandinu var hræðsla við að missa Önnu, – missa tengingu sem hann þurfti á að halda. Ástæðan var líka sú að hann vildi ekki þurfa að upplifa að sjá konu sína særða. Það hefði hann reyndar átt að hugsa um fyrr.
En það að segja ekki Önnu var ekki góðmennska heldur meðvirkni.
Sá sem lifir af heilu hjarta, af heilindum hann lifir ekki í lygi. Hann þorir að tjá tilfinningar sínar, þorir að segja nei á sínum forsendum og já á sínum forsendum. Þorir að hafa skoðanir. Stendur með sjálfum sér og er sinn besti vinur eða vinkona.
Við þurfum að sjá meðvirkni okkar til að breytast. – Viðurkenna hana og ekki ásaka okkur. – Dómharka í eigin garð er ekki góðmennska.
Meðvirkni verður til í æsku og þróast í æsku. Það eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Óeðlilegar aðstæður eru t.d. þegar um alkóhólisma er að ræða, langveikt barn á heimili – nú eða bara meðvirkir foreldrar sem fyrirmynd.
Við erum öll særð börn særðra barna og við könnumst e.t.v. flest við þessi ofangreindu atriði. – Það er mikilvægt að muna að hinn meðvirki á oft erfitt með meðalveginn, en markmiðið er að komast þangað.
Viðbrögð okkar í dag eru því oft eins og viðbrögð barns sem hefur upplifað sársauka, höfnun, verið yfirgefið, ekki fengið athygli, viðurkenningu fyrir bara að vera.
Við, sem fullorðnir einstaklingar þurfum að fara til baka, skoða aðstæður barnsins og frelsa það úr þeim. – Við gerum það sem fullorðin en ekki sem börn.
Það fyrsta er að sjá, viðurkenna og svo laga.
Það er sönn góðmennska, gagnvart sjálfum okkur og öðrum. – Hjálpum á réttum forsendum, leyfum fólki að biðja um hjálp – til að taka ekki af því þroskann eða ábyrgðina. – Öll þurfum við að fá að reyna okkur, læra um orsakir og afleiðingar.
Að lokum, upphaflega var orðið meðvirkni „Co-dependence“ notað um aðstandendur alkóhólista. Í seinni tíð höfum við áttað okkur á að flestir eru meðvirkir, en mismunandi mikið.
Við höfum öll þörf fyrir ást, tengingu við aðra og að tilheyra öðrum. – Það er því hugrekki að tjá sig um veikleika sína, þörf fyrir að vera elskuð o.s.frv. – því að um leið og við gerum það, erum við líka farin að veita okkur sjálfum athygli og taka áhættuna á að vera dæmd af samfélaginu, sem það gerir vissulega í mörgum tilfellum.
Meðvirkni er, að mati okkar í Lausninni, mesta samfélagsmein okkar tíma og er sérstaklega áberandi á Íslandi vegna náins samfélags, því að við erum yfirleitt mest háð skoðunum og elsku frá þeim sem eru okkur tengd og náin. – Það er oft erfiðast að fara úr hlutverki þóknarans og þess sem geðjast í okkar innsta hring eða fjölskyldu. Þess vegna er t.d. meðvirkni svo innmúruð í kirkjuna, því þar eru allir systur og bræður!
Þegar Teddi kom einu sinni heim mjög drukkinn, ældi hann í forstofunni, – og henti niður öllu úr fatahenginu, dó síðan áfengisdauða á gólfinu inni á baði. – Anna dröslaði Tedda uppí rúm og hjálpaði honum að hátta og breiddi yfir hann eins og ungabarn. Hún þreif ganginn og hengdi upp fötin. Um morguninn vaknaði Teddi og var með timburmenn, en talaði að öðru leyti um það hva hefði verið svakalega gaman í partýinu kvöldið áður. Anna vildi ekki skemma ánægjuna fyrir honum, og ekki heldur fá á sig röfl-stimpilinn með því að taka upp ástand hans kvöldið áður, enda voru þau að reyna að bæta hjónabandið. – Ekki vildi hún skemma það, heldur halda friðinn.
Afleiðingar fyrir Tedda voru engar, hann sá ekki umgengni sína og hvað hann hafði gert. –
Þetta var meðvirkni en ekki góðmennska.
Anna hafði lært það allt frá bernsku að það væri dyggð að halda friðinn og að þögnin væri gulls ígildi.
Anna vildi sýna góðmennsku en hún kunni það ekki því hún hafði fengið svo röng skilaboð í æsku og frá samfélaginu alla tíð.
Anna getur breytt sér og hegðun sinni, en ekki hegðun Tedda. – En vissulega, um leið og hún myndi breyta sinni hegðun – breyta sér, myndi það leiða til þess að Teddi upplifði afleiðingar og þyrfti að takast á við þær og auðvitað er það gagnkvæmt.
Meðvirkni er m.a. að ýta undir eða ala á slæmri hegðun annarra, sem er þeim jafnvel skaðleg.
Orðið meðvirkni virkar eflaust á suma eins og orðið skömm. Ekki vinsælt að ræða það eða viðurkenna. En skömmin og meðvirknin hefur líka það sameiginlegt, að hún minnkar þegar við tjáum okkur um hana OG hún þolir ekki að láta tala um sig, því hún vill vera til staðar.
Meðvirkni er vond og hún er lífshættuleg. – Hún verður til þess að það verður alltaf minna og minna til af okkur og sjálfsmyndin verður að lokum alveg týnd og við höfum ekki hugmynd hver við erum, hvernig okkur líður, um skoðanir okkar o.s.frv.
Sumir kalla þetta að brenna út. – En útbruni er einmitt að hafa gefið og gefið, en gleymt að fylla á. Sett sjálfa/n sig í aftasta sætið og halda að með því gerðum við það besta fyrir alla aðra. Þegar við erum búin að gera út af við okkur, gerum við engum gagn lengur. Við hættum að skína, verðum veik, verðum jafnvel vond og við förum að þrauka lífið en ekki lifa því.
Meðvirkni er því aldrei góð og hún er seigdrepandi.
Jóhanna Magnúsdóttir
Forstöðumaður félagsþjónustu á Sólheimum í Grímsnesi