Skip to main content
Greinar

Hvað veldur mikilli vanlíðan í samfélaginu?

By febrúar 20, 2018febrúar 23rd, 2018No Comments

„Að halda í við Jóa“

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Vafalaust hefur það komið illa við marga, þegar fréttir birtust fyrr í þessari viku um niðurstöðu rannsóknar tveggja sálfræðinga þess efnis að um þriðjungur nemenda við þrjá háskóla mælist með þunglyndi og um 20% með kvíða.

Þunglyndi getur að vísu verið með ýmsum hætti, allt frá vægu þunglyndi til algers svartnættis, en engu að síður hljóta niðurstöður af þessu tagi að vekja spurningar og valda áhyggjum.

Hvað er það í okkar samfélagi, sem veldur slíkri vanlíðan hjá stórum hópum ungs fólks? Hvaða alvarlegu brotalamir eru í þessu fámenna þjóðfélagi, sem geta valdið þessu?

Einn viðmælandi minn á miðjum aldri lýsti þeirri skoðun í samtali fyrir nokkrum dögum að ein af mörgum ástæðum væri mikil samkeppni um lífsstíl hjá yngri kynslóðum, sem hinir nýju samfélagsmiðlar ýti undir og auki á.

Upp úr miðri síðustu öld voru töluverðar umræður um þetta fyrirbæri í Bandaríkjunum, þegar ný tegund af úthverfum var að byggjast þar upp og nágrannar voru í stöðugri samkeppni sín í milli um hverjir byggju í fínustu húsum eða keyrðu í fínustu bílum. Þetta var kallað vestan hafs, í frjálslegri þýðingu, „að halda í við Jóa“.

Þessi viðmælandi minn hélt því fram, að kynslóðirnar sem eru stöðugt með símann í höndunum og sæju stöðugt fréttir og myndir af vel klæddu fólki að skemmta sér (m.a. á Smartlandi Mörtu Maríu á mbl.is!) og alveg sérstaklega af þeim Íslendingum, sem eru iðnir við að koma því á framfæri á Facebook eða á Instagram að þeir séu í útlöndum að skemmta sér, fengju það á tilfinninguna að þær væru að missa af miklu og að allir aðrir hefðu það miklu betra en þeir sjálfir.

Auðvitað er það svo að í langflestum tilvikum eiga þessar glansmyndir ekkert skylt við veruleikann í lífi fólks.

Annar viðmælandi taldi vel hugsanlegt að þessi andlega vanlíðan yngra fólks á háskólaaldri ætti rætur að rekja í kvíða meðal þessara hópa yfir því að þegar út í lífið væri komið að loknu háskólaprófi væri enga vinnu að fá á því sviði, sem viðkomandi hefði sérhæft sig í.

Manna á meðal var um það rætt fyrstu árin eftir hrun, að erfitt væri fyrir viðskiptafræðinga að fá vinnu á sínu sviði. Seinni árin hefur það umtal færst yfir á unga lögfræðinga eftir því sem verkefnum við uppgjör hrunmála hefur fækkað.

Viðbrögð við niðurstöðum þessara rannsókna hafa verið af ýmsu tagi. Háskólinn í Reykjavík brást snarlega við og bauð nemendum sínum upp á sálfræðiþjónustu innan skólans. Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands og formaður Félags læknanema við HÍ hafa átt fund með rektor skólans og sett fram kröfur um bætta geðheilbrigðisþjónustu við skólann.

Fréttir um fjölda dauðsfalla vegna töku bæði löglegra og ólöglegra lyfja eru beinlínis óhugnanlegar og of oft fara saman áfengissýki og fíkn í slík lyf. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eru félagasamtök og grasrótarsamtök, sem orðið hafa til, ekki sízt að frumkvæði fólks, sem hefur átt um sárt að binda, og vinna merkilegt starf á þessum sviðum eða í tengslum við geðsýki, í stöðugu stríði við „kerfið“, sem stundum virðist frekar hafa tilhneigingu til að bregða fæti fyrir slíka starfsemi en standa við bakið á henni. Dæmi um slíkt um þessar mundir eru bæði SÁÁ og Hugarafl.

Þótt þjóðin búi nú við efnahagslega velgengni, sem reynslan sýnir að vísu að getur verið sveiflukennd, dugar það skammt, ef dýpri vandamál eru til staðar í samfélagi okkar, sem leiða af sér þá vanlíðan, sem hér er gerð að umtalsefni. Þess vegna verður að bregðast við.

Eitt af því sem við blasir að gera verði strax er að sálfræðiþjónusta verði aðgengilegri fyrir fólk. Hún er of dýr í dag. Hvers vegna er munur gerður á þjónustu lækna og sálfræðinga, þegar kemur að þátttöku hins opinbera í kostnaði við þjónustu þessara sérfræðinga?

Það eru fornaldarleg sjónarmið, sem liggja að baki þeirri afstöðu.

Kjarni málsins er þó sá, að þær vísbendingar um víðtæka vanlíðan yngri kynslóða, sem fram koma í fyrrnefndum niðurstöðum rannsóknar tveggja sálfræðinga, fjölda þeirra, sem með einum eða öðrum hætti deyja af eigin völdum í hverjum mánuði og annarri óáran, sem hrjáir samfélagið og snýst um annað en efnahagsleg áhrif eða afleiðingar eru orðin að einu stærsta þjóðfélagslega vandamáli okkar samtíma.

Umræður um þennan þjóðfélagsvanda fara nú fram á mörgum vígstöðvum í samfélaginu en þó er minna um þær á Alþingi en æskilegt væri.

Hins vegar hefur Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, gefið skýrt til kynna frá því að hann tók við ráðherraembætti að hann ætli sér að taka frumkvæði í málum barna en þar er að finna upphafið að þessum vandamálum að margra mati. Út í samfélaginu eru öflugir hópar hér og þar, sem munu leggja ráðherranum lið.

Augljóst er að þar þurfa bæði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra,að koma við sögu.

Það er orðið brýnt og aðkallandi verkefni að snúa velferðarkerfi okkar algerlega við, leggja megináherzlu á aðbúnað barna í bernsku og æsku, tryggja viðunandi sálfræðiþjónustu fyrir börn og unglinga, stórauka vægi leikskólastigsins með auknum menntunarkröfum og gjörbreytingu á launakjörum starfsmanna til þess að koma í veg fyrir þau vandamál á fullorðinsárum, sem við nú stöndum frammi fyrir.

Greinin birtist upphaflega í morgunblaðinu 3. febrúar 2018.