Skip to main content
Fréttir

Málfríður Einarsdóttir Hugarafli ræðir reynslu sína í tilefni af Sjálfsvígsforvarnardegi, 10.september 2013

By september 10, 2013No Comments

Tveggja barna móðir glímdi við sjálfsvígshugsanir

Vísir Innlent 10. september 2013 16:49
Friða hefur í dag náð góðum bata.
Friða hefur í dag náð góðum bata.

Málfríður Hrund Einarsdóttir glímdi við nánast stöðugar sjálfsvígshugsanir í tvö ár. Málfríður er alla jafna kölluð Fríða og hún er tveggja barna einstæð móðir í dag. Hún hefur náð góðum bata og hefur verið á góðri leið upp á við með hjálp Hugarafls og Drekaslóðar.

Í dag er alþjóðlegur forvarnadagur gegn sjálfsvígum. Haldnar verða kyrrðarstundir í Dómkirkjunni í Reykjavík og í Glerárkirkju á Akureyri klukkan 20.00 í kvöld, eins og greint hefur verið frá á Vísi.

Fríða byrjaði að finna fyrir alvarlegu þunglyndi þegar hún gekk með seinna barnið sitt. Hún segist átta sig á því eftir á að hún hafi verið farin að þróa með sér þunglyndi eitthvað fyrr, þetta hafi vissulega tekið tíma að þróast en hún hafi hrunið alveg niður, á mjög stuttum tíma.

„Ég var 32 ára og gengin nokkrar vikur með barnið þegar ég fór að finna fyrir alvarlegum sjálfsvígshugsunum. Ég hélt ég væri eina manneskjan í heiminum sem liði svona og þetta myndi aldrei lagast,“ segir Fríða.

Fríða segist hafa misst alla von, hún hafi þurft að taka veikindaleyfi frá vinnu, hún gat ekki séð um einföld heimilisstörf og ekki sinnt barninu sínu. Hún fann fyrir gagnrýni frá sumum í kringum sig, það var að því fundið hvað hún var leið og áhugalaus. Hún tekur þó fram að það hafi aðallega verið hún sjálf sem var hvað verst, hún dró sig stöðugt niður.

„Þegar maður er svona veikur er maður í stöðugum sveiflum upp og niður, líðanin fer aldrei mjög langt upp, en því lengra niður. Maður er líka stöðugt með samviskubit yfir því að líða svona því það eru aðrir sem hafa það mun verr, þetta er allt partur af niðurrifinu,“ segir hún.

Hún lýsir því hvernig sjálfsvígshugsanirnar hafi verið stöðugar og hún hafi verið farin að skipuleggja að enda líf sitt. Hún lýsir því einnig hvernig það hafi verið viss léttir að fara í gegnum þessar sjálfsvígshugsanir því hún eygði þá allavega von um að hún gæti endað þessa vanlíðan sjálf.

„Ég trúði því líka innilega að það væri það best fyrir alla að ég myndi deyja, það væri betra fyrir börnin mín að ég myndi deyja. Þetta sýnir hvað þeir sem eru þunglyndir þjást oft af miklum ranghugmyndum,“ segir Friða.

Hætti í vinnunni
Fríða fór beint í fæðingarorlof eftir veikindaleyfið en reyndi að því loknu að hefja störf að nýju. Hún vann hjá stofnun innan ríkisins. Hún lýsir því að henni hafi liðið stanslaust illa og átt erfitt með að mæta til vinnu og þegar hún mætti átti hún erfitt með að sinna starfinu. Það varð til þess að búa til mikið samviskubit sem enn jók á þunglyndið.

„Þrátt fyrir mikinn stuðning frá mínum nánasta yfirmanni fannst mér engin leið til þess að halda áfram í starfinu. Mér var boðið að taka leyfi en ég eygði enga von um að verða nokkurn tíman góð á ný svo ég ákvað að hætta.“ segir Fríða.

Hún segir að það að hætta í starfinu hafi í raun verið skref aftur á bak, staðan hafi orðið enn verri við það að verða atvinnulaus. Þá bættist á skömm ofan í allt saman, skömm við að geta ekki verið almennileg og unnið eins og aðrir.

Hennar skoðun er sú að það þyrfti að vera betra kerfi, sem tekur á svona veikindum, enda lendir fjöldi manns í því á hverju ári að verða óvinnufær vegna veikinda. Það þyrfti að taka betur á þeim sem koma til baka úr veikindaleyfi, þar sem starfsmönnum gefst færi á að vinna það sem þeir treysta sér til og þeir finni að þeir séu velkomnir aftur og fái tækifæri á að vinna í sínum málum meðfram vinnu. Hún telur að slíkt myndi flýta fyrir bata flestra.

Fríða hvetur alla sem líður svona illa að leita sér hjálpar og bendir á að það verði opin vika hjá Hugarafli í næstu viku þar sem fólk getur komið í leit að bata.