Skip to main content
Greinar

Hvað kostar gjöfin í ár

By febrúar 21, 2014No Comments

Bergþór Grétar Böðvarsson fjallar um kurteisi, virðingu og samskipti fólks í íslensku samfélagi: „Einlæg virðing kemur frá hjartanu og stjórnast af viðhorfi fólks til sjálfs sín og lífsins.“

ÞAÐ er svo sem æði misjafnt hvað gjöfin kostar en dýrmætasta gjöfin, að mínu mati, þarf ekki að kosta neitt, allavega ekki í krónum talið.
Það dýrmætasta sem við getum gefið nokkurri manneskju er ást, hlýja, stuðningur, kurteisi og virðing eða bara almenn umhyggja.
Nú þegar umræðan um laun og hækkanir stendur sem hæst, og hið íslenska góðæri er oftar en ekki nefnt í því sambandi, er eins og allt fari á annan endann í þjóðfélaginu. Fjölmiðlar keppast við að sýna og segja sem mest frá þegar ráðamenn þjóðarinnar rífast og skammast hver út í annan og hinn almenni launþegi veit varla hvaðan á hann stendur veðrið því hann er jú einfaldlega að berjast fyrir sama rétti og aðrir í sömu stöðu.
Það er skammarlegt til þess að vita að allt fari á annan endann þegar kemur að launakröfum en svo heyrist lítið sem ekkert þegar talað er um það sem manneskjunni er dýrmætast, en kostar aftur á móti ekki neitt.
Fyrir nokkrum vikum var ríkissjónvarpið með frétt um Konukot og konur sem þangað leituðu. Í Kastljósþætti sama kvöld var talað við unga konu sem, fyrir Guðs náð og stuðning fjölskyldu sinnar, tókst að losna úr viðjum óreglu, fíkniefna og afbrota. Í þættinum var svo sýnt viðtal við nokkrar konur í Konukoti og unga konan benti réttilega á að konurnar sem þangað leituðu voru hvað þakklátastar fyrir hvað starfsmenn Konukots voru kurteisir og að þeir sýndu þeim virðingu.
Þessi kurteisi og virðing er eitthvað sem allir eiga skilið að fá en því miður fer ekki mikið fyrir því í íslensku þjóðfélagi nú til dags.
Fjölmiðlar virðast hafa meiri áhuga á launabaráttu og góðæri landsmanna heldur en þeirri óvirðingu sem allt of margir verða fyrir á hverjum degi.
Ég tek það fram að ég er ekki að gagnrýna þær stéttir sem standa í þessari launabaráttu, þvert á móti tel ég að hver og einn eigi rétt á mannsæmandi launum og það á alls ekki að mismuna fólki, allra síst eftir kyni eða búsetu.
Íslenskt velferðakerfi er að mörgu leyti mjög gott en stundum finnst mér eins og að velferð hvers og eins miðist við peninga. Vissulega er nauðsynlegt að eiga fyrir salti í grautinn, hafa öruggt húsaskjól og geta borgað reikninga.
En virðingu er ekki hægt að kaupa, sumum tekst það jú en sú virðing dugir yfirleitt skammt. Það er vel hægt að vera umkomulaus þó að maður eigi nóg af aurum.
Einlæg virðing kemur frá hjartanu og stjórnast af viðhorfi fólks til sjálfs sín og lífsins. Maður á að sýna öðrum þá virðingu sem maður ætlast til að aðrir sýni manni sjálfum.
Um leið og ég óska öllum gleði og friðar langar mig til að biðja ykkur um að staldra aðeins við, líta vel í eigin barm og spyrja ykkur að því „hvernig vil ég að aðrir komi fram við mig?“ Og segja svo „Þannig ætla ég að koma fram við aðra, ekki bara um jólin, heldur allan ársins hring.“
Höfundur stundar nám í Hringsjá, starfsþjálfun fatlaðra, og er lítill angi af notendahópi Hugarafls.