FréttirGeðheilbrigðismál

Hafdís Huld skrifar í Grafarvogsblaðið

By júní 3, 2015No Comments

Vil þakka fyrir grein sem birtist hér fyrir nokkru í septemberútgáfu blaðsins, eftir Einar Hermannsson. Það er þannig að hverskyns opin umræða kallar á meiri umræðu. Þar kom hann inná að vera vakandi fyrir velferð unga fólksins okkar.
Mig langar að grípa boltann á lofti og halda áfram með þá umræðu.
Að standa með og hlusta, vera manneskja til að takast á við verkefni sem koma upp og klífa þau fjöll sem þarf að klífa. Hver eru svo þessi fjöll eða hæðir, dældir eða sléttur? Verkefni daglegs lífs jafnvel sem geta reynt á og verið krefjandi en mikið ósköp er það gefandi og áhrifaríkt að standa með unga fólkinu og styðja þau í gegnum hlutina. Sjá þau finna styrkinn sinn og halda ótrauð áfram í næsta verkefni.
Hafdís HuldÞað þarf stundum ekki mikið til að eitthvað sýnist of stórt, það getur undið uppá sig og orðið stærra ef ekki er talað um það og leitað eftir aðstoð ef þarf.
Því á þessum árum er maður að læra, fikra sig áfram og jafnvel fara aftur á bak, gera mistök og vinna litla sem stóra sigra. Mistök eru hluti af ferlinu, lærdómurinn er sá að prófa og læra. Að dæma er manni tamt en að horfa og dást að er minna gert af. Hver og einn er á sínum forsendum, flest á sér sögu og maður getur ekki verið inní öllu hjá öllum.
Ég sjálf veiktist af geðsjúkdómi þegar ég var að byrja í menntaskóla, vegferðin til bata var löng en nú í dag hafa orðið miklar breytingar til batnaðar í okkar samfélagi.
Að veikjast setur heiminn dálítið á hvolf sem manneskja, móðir, maki ofl. En ég hef fundið bata. Það hefur verið mikil vinna en leitt til innihaldsríka lífs. Leiðin hingað hefur á tíðum verið torsótt en opnari umræða um geðheilbrigðismál hjálpar. Leiðin til bata er grýtt á köflum en bertri en heima setið.
Það er hægt að ná bata, vil ég undirstrika svo fjöldamargar leiðir eru til þess og hver og einn þarf að taka sína stefnu og við hin að vera vakandi og til staðar þegar á reynir.
Það er enginn dómur að fara út af leið, að veikjast eða finna ekki ljósið um sinn. Það er alltaf leið útúr slíku og heimurinn er ekki eins fullkominn eins og hann lítur út fyrir að vera, það eru allir að kljást við eitthvað. Það græðist svo mikið á að leita sér hjálpar fyrr en seinna, tíminn er dýrmætur og allt lífið framundan. Ef manni tekst ekki að fá aðstoð á einum stað, leita þá bara annað. Finna leið sem hentar og ekki vera óhræddur við að taka áhættu eða stíga skrefið. Að taka ekki þetta skref getur tafið mann og það þarf oft að nota hugrekki því það að bíða eftir að hlutir lagist er bara oft ekki að virka. Ef maður vill breytingar þarf maður oft að breyta hegðun, hugsun eða gjörðum. Eitt er víst að það sem maður er, er bara feyki gott. Maður getur oft miklu meir en maður heldur og þó maður fái ekki alltaf hrósið sem maður á skilið þá getur maður allavega gefið sér klapp á öxlina og sagt, ég er nógu góð/ur.
Maðurinn minn hefur lengi verið virkur í foreldrastarfi innan íþróttanna í Fjölni, ég oft sem bekkjarfulltrúi í skóla drengjanna minna og nú í stjórn foreldrafélagsins. Þetta starf, að vera í þessu almenna foreldrahlutverki og svo að kynnast þessum krökkum sem standa allt í kring er blessun. Við erum mun ríkari og það að hitta einhvern úr þessum hóp þar sem maður fær glaðlegt bros eða heilsað kumpánalega er svo dýrmætt. Við höfum komið að skipulagningu utanlandsferða, útskriftarferðar, bekkjarkvölda, smáir sem stærri viðburðir. Farið með og skemmt okkur oft jafnvel og krakkarnir. Þegar þau finna að einhver lætur sig varða hefur það áhrif, aðstæður hvers og eins eru ólíkar og það að gefa sig að eða brosa getur skipt sköpum.
Það er svo mismunandi sem fólk talar um sem vendipúnt, þegar hlutir fóru að ganga betur, kennari, einhver fyrirmynd, atvik, ég eða jafnvel þú. Það er á hreinu að við erum hluti af heild sem skiptir svo sannarlega miklu máli.
Með þessu er ég ekki að stæra mig af verkum okkar, það fer tími í þetta en þessum tíma er vel varið. Að sjá fótboltafélaga sonar míns fagna Markúsi eins og kóngi, heilsa honum innilega og spjalla svo um heima og geyma, á jafningjagrunni er ólýsanlegt. Það er þeim mikilvægt og í raun eitthvað sérstakt.
Útlitsdýrkun og það að standa sig vel í skóla eða hinni og þessari íþróttagreininni er ekki aðal málið. Það sem skiptir í raun máli er að hver og einn blómstri inn á við á sínum forsendum.