„Það er um ár síðan ég var á botni veikinda minna. Sem ég hvorki hélt né gat vitað að flokkaðist undir veikindi þó varla teljist það eðlilegt að lifa við 4-5 ofsakvíða- og panikköst á dag, sem hvert gat staðið yfir í um 2 klst. Þannig var mitt líf hvern einasta dag í lengri tíma en ég vil muna. Það fór stigversnandi frá því ég fór að finna fyrir einkennum um sumarið 2013, 2 árum fyrr,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
Veikindin höfðu hægt og bítandi mulið í agnir lífið sem ég átti. Sambúð, fjármál, atvinnu ásamt húsnæði og bíl. Ég var hræðilega illa farinn á líkama og sál og hætt kominn. Samt barðist ég á hæl og hnakka í von að ástandið myndi lagast. Að ég væri veikur hvarflaði ekki að mér. Ég hafði verið allsgáður síðan haustið 1993 og ekki var hægt að benda á misnotkun á áfengi og öðrum vímuefnum sem ástæðu! Var bláedrú í gegnum veikindin. Ég átti því afar erfitt að sjá og viðurkenna að ég gæti verið andlega veikur. Ekkert blóð, engin „patent“ skýring og svo bar ég mig alltaf vel út á við. Síðustu 2 vikurnar hafði ég reyndar lokað mig af. Kannski var ég að beita fordómum á sjálfan mig?
Ég fékk hjálp hjá sálfræðingi sem ég vissi af. Númerið hans var enn í símanum mínum. Sem betur fer! Hann var fljótur að greina mig. „Burnt out (kulnun)“ þ.e. orkulaus líkamlega og andlega. Búið á tanknum. Sem afleiðing af því sem heitir á ensku „Complex Post Traumatic Stress Disorder (CPTSD)“. Líka til „bara“ „Post Traumatic Stress Disorder (PTSD)“. Í mínu tilfelli fór niðurgrafinn sársauki úr áföllum í æsku að brjótast fram (sumarið 2013) og um leið varð ég veikur. Þetta er mjög þekkt og ég hef alltaf verið í áhættuhóp án þess að vita það. Auðvitað hefði ég átt að leita hjálpar strax 2013 en ég vissi ekki að þetta gæti verið svona alvarlegt eða yfirhöfuð veikindi! Á 2 árum fór „þetta“ CPTSD eins og vírus að mylja mig niður hægt og bítandi með sárum afleiðingum. Ef ekkert er gert þá getur endað illa. Stóru einkenni mín voru fyrrnefnd ofsakvíða- og panikköst. Endurupplifun á sársauka áfalla. Ég veit að þetta hefur verið skilgreint sem áfallastreituröskun á íslensku. Mér hefur þótt umræðan um það hugtak sem og áfallastreitu vera þannig að búið sé að gjaldfella þau. Hef því forðast að setja þannig stimpil á mín veikindi en útskýrt frekar hvernig þau lýsa sér.
Ég var orðinn andlega veikur sem ég vissi að þykir svolítið tabú í þjóðfélaginu. Ég fékk bataplan frá sálfræðingi og fór eftir því í einu og öllu. Þorði ekki öðru. Að andleg veikindi séu tabú og enn skuli líðast fordómar varð til þess að mig langaði að spyrna á móti. Ég hafði verið opinn á facebook á meðan ég var veikur og alltaf óbeint að kalla á hjálp! Ég upplifði því enga skömm að vera kominn í þessa stöðu, með þessa greiningu, heldur létti. Líðan mín og geta var þannig að ég var í fullum vanmætti. Ég hafði skrifað heilmikið á meðan ég var veikur sem og samið ljóð. Þetta hjálpaði mér gríðarlega á erfiðum stundum. Tjá mig við sjálfan mig. Ótrúleg sjálfshjálp fólgin í því. Ég tók mig til og fór að skifa um mín veikindi út frá ýmsum hliðum. Byrjaði að birta opinberlega þegar ég var kominn í betra jafnvægi rétt fyrir sl. jól. Ég var skíthrædur að gera þetta en þetta var líka liður í að æfa mig að stíga inn í óttann. Birtist pistill sem virtist vekja það mikla athygli að DV.is óskaði eftir að birta grein um hann. Það var allt í fína en auðvitað var þetta allt of mikil athygli í einum pakka! Ég var í nokkra daga að jafna mig á því. Ég mátti ekki missa mig á flug.
Skrifin voru í þeim tilgangi að ég gekk með í maganum (og geri enn) að skrifa lífsreynslusöguna mína. Ég fór að vinna pistla upp úr þeim skrifum og hef birt nokkuð reglulega á þessu ári. Þeir eru fyrst og fremst mín sjálfshjálp. Annar tilgangur að gefa af mér til annarra (sem ég hef fundið gríðarlega mikið fyrir) og svo að stuðla að opnari umræðu um andleg veikindi í þjóðfélaginu. Og ekki veitir af. Ég birti aldrei neitt nema að vel athuguðu máli og ég hafi öðlast nægjanlegt frelsi gagnvart því sem ég opinbera. Kúnst að koma viðkvæmum persónulegum málum frá sér í orðum án þess að fara of djúpt og/eða blanda þriðja aðila inn í umfjöllunina. Held mér hafi tekist þetta þokkalega.
Að skrifa og birta opinberlega hefur gefið mér mikið. Um leið kynnst betur stöðunni sem andlega veikt fólk er í. Ég hef fengið urmul af skeytum og kveðjum sem flest snúast um þakklæti frá fólki að gefa sér t.d. von. Ég áttaði mig ekki fyrst hversu mikið pistlarnir voru lesnir hvað þá að hjálpa öðrum. Betri gjafir gat ég ekki fengið.
Ég fór að vel athuguðu máli í stórt helgarviðtal við DV. Vissulega vakti það athygli og vissulega ekki allir hrifnir af því. Ég vissi ég væri að taka ákveðna áhættu. Mér fannst takast vel til með frásögnina og hún átti ekki að stuða neinn. Lýsing mín á hvað hefði gengið á. Það stóð ekki á viðbrögðunum. Bjóst við ýmsu en aldrei þessu sem gekk á í nokkra daga. Ókunnugt fólk hringdi í mig til að spjalla og þakka mér fyrir. Skeytin óteljanleg. Ekki einungis frá fólki sem var að samsama sig við mína reynslu heldur fólki sem vildi bara þakka mér fyrir. Ég var hrærður og síðan meyr af þakklæti. Það munaði ekki miklu að ég þægi viðtal í haust rétt mánuði eftir að ég fór að klífa batastigann. Það viðtal var komið vel í vinnslu þegar ég hætti við. Blessunarlega. Ég var ekki tilbúinn þá og hefði aldrei getað höndlað viðbrögðin eftir það viðtal.
Ég ákvað í þessu viðtali að stíga fram og lýsa að maður eins og ég, sem hafði lifað eðlilegu lífi, gæti veikst andlega og því ætti það ekki að vera feimnismál. Andleg veikindi eru ýmiss konar og fólk misjafnlega veikt. Það gildir það sama um líkamleg veikindi. Það á ekki að gera greinarmun þarna á milli.
Já, eins og ég hef endurtekið, liðið ár frá því ég fór að vinna í batanum mínum. Það er ljúft að hugsa til baka og upplifa jákvæðan mun. Fyrir utan CPTSD þá hefur það verið, og er, tímafrekt að kljást við „burnt out“ (kulnunin). Var sagt við mig að þetta tæki 1 – 2 ár og það er ekkert ofmat. Hef nokkrum sinnum brennt mig á bjartsýninni og ætlað að framkvæma eitthvað sem mér þótti eðlilegt en ræð ekki við í dag. Ég er á réttri leið og allar líkur á að mér takist að komast þokkalegur til baka. Ég verð aldrei samur en það þarf ekki að merkja sem neikvætt.
Ég vinn samkvæmt 3 mánaða plani út árið og markmiðið er að komast „til baka“. Hvað ég tek mér fyrir hendur í framtíðinni er óráðið. Tek ákvörðun þegar nær dregur. Ég finn löngun til að halda áfram að gefa af mér. Ég ætla að rita lífsreynslusöguna mína. Finn að það er eitthvað sem ég verð að losa mig við til að geta horft fram á veginn!
Ég vil helst ekki gera upp á milli skeyta sem mér hafa borist en eitt stendur þó upp úr. Það fékk mig líka til að hugsa um framtíðina mína. Í hvað ætti ég að nota krafta, þekkingu og eiginleika mína?
Ég fékk 3-4 stuttorð skeyti í einni bunu. Þau voru á þá leið að viðkomandi hefði ákveðið að taka eigið líf deginum áður. Rekist á pistil eftir mig sem snerti viðkomandi nóg til að hætta við. Hafði þegar haft samband við sinn lækni og gert ráðstafanir. Vildi láta mig vita. Mér krossbrá. Ég náði að hafa samband við viðkomandi og fullvissa mig um að allt yrði í lagi og við áttum saman stutt spjall. Hef svo fylgst með úr fjarlægð. Hver var þetta? Venjuleg manneskja sem er fullur þátttakandi í lífinu. Lenti í djúpri geðlægð og var hársbreidd frá dauðanum! Ég er ekki að þakka mér fyrir en gladdi mig óendanlega að hafa getað átt þátt í þessu. Þetta var mín endanlega sönnun á tilgangi mínum að vera opinskár um mín veikindi og ekki síst minn bata í dag.
Elskulega fólk. Andleg veikindi spyrja ekki um stétt né stöðu. Þú veist aldrei hvað bíður. Þú veist aldrei hvort einhver nálægt þér, t.d. í vinnunni, sé að glíma við erfið andleg veikindi. Þess vegna þreytist ég ekki að minna á að koma fallega fram við alla. Ef viðkomandi aðili sem ég nefndi hefði lent í erfiðu mótlæti þennan dag í stað þess að upplifa jákvætt úr mínum pistli, þá væri hann ekki lengur á meðal oss.
Á meðan ég lifi og hef heilsu til þá held ég áfram að gefa af mér og hjálpa öðrum. Ég finn mér vonandi vettvang til þess í framtíðinni, hver veit? Í það minnsta læt gott af mér leiða.
Greinin birtist upphaflega á mbl.is