Skip to main content
Greinar

Hárs­breidd­in á milli lífs og dauða

By September 19, 2016No Comments
Einar Áskelsson.

Ein­ar Áskels­son greinarhöfundur

„Það er um ár síðan ég var á botni veik­inda minna. Sem ég hvorki hélt né gat vitað að flokkaðist und­ir veik­indi þó varla telj­ist það eðli­legt að lifa við 4-5 ofsa­kvíða- og panik­köst á dag, sem hvert gat staðið yfir í um 2 klst. Þannig var mitt líf hvern ein­asta dag í lengri tíma en ég vil muna. Það fór stig­versn­andi frá því ég fór að finna fyr­ir ein­kenn­um um sum­arið 2013, 2 árum fyrr,“ seg­ir Ein­ar Áskels­son í sín­um nýj­asta pistli:

Veik­ind­in höfðu hægt og bít­andi mulið í agn­ir lífið sem ég átti. Sam­búð, fjár­mál, at­vinnu ásamt hús­næði og bíl. Ég var hræðilega illa far­inn á lík­ama og sál og hætt kom­inn. Samt barðist ég á hæl og hnakka í von að ástandið myndi lag­ast. Að ég væri veik­ur hvarflaði ekki að mér. Ég hafði verið alls­gáður síðan haustið 1993 og ekki var hægt að benda á mis­notk­un á áfengi og öðrum vímu­efn­um sem ástæðu! Var blá­edrú í gegn­um veik­ind­in. Ég átti því afar erfitt að sjá og viður­kenna að ég gæti verið and­lega veik­ur. Ekk­ert blóð, eng­in „patent“ skýr­ing og svo bar ég mig alltaf vel út á við. Síðustu 2 vik­urn­ar hafði ég reynd­ar lokað mig af.  Kannski var ég að beita for­dóm­um á sjálf­an mig?

Ég fékk hjálp hjá sál­fræðingi sem ég vissi af. Núm­erið hans var enn í sím­an­um mín­um. Sem bet­ur fer! Hann var fljót­ur að greina mig. „Burnt out (kuln­un)“ þ.e. orku­laus lík­am­lega og and­lega. Búið á tankn­um. Sem af­leiðing af því sem heit­ir á ensku „Comp­l­ex Post Traumatic Stress Disor­der (CPTSD)“. Líka til „bara“ „Post Traumatic Stress Disor­der (PTSD)“. Í mínu til­felli fór niðurgraf­inn sárs­auki úr áföll­um í æsku að brjót­ast fram (sum­arið 2013) og um leið varð ég veik­ur. Þetta er mjög þekkt og ég hef alltaf verið í áhættu­hóp án þess að vita það. Auðvitað hefði ég átt að leita hjálp­ar strax 2013 en ég vissi ekki að þetta gæti verið svona al­var­legt eða yf­ir­höfuð veik­indi! Á 2 árum fór „þetta“ CPTSD eins og vírus að mylja mig niður hægt og bít­andi með sár­um af­leiðing­um. Ef ekk­ert er gert þá get­ur endað illa. Stóru ein­kenni mín voru fyrr­nefnd ofsa­kvíða- og panik­köst. End­urupp­lif­un á sárs­auka áfalla. Ég veit að þetta hef­ur verið skil­greint sem áfall­a­streiturösk­un á ís­lensku. Mér hef­ur þótt umræðan um það hug­tak sem og áfall­a­streitu vera þannig að búið sé að gjald­fella þau. Hef því forðast að setja þannig stimp­il á mín veik­indi en út­skýrt frek­ar hvernig þau lýsa sér.

Ég var orðinn and­lega veik­ur sem ég vissi að þykir svo­lítið tabú í þjóðfé­lag­inu. Ég fékk batapl­an frá sál­fræðingi og fór eft­ir því í einu og öllu. Þorði ekki öðru. Að and­leg veik­indi séu tabú og enn skuli líðast for­dóm­ar varð til þess að mig langaði að spyrna á móti. Ég hafði verið op­inn á face­book á meðan ég var veik­ur og alltaf óbeint að kalla á hjálp! Ég upp­lifði því enga skömm að vera kom­inn í þessa stöðu, með þessa grein­ingu, held­ur létti. Líðan mín og geta var þannig að ég var í full­um van­mætti. Ég hafði skrifað heil­mikið á meðan ég var veik­ur sem og samið ljóð. Þetta hjálpaði mér gríðarlega á erfiðum stund­um. Tjá mig við sjálf­an mig. Ótrú­leg sjálfs­hjálp fólg­in í því. Ég tók mig til og fór að skifa um mín veik­indi út frá ýms­um hliðum. Byrjaði að birta op­in­ber­lega þegar ég var kom­inn í betra jafn­vægi rétt fyr­ir sl. jól. Ég var skít­hræd­ur að gera þetta en þetta var líka liður í að æfa mig að stíga inn í ótt­ann. Birt­ist pist­ill sem virt­ist vekja það mikla at­hygli að DV.is óskaði eft­ir að birta grein um hann. Það var allt í fína en auðvitað var þetta allt of mik­il at­hygli í ein­um pakka! Ég var í nokkra daga að jafna mig á því. Ég mátti ekki missa mig á flug.

Skrif­in voru í þeim til­gangi að ég gekk með í mag­an­um (og geri enn) að skrifa lífs­reynslu­sög­una mína. Ég fór að vinna pistla upp úr þeim skrif­um og hef birt nokkuð reglu­lega á þessu ári. Þeir eru fyrst og fremst mín sjálfs­hjálp. Ann­ar til­gang­ur að gefa af mér til annarra (sem ég hef fundið gríðarlega mikið fyr­ir) og svo að stuðla að opn­ari umræðu um and­leg veik­indi í þjóðfé­lag­inu. Og ekki veit­ir af. Ég birti aldrei neitt nema að vel at­huguðu máli og ég hafi öðlast nægj­an­legt frelsi gagn­vart því sem ég op­in­bera. Kúnst að koma viðkvæm­um per­sónu­leg­um mál­um frá sér í orðum án þess að fara of djúpt og/​eða blanda þriðja aðila inn í um­fjöll­un­ina. Held mér hafi tek­ist þetta þokka­lega.

Að skrifa og birta op­in­ber­lega hef­ur gefið mér mikið. Um leið kynnst bet­ur stöðunni sem and­lega veikt fólk er í. Ég hef fengið urm­ul af skeyt­um og kveðjum sem flest snú­ast um þakk­læti frá fólki að gefa sér t.d. von. Ég áttaði mig ekki fyrst hversu mikið pistl­arn­ir voru lesn­ir hvað þá að hjálpa öðrum. Betri gjaf­ir gat ég ekki fengið.

Ég fór að vel at­huguðu máli í stórt helgar­viðtal við DV. Vissu­lega vakti það at­hygli og vissu­lega ekki all­ir hrifn­ir af því. Ég vissi ég væri að taka ákveðna áhættu. Mér fannst tak­ast vel til með frá­sögn­ina og hún átti ekki að stuða neinn. Lýs­ing mín á hvað hefði gengið á. Það stóð ekki á viðbrögðunum. Bjóst við ýmsu en aldrei þessu sem gekk á í nokkra daga. Ókunn­ugt fólk hringdi í mig til að spjalla og þakka mér fyr­ir. Skeyt­in ótelj­an­leg. Ekki ein­ung­is frá fólki sem var að sam­sama sig við mína reynslu held­ur fólki sem vildi bara þakka mér fyr­ir. Ég var hrærður og síðan meyr af þakk­læti. Það munaði ekki miklu að ég þægi viðtal í haust rétt mánuði eft­ir að ég fór að klífa bata­stig­ann. Það viðtal var komið vel í vinnslu þegar ég hætti við. Bless­un­ar­lega. Ég var ekki til­bú­inn þá og hefði aldrei getað höndlað viðbrögðin eft­ir það viðtal.

Ég ákvað í þessu viðtali að stíga fram og lýsa að maður eins og ég, sem hafði lifað eðli­legu lífi, gæti veikst and­lega og því ætti það ekki að vera feimn­is­mál. And­leg veik­indi eru ým­iss kon­ar og fólk mis­jafn­lega veikt. Það gild­ir það sama um lík­am­leg veik­indi. Það á ekki að gera grein­ar­mun þarna á milli.

Já, eins og ég hef end­ur­tekið, liðið ár frá því ég fór að vinna í bat­an­um mín­um. Það er ljúft að hugsa til baka og upp­lifa já­kvæðan mun. Fyr­ir utan CPTSD þá hef­ur það verið, og er, tíma­frekt að kljást við „burnt out“ (kuln­un­in). Var sagt við mig að þetta tæki 1 – 2 ár og það er ekk­ert of­mat. Hef nokkr­um sinn­um brennt mig á bjart­sýn­inni og ætlað að fram­kvæma eitt­hvað sem mér þótti eðli­legt en ræð ekki við í dag. Ég er á réttri leið og all­ar lík­ur á að mér tak­ist að kom­ast þokka­leg­ur til baka. Ég verð aldrei sam­ur en það þarf ekki að merkja sem nei­kvætt.

Ég vinn sam­kvæmt 3 mánaða plani út árið og mark­miðið er að kom­ast „til baka“. Hvað ég tek mér fyr­ir hend­ur í framtíðinni er óráðið. Tek ákvörðun þegar nær dreg­ur. Ég finn löng­un til að halda áfram að gefa af mér. Ég ætla að rita lífs­reynslu­sög­una mína. Finn að það er eitt­hvað sem ég verð að losa mig við til að geta horft fram á veg­inn!

Ég vil helst ekki gera upp á milli skeyta sem mér hafa borist en eitt stend­ur þó upp úr. Það fékk mig líka til að hugsa um framtíðina mína. Í hvað ætti ég að nota krafta, þekk­ingu og eig­in­leika mína?

Ég fékk 3-4 stutt­orð skeyti í einni bunu. Þau voru á þá leið að viðkom­andi hefði ákveðið að taka eigið líf deg­in­um áður. Rek­ist á pist­il eft­ir mig sem snerti viðkom­andi nóg til að hætta við. Hafði þegar haft sam­band við sinn lækni og gert ráðstaf­an­ir. Vildi láta mig vita. Mér kross­brá. Ég náði að hafa sam­band við viðkom­andi og full­vissa mig um að allt yrði í lagi og við átt­um sam­an stutt spjall. Hef svo fylgst með úr fjar­lægð. Hver var þetta? Venju­leg mann­eskja sem er full­ur þátt­tak­andi í líf­inu. Lenti í djúpri geðlægð og var hárs­breidd frá dauðanum! Ég er ekki að þakka mér fyr­ir en gladdi mig óend­an­lega að hafa getað átt þátt í þessu. Þetta var mín end­an­lega sönn­un á til­gangi mín­um að vera op­in­skár um mín veik­indi og ekki síst minn bata í dag.

Elsku­lega fólk. And­leg veik­indi spyrja ekki um stétt né stöðu. Þú veist aldrei hvað bíður. Þú veist aldrei hvort ein­hver ná­lægt þér, t.d. í vinn­unni, sé að glíma við erfið and­leg veik­indi. Þess vegna þreyt­ist ég ekki að minna á að koma fal­lega fram við alla. Ef viðkom­andi aðili sem ég nefndi hefði lent í erfiðu mót­læti þenn­an dag í stað þess að upp­lifa já­kvætt úr mín­um pistli, þá væri hann ekki leng­ur á meðal oss.

Á meðan ég lifi og hef heilsu til þá held ég áfram að gefa af mér og hjálpa öðrum. Ég finn mér von­andi vett­vang til þess í framtíðinni, hver veit? Í það minnsta læt gott af mér leiða.

Greinin birtist upphaflega á mbl.is