Skip to main content
Greinar

Hugleiðsla gegn þunglyndi

By febrúar 22, 2014No Comments

Hugræn meðferð byggð á aldagamalli hugleiðslutækni er nú að ryðja sér til rúms í meðferð gegn þunglyndi, skrifar Helga Kristín Einarsdóttir. Mælt er með henni í viðmiðunarreglum fyrir breska heilbrigðiskerfið.

Hugræn atferlismeðferð byggð á aldagamalli hugleiðslutækni er ný aðferð til að fyrirbyggja endurtekningu á alvarlegu þunglyndi sem tekin er að ryðja sér til rúms í Evrópu og Bandaríkjunum. Mark Williams, prófessor í klínískri sálfræði við Oxford-háskóla og stjórnandi rannsóknateymis við Miðstöð í sjálfsvígsrannsóknum við skólann, hefur kynnt þessa nýjung fyrir íslensku heilbrigðisstarfsfólki með vinnufundum og fyrirlestrum á Landspítalanum og hjá Landlæknisembættinu. Hann hefur einbeitt sér að hugrænum úrræðum í meðferð við þunglyndi og sjálfsvígshugsunum um langt skeið og hefur þróað þessa aðferð upp á síðkastið ásamt fleirum með það fyrir augum að koma í veg fyrir afturkipp eða endurtekningu á alvarlegu þunglyndi. Mark Williams segir miklar líkur á því að þeir sem glíma einu sinni við alvarlegt þunglyndi upplifi annaðhvort bakslag eða endurtekið þunglyndi. „Við fáum sífellt fleiri vísbendingar um það, að líkurnar á endurtekningu séu mestar hjá þeim sem eru það viðkvæmir fyrir jafnvel minnstu neikvæðu geðsveiflum að neikvætt hugsanamynstur frá fyrri þunglyndistilvikum framkallast þegar í stað aftur,“ segir hann.

Aðferðin sem hefur verið þróuð nefnist „mindfulness-based cognitive therapy“ (MBCT) á ensku og eru streituþjálfun, sem Jon Kabat-Zinn, sérfræðingur í læknisfræði hugar og líkama við læknadeild Massachusetts-háskóla, hefur þróað og aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar fléttaðar saman á átta vikna námskeiði fyrir allt að tólf einstaklinga sem hafa náð bata. Markmiðið er að kenna fólki að þekkja fyrstu merki endurtekins þunglyndis og að draga úr tilhneigingunni til þess að loka augunum fyrir þeim. Aðferðirnar fela meðal annars í sér hugleiðslutækni þar sem maður einbeitir sér að andardrætti sínum og jógateygjur, sem auka vitund um blæbrigði breytinga í líkama og huga á sérhverju augnabliki, fræðslu um þunglyndi og æfingar úr hugrænni atferlismeðferð sem sýna tengslin milli hugsana og tilfinninga. Fyrstu vísbendingar úr tveimur rannsóknum með slembiúrtaki og samanburðarhópi gefa til kynna að MBTC sé árangursrík aðferð til þess að draga úr hættunni á niðursveiflu hjá fólki sem orðið hefur alvarlega þunglynt þrisvar eða oftar, segir Mark Williams.

Þunglyndi skilur eftir sig ör
Hvað er það sem veldur endurtekningu eftir fyrsta þunglyndið?

„Svo virðist sem erfðafræðilegir þættir séu ráðandi í sumum tilvikum. Hjá öðrum er ástæðan kannski óhamingja í æsku eða á unglingsárum, sem eykur líkurnar á þunglyndi síðar meir, hvort sem erfðafræðilegir þættir eru fyrir hendi eða ekki. Við vitum líka að fólk sem þetta á við getur samt lifað ánægjulegu lífi og því verðum við að komast til botns í því hvað það er sem fyrsta þunglyndið skilur eftir sig. Þunglyndi skilur eftir sig ör. Það geta verið margar ástæður fyrir því hvers vegna það kom fram til þess að byrja með en afleiðingarnar eru mjög mismunandi og í sumum tilvikum eru þær aukin viðbragðshæfni, þannig að þó að allt sé í lagi á yfirborðinu er viðkomandi mjög viðkvæmur fyrir minnstu breytingu á hugarástandi og litlar breytingar geta leitt til mikilla hvarfa í hugsanamynstri. Í því virðist varnarleysið liggja.“

Eru líkamlegar afleiðingar líka eða er það aðallega hugsanamynstrið sem breytist?

„Um leið og hugsanirnar breytast fer ferlið af stað. Þá er átt við líkamleg einkenni, kraftleysi, verki, uppnám, seinvirkni, að vilja ekki fara út, missa áhuga á hlutum og þess háttar. Þunglyndi er dálítið eins og stórt verkefni, en munurinn er sá að verkefninu lýkur ekki eftir viku eða innan fyrirséðs tímaramma. Þunglyndi er verkefni sem snýst meðal annars um það að koma skikki á líf sitt og hugarástand og vinna í því sem maður þarf að laga í sjálfum sér. Það er meiriháttar viðfangsefni og vandinn er sá að aðferðin sem við beitum í þunglyndi er að hugsa um það og hugsa og fara í hringi. En það gerir bara illt verra. Ef það er raunin að auknar líkur á afturkipp eða endurtekningu séu vegna aukinnar viðkvæmni fyrir minnstu neikvæðu geðsveiflum má velta því fyrir sér hvort hægt sé að finna leið til þess að kenna fólki, sem glímt hefur við þunglyndi og jafnvel tekið þunglyndislyf en líður betur í augnablikinu, að koma í veg fyrir næsta tilfelli með aðferðum sem hjálpa því til að viðhalda heilbrigði sínu. Þar kemur hugleiðslan til skjalanna.

Rannsóknir sýna að maður getur ekki bælt niður tilfinningar sem gera vart við sig þegar þunglyndi verður eða falið þær og maður getur fest sig í endalausum vangaveltum um það, hvers vegna manni líður illa eða reynt að bæla það niður. Gjörhygliþjálfun felst í því að reyna hvorki að bæla niður hugarástand sitt né hugsa um það. Galdurinn er að læra að kynnast augnablikinu og hugsa vinsamlegar hugsanir um sjálfan sig og hinar neikvæðu tilfinningar, þannig fá þær að koma og fara eins og hvert annað veðramynstur.“

Hugsanir koma fram og hjaðna og það eina sem maður gerir er að fylgjast með þeim?

„Já, og maður lærir að fylgjast með þeim af áhuga, forvitni og samúð. Það er reyndar talsverð vinna því flest okkar eru upptekin af hugsunum sínum. Hugsanir eru yfirleitt svo nytsamlegar og okkur hefur aldrei verið kennt að stíga skref til baka og velta fyrir okkur hvort þær séu gagnlegar eða ekki, við gerum ráð fyrir því að þær séu sannar, með góðu eða illu.“

Neikvæði verður sjálfvirkt
Má segja að hjá þeim sem hafa glímt við þunglyndi sé neikvæði ósjálfrátt fyrstu viðbrögðin við öllu sem hendir? Af hverju kemur þetta alltaf fyrir mig? Ég er svo óheppinn og svo framvegis, tilhneigingin sé sú að koma alls staðar auga á vandamál.

„Einmitt og það sem meira er, maður getur alltaf fundið vísbendingar sem styðja það sem manni finnst. Við vitum að depurð gerir minnið hlutdrægt og gerir gleðilegar upplifanir fremur óaðgengilegar. Ef maður glímir við vanlíðan og reynir að rifja upp eitthvað ánægjulegt úr fortíðinni finnur maður bara rifrildi, óhöpp, vonbrigði og vont veður. Það tilheyrir gamla hugsanamynstrinu og er ekki okkur að kenna. Þetta gerist bara. Hugleiðslan hjálpar okkur við að sjá það skýrar og æfa viðbrögð við hlutum sem eru ekki svo stórvægilegir. Við einbeitum okkur að því að kenna fólki sem er í bata því það getur æft sig með svo margt þegar það hugleiðir. Við æfum það til að mynda að setjast niður og fylgjast með önduninni eða öðru í líkamanum, eftir fáeinar sekúndur er hugurinn farinn að reika, það er ekki endilega víst að við byrjum að hugsa eitthvað neikvætt, en kannski förum við að spá í hvað við eigum að hafa í matinn í kvöld, hugsa um bréfið sem við eigum eftir að skrifa einhverjum eða erindi sem við þurfum að sinna. Æfingin felst í því að taka eftir því að hugurinn sé byrjaður að reika og byrja aftur að einbeita sér að andardrættinum. Ef neikvæðar hugsanir gera vart við sig eftir nokkrar vikur erum við búin að æfa okkur í því mörg þúsund sinnum í millitíðinni að taka eftir því hversu skammvinnar hugsanir eru, fylgjast með þeim koma og hjaðna og síðan leysast upp. Þess vegna eru aðeins meiri líkur á því að maður geti búið til örlitla fjarlægð á neikvæðar hugsanir sínar, tekið eftir hvernig þær nálgast, staldra við, eitra hugann og hverfa síðan aftur.“

Vísbendingar um afturkipp
Hverjar eru fyrstu vísbendingarnar um afturkipp í þunglyndi?

„Það er einstaklingsbundið. Sumir verða ergilegir í samskiptum, aðrir draga sig örlítið í hlé og vilja kannski ekki svara í símann, svo dæmi sé tekið. Ef síminn hringir finna þeir kannski fyrir spennu, „guð minn góður, hver er þetta? Mig langar ekki til að svara“. Eftir viku svara þeir kannski alls ekki. Með gjörhygliþjálfun getur maður við fyrsta merki um niðursveiflu hugsað með sér, gott og vel, kannski er að byrja niðursveifla, ég verð að fara vel með mig, hvað get ég gert til þess? Almennt talað eru yfirleitt einhver líkamleg einkenni sem hægt er að vera á varðbergi gagnvart og í gjörhygliþjálfun er valkosturinn við það að velta sér upp úr hugsunum sínum eða bæla þær niður sá að einbeita sér að því hvar í líkamanum neikvæða hugarástandið gerir vart við sig. Fyrstu tvær vikurnar á námskeiðinu eru notaðar í einskonar líkamsskönnun þar sem við einbeitum okkur bara að því að gaumgæfa líkamann frá toppi til táar, ekki til þess að breyta einhverju eða slaka á, heldur bara til þess að taka eftir því sem þar er. Margir tala um tilfinningu einhvers staðar í búknum, en hún getur gert vart við sig hvar sem er, jafnvel í andlitinu með því að vera þungur á brún. Einn af skjólstæðingum mínum nefndi á námskeiði rétt áður en ég kom til Íslands að hún fyndi fyrir sársauka í hælunum. Ef hún einbeitti sér að honum hvarf hann en um leið og hún hugsaði um erfiðleika í lífi sínu kom hann aftur. Þannig getur maður byrjað að nota líkamann sem einskonar loftvog á veðrabrigði og skynjað hvar spenna gerir vart við sig, alveg eins og maður bankar í raunverulega loftvog til þess að gá að veðri.

Það tilheyrir þróunarmynstri mannsins að þegar eitthvað fór úrskeiðis var orsökin ávallt í ytri aðstæðum, annaðhvort vegna rándýrs eða hættu af einhverju tagi, og fyrstu líkamlegu viðbrögðin voru þau að frjósa þar til hættan var liðin hjá, eða ef hún leið ekki hjá að flýja eða berjast. Sérhvert þessara viðbragða felur í sér vöðvasamdrátt af einhverju tagi og sá hluti heilans sem stýrir honum þróaðist löngu áður en hugsunin þróaðist. Nú hefur hugsunin þróast og eins dásamlegt tæki og hún er geta hugsunin og ímyndunaraflið nú séð okkur fyrir hættum sem knúnar eru áfram hið innra.“

Eins og viðbrögð við hættu
Er hugsunin að snúast gegn okkur?

„Hún getur gert það í þeim skilningi að við getum upplifað minningar úr fortíðinni sem hrinda af stað samskonar líkamlegum viðbrögðum og við hættu eða við getum hugsað inn í framtíðina og haft áhyggjur sem kalla fram sömu viðbrögð og ef við hefðum rekist á ljón í frumskóginum. Vöðvasamdrátturinn er samskonar, þó að við séum að hugsa fram á við og að ekkert hafi gerst eða muni gerast og við einhverju í fortíðinni, við lifum framtíðina fyrirfram eða endurupplifum fortíðina og líkamlegu afleiðingarnar eru hinar sömu og við fyrrgreindar aðstæður í frumskóginum. Það hefur alls kyns afleiðingar, meðal annars þær að maður á erfitt með að greina hvað er að gerast í núinu, annars vegar höfum við það sem gerðist í fortíðinni og hins vegar það sem gæti gerst í framtíðinni. En hvað um núið?“

Við eigum talsvert erfitt með að dvelja í augnablikinu, virðist vera?

„Já, alveg ótrúlega, því enginn hefur kennt okkur það. Í skóla er okkur kennd gagnrýnin hugsun enda eru allar stærstu framfarir mannsins byggðar á vísindalegri hugsun en vandamálið í þunglyndi er það að við hugsum of mikið og að hugsunin er of gagnrýnin. Við byrjum að reiða okkur um of á gagnrýna hugsun, eins og hún sé eina tækið sem við ráðum yfir. Á ensku er orðatiltæki sem segir: ef eina verkfærið sem maður hefur við höndina er hamar byrjar allt að líta út eins og nagli. Ef hugsunin er eina tækið sem við höldum að við höfum teljum við okkur trú um að við getum hugsað okkur í gegnum allt og ef hugsunin um sum vandamál okkar byrjar að vinna gegn okkur verður útkoman alger óreiða.“

Þunglyndi að aukast
Er tíðni þunglyndis að aukast í samfélaginu eða er það betur greint?

„Ég held að þunglyndi sé að aukast. Ein ástæðan er sú að fólk verður þunglynt í fyrsta sinn mun yngra en áður. Við höfum fullt af vísbendingum um það alls staðar að úr heiminum. Fyrir fimmtíu árum var tilhneigingin sú að þunglyndi gerði fyrst vart við sig upp úr fertugu, eða í kringum miðjan aldur og þunglyndi milli tvítugs og fertugs var mjög sjaldgæft. Núna er ljóst að á síðustu fimmtíu árum verður sífellt yngra fólk þunglynt í fyrsta sinn, sumir á unglingsárum eða upp úr tvítugu. Meðalaldur fólks sem fær þunglyndi í fyrsta sinn hefur því lækkað niður í miðjan þrítugsaldur. Fleiri verða því þunglyndir því yngra fólk er að verða þunglynt í fyrsta sinn. Hin ástæðan er sú að ef fyrsta þunglyndið gerir vart við sig á unga aldri eru meiri líkur á því að það komi fyrir aftur á lífsleiðinni. Við vitum að þunglyndi er endurtekið vandamál hjá mörgum og þess vegna hefur fjöldi þeirra sem verða fyrir því í annað, þriðja eða fjórða sinn aukist.“

Þáttur velmegunar
Hvað er það sem veldur auknu þunglyndi hjá yngra fólki?

„Það er erfitt að segja. En ýmislegt bendir til þess að þegar samfélag vinnur bug á stórfelldum sjúkdómum og dauðsföllum byrja sjúkdómar að tengjast velmegun, til dæmis ef velmegunarástandinu er spillt eða það er hindrað eins og með vaxandi bili á milli ríkra og fátækra. Sjálfsvígstíðni fylgir sömu þróun. Í Bretlandi, til að mynda, og víðar í Evrópu, þar sem bilið milli þeirra 20% sem eru ríkust og þeirra 20% sem eru fátækust er mjög breitt er tilhneigingin sú að veikindi og vanlíðan fari vaxandi. En ef munurinn er minni virðist almenn vellíðan meiri í samfélaginu. Á síðustu fimmtíu árum hefur bilið milli þeirra ríkustu og fátækustu vaxið enn meira, og vandinn er sá að það er erfitt að ráða við það.“

Hvað er það sem gerist þegar bilið milli þeirra ríkustu og fátækustu vex?

„Fólk lifir lengur þar sem minni stéttamunur er, til dæmis í Japan og Skandinavíu. Ýmislegt bendir til þess að neysla á áfengi og vímuefnum fari vaxandi þar sem stéttamunur eykst. Ástæðan virðist sú að maðurinn hefur ekki sérstaklega góða hæfileika til þess að meta algildar stærðir. Ég gæti ekki svarað því hversu löng vegalengdin er frá þeim stað sem við sitjum á núna og út á bílastæði. En ég á auðvelt með að segja að sjónvarpið sem er hérna inni sé mun nær okkur en bílarnir úti og að þú sért nær mér en sjónvarpið, með öðrum orðum eigum við auðveldara með að dæma afstæða fjarlægð. Ef maður hugsar um þróunarsöguna þurftum við bara að geta þekkt hlutfallslega fjarlægð að næstu trjágrein og hversu mikinn kraft þyrfti til að stökkva milli trjáa. Ef maður ber sig saman við nágranna sinn og báðir eiga venjulegan bíl, er allt í lagi. Svo tekur nágranninn sig til allt í einu til og fær sér Porsche eða Audi, svo dæmi séu tekin, þá staldrar hinn við þó að gamli bíllinn hans sé enn í fullkomlega góðu lagi. Margt bendir til þess að við þessar aðstæður finnist fólki það útundan, þannig að ef fólk einhvers staðar í samfélaginu byrjar að auðgast, þó að hinir séu ekki að verða fátækari, finnur það fyrir þessum hlutfallslega mun og fer að finnast það fátækara, þó að það beri jafnmikið úr býtum og áður. Fólki finnst það vera að missa af einhverju og það leiðir til alls kyns viðbragða í ónæmiskerfinu til að mynda, magn nýrnahettuhormóna eykst lítillega í blóðinu, hlutfall karlkynshormóna lækkar örlítið og það finnur fyrir meira vonleysi, eða niðurlægingu, þó að ekkert hafi gerst annað en að einhver varð ríkur eða ríkari. Ef maður kvefast, verður hann veikari en ella, og í samfélögum þar sem þetta bil er orðið verulega breitt er munur á ævilengd allt að sjö ár milli þeirra ríkustu og fátækustu, þó að hinir fátækustu reyki ekki, fylgi hollu mataræði og hreyfi sig.“

Hentar fyrir hópmeðferð
Hvernig fékkstu áhuga á hugleiðslu og jógateygjum sem meðferðarúrræði?

„Ég hafði ekki sérstakan áhuga á því fyrir 10-15 árum. Ég velti því hins vegar fyrir mér, ásamt kollegum mínum, hvernig hægt væri að fyrirbyggja þunglyndi hjá þeim sem oft hefðu orðið þunglyndir áður. Það hefur verið sannað að hugræn atferlismeðferð gefur góða raun og að ef henni er beitt í þunglyndi veitir hún langtímavörn, ólíkt þunglyndislyfjum. Líkurnar á afturkipp eru minni. Enginn vissi hvers vegna, en við nánari aðgæslu virtist sem atferlismeðferðin drægi úr viðbrögðum við minniháttar sveiflum í lundarfarinu. Við veltum því fyrir okkur að beita atferlismeðferð á alla, en vandinn er sá að það eru mun fleiri þunglyndir í samfélaginu en lærðir þerapistar ná að meðhöndla og þá var spurningin sú hvort hægt væri að veita meðferð í hópi eða með kennslu.

Hugræn atferlismeðferð er hugsuð fyrir þunglynt fólk en við vildum finna eitthvað sem hentaði fólki sem ekki er þunglynt og kenna því að verja sig gegn þunglyndi. Núna þykir ekkert tiltökumál að stunda hugleiðslu og jóga sem þótti fremur skrýtið og austrænt og framandi á sínum tíma.“

Alltaf að missa af
Þú hefur stundað hugleiðslu frá 1992, hverju hefur það breytt fyrir þig?

„Þú ættir kannski að spyrja eiginkonuna og fjölskylduna að því. En mér finnst ég hafa meira val um hvernig ég bregst við því sem gerist og mér finnst ég líka upplifa fleiri augnablik. Eitt af því sem hugleiðsla kennir er til dæmis hvernig maður vaskar upp, maður getur ekki beðið eftir að verkinu ljúki. Þetta er svo leiðinlegt, ég þarf að flýta mér svo ég geti sest niður og fengið mér tebolla, hugsar maður og missir um leið af diskunum. Svo sest maður niður með teið og gettu hvar hugurinn er á meðan, hann er að hugsa um það næsta sem þú þarft að gera eða tuttugu erindi sem þú átt eftir að sinna áður en deginum lýkur og þá er maður bæði búinn að missa bæði af diskunum og tebollanum. Ég var alltaf að teygja mig inn í næsta augnablik og missti því af núinu og þar með þeirri tilfinningu að vera lifandi. Ég óttaðist að ég myndi vakna seint á lífsleiðinni með tóman bolla í hendinni án þess að vita hvort ég hefði verið að drekka úr honum eða ekki. Ef maður drekkur glas af vatni án þess að gefa því gaum man maður það ekki og ef maður eyðir nánast öllu lífinu í einhverri sjálfvirkni verður ekki eftirsóknarvert að líta til baka. Hvert fór það eiginlega? Eitt af því sem ég hef tekið eftir er að líf þar sem maður upplifir hvert augnablik er innihaldsríkara. Það felur meira í sér. Dagarnir eru lengri, en þeir eru ekki fullir af óreiðu, og inni á milli glittir í þá vitund að það er himinn á bakvið skýin þótt kólgubakkar hafi hrannast upp og hylji hann í bili. Manni finnst maður hafa fleiri augnablik að lifa og það er djúpstæð uppgötvun sem ég gleðst mikið yfir að hafa fengið að njóta. Sú hugmynd er kannski mjög ógnvekjandi í augum þeirra sem vilja ekki að líf þeirra haldi áfram, en ef maður áttar sig á því að hugurinn hefur fleiri hliðar en maður hefur kynnst áður, að það er ljósglæta einhvers staðar í myrkrinu líka er það stórkostleg uppgötvun.“

Í vinnureglum yfirvalda
Hversu viðurkennd er gjörhygliþjálfun orðin í Bretlandi?

„Gjörhygliþjálfun er orðin hluti af viðmiðunarreglum National Institute of Clinical Health and Excellence (NICE) sem býr til vinnureglur fyrir heilbrigðiskerfið, meðal annars um það hvaða aðferðum eigi að beita gegn andlegum og líkamlegum sjúkdómum. Þeir mæla með því að þeir sem hafa verið þunglyndir þrisvar sinnum eða oftar séu meðhöndlaðir með úrræðum sem byggjast á gjörhygliþjálfun. Þess vegna er verið að þjálfa fleira fólk í þessum tilgangi og það er ein ástæða þess að ég kom hingað til Íslands, til þess að byrja þessa þjálfun hér.“

Hvenær heldur þú að gjörhygliþjálfun verði hluti af skólakerfinu? Ung börn læra til að mynda lífsleikni og að halda heimili. Hvers vegna ekki þetta?

„Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir kennara að læra þessa tækni. Konur sem eru að fara að fæða börn læra sérstaka öndunartækni, svo dæmi sé nefnt, og öndunaræfingar eru náskyldar fornum hugleiðsluaðferðum. Það væri hægur vandi að kenna skólabörnum að einbeita sér að andardrættinum í nokkrar mínútur á dag eða aðrar hugleiðsluaðferðir svo þau byrji að læra að gefa hugsunum sínum gaum. Þá myndu þau skilja að hugurinn hefur áhrif á líkamann og að maður getur lært að stilla sig inn á hann og hlusta á það sem hann er að reyna að segja manni.“

helga@mbl.is

Ný nálgun að opna sig fyrir kvíða og vanlíðan
Gjörhygli, eða „mindfulness“, hefur verið nefnd þriðja bylgjan í hugrænni atferlismeðferð. Í henni er tækni og hugmyndafræði austrænnar heimspeki beitt sem viðbót við hefðbundna hugræna atferlismeðferð. Með gjörhygli er átt við vakandi athygli, að vera sér meðvitandi um það sem er að gerast hér og nú. Gjörhygli er andstæðan við fjarhygli, eða þá tilhneigingu að vera sífellt skrefi á undan sjálfum sér í huganum.

Sálfræðingarnir Margrét Bárðardóttir og Ragnar P. Ólafsson og Þórgunnur Ársælsdóttir geðlæknir hafa beitt gjörhygliþjálfun í meðferð gegn kvíðaröskun á göngudeild geðdeildar Landspítala undanfarin misseri. Margrét kveðst hafa kynnst MBCT þegar hún gaf sjálfri sér í fimmtugsafmælisgjöf að fara til Oxford á Englandi að læra hugræna atferlismeðferð. „Ég skrifaði lokaritgerð um gjörhygli í kvíðameðferð og hugræna atferlismeðferð, kynntist Mark Williams og fór á námskeið hjá honum. Þegar ég kom heim var Ragnar nýkominn úr námi, þar sem hugræn meðferð við kvíða hafði verið mikið í umræðunni. Svo bættist Þórgunnur í hópinn og hefur hún jafnframt leiðbeint með okkur,“ segir Margrét.

Kvíðameðferð
Ragnar segir að kvíðameðferðin sem boðin hefur verið á göngudeildinni byggist meðal annars á aðferðum Mark Williams. Hún felur í sér átta vikna námskeið þar sem hugræn meðferð og öndunaræfingar eru kenndar í fjórar vikur og gjörhygliþjálfun í fjórar vikur. MBCT-tækni og lyfjameðferð geta farið saman, enda segir Þórgunnur að lyfjameðferð dugi oft ekki ein og sér til þess að vinna á kvíða. Ekki hefur verið rannsakað hvort meðferð af þessu tagi geti komið í staðinn fyrir lyf, að hennar sögn, en til er í dæminu að lyfjameðferð hafi verið hætt, en þá var um að ræða algengt þunglyndislyf sem slær á kvíðaeinkenni.

Margrét segir að í sumum tilvikum geti meðferð af þessu tagi komið í stað lyfjameðferðar. Það fari þó eftir eðli vandans hvort beita þurfi hvoru tveggja.

„Fyrir marga er það alveg ný nálgun að opna sig fyrir reynslu á borð við kvíða, í stað þess að bægja henni frá af því að tilfinningin er vond og óþægileg. Við miðlum til fólks að það horfist í augu við kvíðann og taki á móti honum og þreifi á honum og skoði hugsanir sem fylgja honum. Aðferðin er skyld þeim sem notaðar eru í hugrænni atferlismeðferð, en hér er stigið einu skrefi lengra. Með því að staldra við lærist manni að skoða tilfinningar og hugsanir úr fjarlægð og bregðast við þeim af meiri yfirvegun. Með vinsamlegu viðmóti er vanlíðanin og þjáningin boðin velkomin. Það er auðvitað dálítið nýstárlegt fyrir fólki og mjög ánægjulegt að sjá hvernig sú aðferð virðist hleypa af stað ákveðnu ferli innra með því og að með því að nálgast tilfinningarnar dregur úr kvíðanum. Það dregur úr því að fólk óttist óttann og óttist kvíðann. Vestræn nálgun og sálfræði hefur kannski gengið út á það að berjast á móti og breyta og útiloka. Í okkar meðferð höfum við leitast við að finna jafnvægið á milli þess að gangast við kvíðanum og sætta sig við hann og finna leiðir til þess að breyta og taka á honum.“

Batinn virðist varanlegur
Nokkrir hópar hafa notið leiðsagnar af þessu tagi og segir Ragnar að fyrstu niðurstöður bendi til að hún beri árangur. „Það sjáum við af sjálfsmatsspurningalistum þar sem fólk svarar spurningum um kvíða- og þunglyndiseinkenni og ýmislegt sem tengist slíkum röskunum. Greinilegt er að það dregur úr einkennum, bæði á meðan á meðferð stendur og í kjölfarið. Það virðist sem sagt draga úr kvíða- og þunglyndiseinkennum og batinn sem fólk fær virðist halda, að minnsta kosti þremur mánuðum eftir meðferðarlok,“ segir hann.

Ragnar segir ennfremur að óneitanlega finnist sumum æfingarnar sem kenndar eru dálítið sérstakar, og sú hugsun að tileinka sér gjörhygli í öllum athöfnum daglegs lífs, hvort sem er við uppvaskið eða í sturtu, svo dæmi séu tekin. „En fólk finnur fljótt hvað við erum gjörn á að vera alltaf skrefi á undan sjálfum okkur, ekki í því sem við erum að gera þá og þá stundina. Með því að beina athyglinni að því sem er að gerast hér og nú nær maður betri stjórn á líðan sinni auk þess sem það skapar meiri ró og yfirvegun.“

Margrét segir að þeir sem æfa sig í þessari nálgun finni einnig hvernig hún eykur vellíðan. „Maður fær meira út úr daglegu lífi og hverju augnabliki bara með því einu að nota öndunaræfingar, þótt ekki sé nema í nokkrar mínútur á dag. Þær gefa manni færi á því að staldra aðeins við og eru mótvægi við þetta eilífa ofboð og sjálfstýringuna sem við erum alltaf á. Fyrir suma er það nánast svolítil opinberun, að átta sig á þessu. Margir segja meira að segja, ég vildi að ég hefði byrjað á þessu fyrr.“

Kennum börnunum að flýta sér
Verður MBCT beitt í þunglyndismeðferð í auknum mæli á næstunni? „Við höfum hug á að nota samskonar aðferðir og Mark Williams og félagar hafa gert við meðferð á endurteknu þunglyndi. Sú meðferð er orðin hluti af opinberum leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda, til dæmis í Bretlandi. Þessi nálgun höfðar mjög til okkar í vestrænum samfélögum, þar sem alltaf er verið að tala um hraða og streitu og tímaleysi. Eitt það fyrsta sem við kennum börnunum okkar, er að drífa sig og flýta sér. En eitt af því ánægjulega við þessar aðferðir er hvað þær gera mikið fyrir okkur sjálf,“ segir Þórgunnur.

Margrét tekur undir það. „Mér finnst þessi nálgun nýtast mjög vel faglega og fátt af því sem ég hef lært eða tileinkað mér í minni þjálfun í gegnum tíðina hefur gagnast mér jafnvel í mínu persónulega lífi.“ Ragnar segir loks, að innan klínískrar sálfræði hafi verið heitar umræður um hugrænar aðferðir upp á síðkastið og sífellt komi fram nýjar rannsóknir og greinar um þetta efni og meðferð sem verið sé að þróa, meira að segja fyrir börn. „Vandamál fólks eru auðvitað mismunandi en það er áhugi fyrir því að bæta meðferð með þessari nálgun við hér. Það gerir mann vissulega ríkari í sínu starfi að hafa þessa færni í handraðanum,“ segir hann.

Í hnotskurn
» Mark Williams telur að þunglyndi sé að aukast, m.a. vegna þess að fólk verður þunglynt í fyrsta sinn yngra en áður.
» Hann vill kenna fólki sem glímt hefur við þunglyndi og tekið lyf aðferðir til að viðhalda heilbrigði sínu.
» Með hugleiðslu er hægt að kenna fólki búa til fjarlægð á neikvæðar hugsanir og skilja hvernig þær eitra hugann.